18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

48. mál, litasjónvarp

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja hér örfá orð, sem stafar af algeru skilningsleysi mínu á þeim málflutningi sem hér hefur verið hafður uppi.

Það er talað um það í fyrsta lagi, að til þess að dreifa sjónvarpi um landið þurfi að afla fjár með innflutningi litasjónvarpstækja. Það er í öðru lagi skýrt frá því að allur sjónvarpskostur landsmanna sé ónýtur og þess vegna þurfi að endurnýja hann hvort sem er. Er þá ekki nokkuð sama hvort tekjurnar koma af innflutningi á sjónvarpstækjum, sem sýna svarthvíta mynd, eða litasjónvarpstækjum. Þennan rökstuðning fæ ég ekki skilið. Ég held að þetta séu ekki haldgóð rök. Hitt má vera, að það sé meira gaman fyrir einhverja að horfa á sjónvarp í litum, og það getur vel verið að fólk telji ekki eftir þann gjaldeyri sem fari til þess að veita fólki þann munað. Ég skal ekki segja um það. En þó heyrist mér á sumum hv. þm. sem hér hafa talað í dag, að þeir telji gjaldeyrisstöðuna ekki svo vænlega að á skuldir okkar sé bætandi.

En um sjónvarp almennt vil ég segja það, fyrst ég fór að taka hér til máls, að ég var á sínum tíma mjög fýsandi þess að hér yrði hafinn sjónvarpsrekstur. Það var fyrst og fremst vegna þess að í landinu var þá sjónvarp sem menn gátu horft á, á vissum stöðum a.m.k., og mér fannst óþolandi að hefði einkaaðstöðu til sjónvarpssendinga hér á landi. Á ég þar við sjónvarpið á Keflavíkurflugvelli. Þess vegna var ég áhugamaður um að íslenskt sjónvarp kæmi til þess að veita viðnám við þeim áhrifum sem Keflavíkursjónvarpið óneitanlega hafði hér, fyrst ekki náðist samstaða á þeim tíma um að loka því sjónvarpi fyrir íslendingum. Síðan hefur það verið gert, og eftir það er mér alveg sama um sjónvarpið.