18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hér liggur frammi til umr. till. um lagningu bundins slitlags á þjóðvegi. Þessari till. hefur verið fylgt úr hlaði með mjög tölulegum málflutningi; enda er till. í sjálfu sér góð að því leyti, að þarna er talað um markmið sem við öll viljum að sjálfsögðu keppa að, að gera aðalvegakerfi landsins sæmilega úr garði, sem er meira en sagt verður um ástand þjóðvega almennt í dag. Ég vil taka fram strax, að ég er hjartanlega sammála 1. flm., hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, um það atriði, að mikill vandi okkar vegamála hljóti að leysast með þeim hætti að auka tekjur Vegasjóðs, auka hlutdeild Vegasjóðs í bensínskatti sem nú er óeðlilega lítil eins og hann færði töluleg rök fyrir. Ég minnist þess líka að hæstv. samgrh. benti við afgreiðslu vegáætlunar í vor á allt of naum fjárráð Vegasjóðs, og hann benti sömuleiðis á að lánsfé til vegamála mundi aukast úr 1000 millj. kr. árið áður upp í 1600 millj. á þessu ári, sem er alldrjúgur skildingur. Og þar staðnæmist ég einmitt við eitt af þeim atriðum sem ég tel hæpið í tillöguflutningi þeirra hv. alþm., Ólafs G. Einarssonar og Jóns Helgasonar, að þar er gert ráð fyrir innlendum eða erlendum lántökum. Ég hef oft og ítrekað látið það í ljós á Alþ. upp á síðkastið að mér fellur illa þegar ég sé koma frá stjórnarþm. þingmál sem fela í sér auknar erlendar lántökur. Ég heyri ekki betur og ég fæ ekki betur skilið okkar efnahagsstöðu nú, en að erlendu skuldirnar séu það sem okkur stafar hvað mest hætta af og við þurfum að hafa meiri hemil á en við höfum haft á undanförnum árum. Þess vegna tel ég að þó að gott mál sé annars vegar þar sem bætt vegakerfi er, þá réttlæti það ekki till. um auknar erlendar lántökur.

Um það, sem hv. þm. Páll Pétursson sagði um stefnumörkun þessarar till. og kom raunar greinilega fram í máli flm., þá vil ég segja það, að ég er hlynntari stefnu þeirri, sem kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni, enda er ég flm. ásamt honum að annarri till. um vegamál sem gengur nokkuð í öfuga átt við þessa að því er stefnumörkun varðar. Þó vil ég segja það strax, að ef ég hefði samið þá till., sem ég vitnaði í, um byggingu vega upp úr snjó, þá hefði ég ekki vogað mér að minnast á erlendar lántökur, en þar er það gert einnig. Við höfum steypt okkur út í feiknalegar erlendar lántökur, fyrst og fremst vegna þess flokks sem við höfum yfirlýst sem forgangsmálaflokk, og það eru orkumálin. Og það er að mínu áliti fyllilega réttlætanlegt vegna þess að við erum að stefna til aukins sparnaðar í brennslu erlendra orkugjafa. Þess vegna getum við réttlætt fyrir okkur þær risavöxnu erlendu lántökur sem ganga til orkumála. Ég held að við hljótum að takmarka okkur við einn málaflokk í einu og sjá — að ég ekki segi fyrir endann á orkumálunum, heldur kannske fyrir erfiðasta hjalla orkumálanna, áður en við steypum okkur út í sérstakar stórframkvæmdir í vegamálum.

Það var talað um það af hálfu flm., að að því er varðaði fjármögnun þessarar till. væri um þrjár leiðir að ræða: 1. að draga úr öðrum framkvæmdum, 2. meira lánsfé, 3. auknar fjárveitingar, — ef ég hef náð þessu rétt.

