18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Það mátti nærri því skilja á máli síðasta hv. ræðumanns að það stefndi í það óefni að ekki yrði hægt að moka snjó af vegum í janúar vegna þess að ekki yrði búið að afgr. vegáætlun. Ég hygg að það verði alla vega búið að afgr. fjárl., og á fjárl. er gert ráð fyrir fé til viðhalds vega, og ég hygg að mokstur á snjó í vetur mundi ekki stranda á því.

En í sambandi við það að ekki er til vegáætlun fyrir næstu ár, þá er rétt að minna á það að nú undanfarið, nokkuð á annað ár ef ég man rétt, hafa verið í undirbúningi ný vegalög sem nú hefur verið lagt fram frv. um og gert er ráð fyrir að næsta vegáætlun verði í samræmi við þau nýju vegalög, sem væntanlega verða samþ. á Alþingi.

Annars kom ég hingað fyrst og fremst til þess að leggja áherslu á það, sem raunar hefur komið hér áður fram, að verkefni Alþ. í málum sem þessum hlýtur fyrst og fremst að vera stefnumarkandi. Það hlýtur að vera vottur um mikinn áhuga á vegamálum að á dagskrá þessa fundar eru tvær þáltill. um vegamál sem raunar eru báðar á sinn hátt stefnumarkandi, en ganga nokkuð sin í hvora áttina.

Ég er alveg ákveðið þeirrar skoðunar, að meðan jafnmargir menn búa við algjörlega ófullkomið vegasamband eins og nú ber raun vitni, þá verði að leggja aðaláherslu á undirstöðuatriðin í vegamálunum, aðaláherslu á að sinna frumþörfum fólksins í landinu til samgangna, og það verður ekki gert fyrr en gerðir hafa verið sómasamlegir malarvegir sem tiltölulega auðvelt er að halda opnum allan ársins hring, sem hvorki verða ófærir þó að það geri nokkra snjóa á vetrum eða í aurbleytum á vorin.

Hinu dettur mér ekki í hug að neita, að það er mikils um vert að fá bundið slitlag á vegina. Ég hef nú ekki fyrir mér nákvæmar tölur, en ég hygg þó að rétt sé að um það bil eða rösklega helmingur landsmanna aki flesta daga aðeins á vegum með bundnu slitlagi, en hinn helmingurinn býr við misjafnlega góða malarvegi og marga þeirra slæma. Skv. lauslegum tölum, sem ég hef fengið hjá Vegagerð ríkisins, þá skiptir hún vegunum í fjóra flokka. Tveir lakari flokkarnir eru annars vegar það sem kallað er ófullnægjandi vegir, hins vegar það sem kallað er slæmir vegir, og hér tala ég aðeins um þjóðvegina, ekki sýsluvegina. Skv. þessum tölum, sem ekki eru hárnákvæmar — ég vil taka það fram, telur Vegagerðin að ófullnægjandi séu að þessu leyti vegir sem ná yfir tæpa 1000 km, eða 995 km rúmlega, en mjög slæmir vegir í þjóðvegatölu séu 1865.9 km. Það er sem sagt hátt í 3000 km í þjóðvegakerfi landsins sem er að dómi Vegagerðarinnar annaðhvort ófullnægjandi vegir eða slæmir vegir.

Meðan svo er ástatt í hinum almennu samgöngumálum okkar á landi, í vegamálunum, þá finnst mér ekki aðeins eðlilegt, heldur sjálfsagt að höfuðáhersla sé lögð á að bæta ástandið þar sem það er lakast. Þetta þýðir ekki að við eigum að hætta að leggja bundið slitlag á vegi. Það þýðir vitanlega ekki það. Og ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt, að það er stórkostlegt framtíðarmál að svo sé gert. En mér finnst Alþ. eiga að vera stefnumarkandi um það hvernig þessum verkefnum sé raðað niður, þ.e.a.s. hvar höfuðþunginn sé á lagður hverju sinni. Þess vegna finnst mér eðlilegt að þessi mál séu rædd. Ég vil taka undir það, sem síðasti hv. ræðumaður sagði, að það er slæmt að samgrh. og fjmrh. skuli ekki vera hér viðstaddir. En þeir, sem í reynd þekkja hvernig þeir vegir eru sem eru ófærir víkum og mánuðum saman, annaðhvort vegna snjóa eða aurbleytu, þeir skilja mætavel að því fólki, sem við þetta býr, finnst að önnur vandamál í vegagerð séu harla smá miðað við þessi.

Ég tel ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að fjölyrða miklu frekar um það. Það má aðeins geta þess til dæmis, af því ég gat um kílómetratölu áðan í sambandi við ófullnægjandi vegi og slæma vegi, að í þessum tveimur hópum vega, sem taldir eru ófullnægjandi, eru í snjóléttari héruðum landsins, en þar tel ég fyrst og fremst Suðurland og Reykjanes, aðeins rúmlega 200 km. Langmest af þeim vegum, sem koma í tvo lökustu flokkana, eru því annars staðar en hér um suðurhluta landsins. Tiltölulega gott ástand er hvað þetta snertir á Vesturlandi. En þegar kemur norður um, þar sem snjóþyngslin eru meiri, þá lækkar hlutfall þess sem Vegagerðin kallar góðan veg, — fullnægjandi eru aðeins þessir fáu km sem eru þegar með bundnu slitlagi. næst koma svo góðir, uppbyggðir malarvegir. En þegar kemur um norðanvert landið, í strjálbýlli héruð og snjóþyngri, þá hækkar stórlega hlutfall ófullnægjandi eða slæmra vega í vegakerfinu.