18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

48. mál, litasjónvarp

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni, Sigurlaugu Bjarnadóttur, fyrir undirtektir hennar við þessa till. Ég fellst að öllu leyti á sjónarmið hennar og staðfesti það sem ég sagði hér áðan, að ég held, að það vakir það eitt fyrir mér með þessari till., að um leið og sjónvarpið fylgist með þróuninni í þessum efnum, þá sé þarna tilgangurinn sá að afla fjár til að bæta dreifikerfið um allt land.

Hvað varðar ræðu hv. þm. Jónasar Árnasonar, þá tek ég fram að nú sem áður var ræða hans vel samin af hans hálfu. En þessi rödd kemur aftan úr grárri forneskju og sannar enn einu sinni að hann er sennilega íhaldssamasti þm. sem situr innan þessara veggja, og í sjálfu sér er ekki nema gott eitt um það að segja, undir vissum kringumstæðum a.m.k. Hann talar um að sjónvarpið sé plága. Við getum deilt um það hvaða áhrif sjónvarpið hafi haft á þjóðlíf á Íslandi og annars staðar sem slíkt. Við getum rætt það lengi dags hvaða áhrif sjónvarpið hefur haft. Og ég get vel tekið undir það að vissu leyti að sjónvarpið hefur haft bæði slæm og góð áhrif og breytt lífsháttum fólks að mörgu leyti til hins verra. En við erum alls ekki að ræða um það hvort hér eigi að vera sjónvarp eða ekki. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að þetta tæki, þessi fjölmiðill er fyrir hendi, og þá er um að gera að reyna að haga því svo að hann sé til jákvæðrar áttar og hafi jákvæð áhrif. Ég get ímyndað mér það, að áður en útvarp kom til sögunnar hafi bókaormar haft hinn mesta ímugust á útvarpinu og talað um að það væri plága, alveg á sama hátt og þessi rödd heyrist núna um að sjónvarpið sé plága. Þetta er þróunin, sem við verðum að sætta okkur við, og þeir tímar, sem við lifum á.

Þessi tillaga er engin fordildartillaga. Hún er flutt af brýnni nauðsyn og á sér forsendur sem ég hef rakið hér og tel mjög mikilvægar og eigi fullan rétt á sér og það sé ekki sanngjarnt og ekki rétt að kalla tillöguna flutta af hvötum fordildar. Það er miklu frekar fordild af hálfu hv. þm. þegar hann neitar að horfast í augu við staðreyndir og forsendur og taka undir með mér þegar ég flyt till. Síðan getum við sameinast um það í mesta bróðerni, eins og okkar er beggja von og vísa, að haga útsendingum og efnisvali í sjónvarpinu þannig að það sé til réttrar uppbyggingar og til aukins þroska.

Það er sjálfsagt að viðurkenna að þessi till. sé flutt af áhrifum frá kjósendum. Auðvitað flyt ég ekki frekar en aðrir þm. till. hingað inn í þingið nema hafa orðið fyrir áhrifum og fyrir skoðanamótun annars staðar frá, utan þings, og ég held, að það sé engin ástæða til að skammast sín fyrir það. Þetta gerum við allir. En við leggjum auðvitað sjálfir mat á hvort það sé rétt að flytja þessar skoðanir, þessar hugmyndir hér inn í þingsalina. Það erum við sjálfir sem tökum þar ákvarðanir. Ég hugsa að það séu miklu fleiri mál, sem við vísum frá okkur og flytjum ekki, heldur en þau, sem við gerum að okkar hér innan þings. En áhrif kjósenda stafa af því, að ég vil leyfa fólkinu sjálfu að ráða hvort það nýtur þessa fjölmiðils og þessarar tómstundaiðju eða ekki. Ég vil leyfa því að ráða hvort það notfærir sér sjónvarpið sem menningartæki, sem uppeldistæki, frekar en eitthvað annað, svo sem bækur, útvarp eða hvers konar aðra ástundun. Munurinn á okkur, mér og hv. þm. Jónasi Árnasyni, er sjálfsagt sá, að ég vil leyfa fólkinu sjálfu að hugsa fyrir sig, tiltölulega frjálst. Ég hef ekki hugsað mér að standa hér upp á þingi og segja fólki, hvað það á að gera í frístundum sínum, ákveða það fyrir fram. Ég horfist í augu við það að sjónvarpið er fyrir hendi og það verður ekki aftur tekið. Ég vil reyna að laga það og hafa það sem best. Ég vil afla fjár til þess að það geti haft dagskrána sæmilega. Síðan vil ég láta fólkið sjálft ráða hvort það horfir á þennan dagskrárlið eða hinn og hvort það horfir á sjónvarpið í svarthvítu eða í lit. Og ég skal fullvissa hv. þm. um það, að þó að þessi till. sé samþykkt, þá getur hann áfram keypt tæki í svarthvítu efni og haldið áfram að horfa á það í sinni fordild.