Ég þykist nokkurn veginn víss um það, eins og hv. þm. Páll Pétursson, að raunin yrði sú að fyrsta leiðin yrði framkvæmd, þ.e.a.s. að það yrði dregið úr öðrum framkvæmdum. Ég lýsi áhyggjum mínum yfir, eftir að hafa heyrt álit manna, sem til þekkja úti um byggðir landsins, og einnig manna, sem vinna að okkar vegagerðarmálum hér hjá Vegagerð ríkisins, þá lýsi ég áhyggjum mínum yfir því ef á að dragast öllu lengur að bætt sé um þá vegi sem allra verst eru settir í byggðum landsins. Hv. þm. Páll Pétursson benti réttilega á það, að í fjölmörgum tilvíkum er svo ástatt nú að bændur koma ekki frá sér afurðum sínum né aðdrætti sínum heim til sin aftur nema með óhæfilegri fyrirhöfn. Ég held ég hafi áður vitnað í það, að ég veit að vestfirskir bændur þurfa að taka allt að því heilan dag í það að berjast í snjósköflum með mjólkina sína niður að næstu ferjubryggju þar sem flutningar fara fram á sjó. Ég hygg að það sé langtum ódýrara verkefni, þó ég viti að það muni kosta mikla fjármuni, að taka fyrir með skipulegum hætti þessa verstu farartálma í byggðum landsins þar sem ár eftir ár leggjast undir snjó sömu spottarnir sem þarf að byggja upp. Það er eina leiðin til þess að koma málum þessara sveitabyggðarlaga í víðunandi horf. Ég hef spurt vegagerðarmenn um þetta atriði. Þeir hafa að sjálfsögðu sagt að þarna væri fjárfrekt verkefni líka annars vegar, en það fer auðvitað allt eftir því hvað víðtækt við gerum verkefnið. Ég tel að áætlun næstu 4–5 árin um að afnema þessa verstu snjóþungu vegartálma, það sé verkefni sem hljóti að koma á undan bundnu slitlagi um hringveginn. Og ég er ekki komin til með að viðurkenna að umferðin sé meiri á hringveginum almennt, nema þá kannske 3–4 mánuði ársins, heldur en á þeim vegum þar sem sveitabyggðir þurfa að hafa samband við næstu þjónustumiðstöð, aðliggjandi sveitarhérað við næsta kaupstað og útgerðarpláss, sem hvort þarf á öðru að halda. Þar er umferðin býsna stöðug og að ég hygg eins mikil og um suma hverja þá kafla af hringveginum sem mundu koma inn í þessa áætlun tillögumanna.

Ég er ekki á móti þessari till., ég vil taka það fram. Ég er ekki á móti þessu verkefni. Að sjálfsögðu viljum við öll fá hætt ástand á hringveginum og aðalþjóðvegum landsins. En ég vil aðeins benda á að þarna eru verkefni sem hafa verið vanrækt árum saman. Vegagerðarmönnum hvar sem er af landinu ber saman um að viðhaldsvegafé hafi verið stillt svo í hóf, að ekki sé meira sagt, það hafi verið skorið svo við nögl að til vandræða horfi um almennt viðhald veganna. Veit ég vel að bundið slitlag mundi létta viðhaldinu. Veit ég það vel. En það nær ekki til þeirra vega sem ég er að tala um, — þessi áætlun um hringveginn og helstu vegi út frá honum.

Á sama tíma og við viðurkennum að viðhald veganna úti um sveitir landsins er óviðunandi, þá tölum við um, og gerum meira en að tala um: við verjum 1800 millj. kr. í eina brú yfir Borgarfjörð, sem ég viðurkenni að ég hef verið hlynnt af því að það er mikil framkvæmd og kemur mörgum að gagni. Og nú er talað um að byggð skuli brú yfir Ölfusá á milli Þorlákshafnar og sveitanna þar fyrir austan. Það mun kosta, að ég hygg, ekki undir 2–3 milljörðum. Ef við höfum næga peninga til að framkvæma þetta allt, þá segi ég: gott og vel, þá óska ég okkur til hamingju. En ég er hrædd um að það verði enn sem fyrr þessir niðurgröfnu troðningar sem ár eftir ár valda mönnum ólýsanlegum erfiðleikum, — ég er hrædd um að það verði þeir enn sem fyrr sem fá að bíða á meðan þetta verkefni, sem ég tel að yrði forgangsverkefni, nyti þeirra fjármuna sem við yfirleitt getum lagt til vegamála.