18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

48. mál, litasjónvarp

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil árétta til þess að komast hjá misskilningi, að rétt var mælt hjá hv. síðasta ræðumanni að Alþ. hefur ekki séð Ríkisútvarpinu farborða fjárhagslega, en till. þar að lútandi hafa oftsinnis komið hér fram. Þetta á ekki aðeins við dreifingu sjónvarpsefnis um landið, heldur er harmsaga gamla Gufuradíósins enn þá eldri, því svo sem talsverður hluti þjóðarinnar veit, þá heyrist útvarp ekki enn þá sæmilega á stórum landssvæðum þar sem sjónvarpssendingar ná þó núna, þannig að góð tónlist, sem útvarpað er um Útvarp Reykjavík, heyrist eins og hver önnur óglögg og frekar leið hljóðmerki utan úr geimnum, t.d. víða á Austurlandi og Norðausturlandi og ég hygg sums staðar fyrir vestan líka.

Fjárhagur Ríkisútvarpsins versnaði í raun og veru um helming, hygg ég, eftir að deildir þess urðu tvær — eða fjárhagsáhyggjur Ríkisútvarpsins. Urðu býsna vond og skjót umskipti á fjárhag þessarar stofnunar upp úr 1950 þegar sjóðseign þess hrapaði niður úr því að nægja fyrir smiði útvarpshúss, — ég hygg að látið hafi nærri að Ríkisútvarpið hafi þá átt í sjóði fé til þess, ofan í það að verða öreigi. Og það er vafalaust að þeir, sem farið hafa með meirihlutavald á Alþ. og í ríkisstj. á þessu tímabili, eru a.m.k. sumir hverjir sekir um sinnuleysi um fjárhag þess og aðrir kannske beinlínis um skort á velvild.

Hv. frsm., aðalflm. þessarar till., — er hann genginn úr salnum, er hann ekki viðstaddur? Þá hlýt ég að hafa ákveðið hóf, hófstillingu á aths. mínum við framsöguræðu hans, sem ég hefði e.t.v. ekki fundið mig svo mjög knúinn til ef hann hefði verið viðstaddur. Mér virtist honum mistakast að sannfæra okkur um það, að fjárhagur sjónvarpsins yrði best bættur með því að leyfa nú innflutning á sjónvarpstækjum. Enn fremur fannst mér honum mistakast að sannfæra okkur um það, að bann við innflutningi sjónvarpstækja ætti að verulegu leyti sök á smygli þessara tækja inn í landið. Þar sem ljóst er náttúrlega að ágóðavonin eða viðleitnin til að komast hjá því að greiða opinber gjöld mun hafa verið þarna ærinn hvati líka.

Ég hef nú ekki heyrt ræðumenn, sem andmæla þessari þáltill., líkja litasjónvarpi við eiturlyf, hvað þá heldur eitur. Viðhorf manna til menningarlegra áhrifa sjónvarps í lit eða án lita hafa verið ákaflega skipt frá upphafi. Ég minnist þess þegar ég spurði mætan og gáfaðan bónda austan úr Suðursveit á sínum tíma hvort þeir væru búnir að fá sjónvarp austur í Suðursveit, og hann ansaði því til: „Það vona ég, að sá skítur komi aldrei austur hingað,“ sagði hann. Ég gekk á hann með hvað hann meinti með þessum gífuryrðum, og hann sagði: „Ég get hlustað á útvarp og skorið út spón og konan mín getur prjónað og sinnt ýmsum húsverkum sem við höfum vanið okkur á á langri ævi. En þegar þú sest við sjónvarpið, þá gerirðu ekki annað á meðan, og margt af því, sem í því er sýnt, á litið erindi til okkar.“ Þetta er dæmi um viðhorf gáfaðs, roskins og menningarlegs bónda austur í Suðursveit sem óskaði þess að sá skítur kæmi aldrei þangað.

Vitaskuld er hægt að bæta fjárhag sjónvarpsins með notendaskatti sem næmi aðeins örlitlu broti af verði nýs sjónvarpstækis, það liggur í augum uppi. Þessi leið til þess að bæta hag sjónvarpsins er hundavaðsháttur. Okkur er í lófa lagið að stuðla að hækkun afnotagjalda að því marki að hægt sé að bæta dreifikerfi sjónvarpsins og umfram allt að bæta dagskrá þess til mikilla muna.

Þótt ég sé ekki mjög vel inni í þeirri tækni sem lýtur að litasjónvarpi, þá get ég fullvissað hv. síðasta ræðumann um að aukakostnaður yrði enginn af því að sýna fréttamenn sjónvarpsins í lit. Af þeirri skemmtan að sjá þá í lit yrði enginn aukakostnaður. En ég er ekki beinlínis sannfærður um það að litprúð ásýnd þeirra yrði sjónvarpsnotendum til verulegs yndisauka. Ég hef séð litasjónvarpssendingar erlendis. Þetta er forvitnilegt eina kvöldstund, að sjá þessar myndir í lit á skerminum. En hér er um að ræða matsatriði eins og hjá Steinþóri á Hala í dómnum um sjónvarpið sem slíkt forðum. Það er hugsanlegt að einhver tiltekinn fjöldi manna sæti hugfanginn og bergnuminn yfir litadýrð á sjónvarpsskerminum bara út af fyrir sig o.s.frv., án tillits til þess efnis sem flutt væri í sjónvarpinu. Ég leyfi mér aðeins að efast um að þeir yrðu margir. Og eitt get ég haft eftir fróðum mönnum, þ. á m. aðstoðarframkvæmdastjóra danska sjónvarpsins sem hefur gert ítarlegasta könnun á gæðum sjónvarpsefnis á Norðurlöndum, að dagskrárnar hafa ekki þótt batna við tilkomu lita.

Ég get, vegna þess að hv. frsm., hv. þm. Ellert Schram, varpaði fram þeirri spurningu, hvort fremur skyldi leggja höft við innflutningi á litasjónvarpstækjum heldur en t.d. frystiskápum og hrærivélum eða öðrum þess háttar tækjum í gjaldeyrissparnaðarskyni, þá get ég látið í ljós þá skoðun mína að þegar hefði mátt fyrir nokkru leggja höft á hóflitinn innflutning ýmiss konar verslunarvarnings, bæði af gjaldeyrissparandi ástæðum og hreint og klárt siðferðilegum í íslensku viðskiptalífi

Ég hlýt vegna fjarveru hv. þm. Ellerts Schram að stytta nokkuð ræðu mína, en hygg að hann hafi talað í þessari dýrðlegu einlægni sem stundum einkennir mál hans þegar hann sagði: Persónulega er mér ekki áfram um að hér komi litasjónvarp strax, en þetta er lífsins gangur. — Þetta eru gamalkunnug, en dálitið óljós sannindi um það, með hvaða hætti þessi blessaða þjóð tekur við nýjungum erlendis frá og tileinkar sér þær án mats á gildi þeirra eða nytsemi, hún virðist vera svo viðkvæm fyrir ríkjandi sannindum umhverfissinnað hún verði að taka við svona löguðu án gagnrýni.

Ég legg eindregið til að þessi þáltill. verði felld, þó með því hugarfari að hv. Alþ. taki á sig rögg og bæti bágan fjárhag Ríkisútvarpsins.