22.11.1976
Efri deild: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

62. mál, biskupsembætti

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Er þetta frv. um biskupsembætti hinnar íslensku þjóðkirkju eða nánar tiltekið um nýtt biskupsembætti á Hólum kom til umr. hér í fyrra, þá andmælti ég því og taldi að önnur þörf kynni að vera brýnni á Norðurlandi en fyrir nýjan biskup. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að annars sé brýnni þörf nyrðra til þess að vega upp á móti upplausn og til að bæta siðgæði þar. Ég þykist ekki hafa orðið þess var að fjarlægð frá biskupi valdi sýnilega meiri upplausn á Norðurlandi heldur en á sér stað í nálægð biskups hér syðra. Ég þykist ekki heldur hafa orðið þess var að þar sé siðgæði verra enda þótt yfir heiðar sé að sækja í nágrenni biskups. Ég vildi helst að hlutlæg rannsókn færi fram á því, hvort kristnin sé slakari norðanlands heldur en sunnan vegna fjarlægðar biskups á þeim landshluta, áður en svona ákvörðun væri tekin.

Ég minnist þess við umræðurnar í fyrra, þá sagði hæstv. ráðh., flm. frv., að af skipan biskups að Hólum mundi leiða litinn kostnað. Nú segir hæstv. ráðh. að hann muni enginn verða. Ég minnist þess að ég dró það í efa í fyrra. (Dómsmrh.: Þetta er misskilningur hjá hv. þm.) Er það misskilningur að ráðh. hafi sagt í fyrra að lítinn kostnað mundi leiða — (Dómsmrh.: Að lítinn kostnað mundi leiða af því, já, ég hef ekki sagt að hún hefði engan kostnað í för með sér.) Þá hefur mér misheyrst. En ég fékk ekki betur heyrt, ég bið hæstv. ráðh. velvirðingar á því, ég heyrði ekki betur. (Dómsmrh.: Það varðar laun biskupsembættisins.) Já, ég heyrði ekki betur en að hann teldi það fram að niðurskurður vígslubiskupa mundi nægja fyrir launum biskups, og það mun rétt vera. Ég þykist hins vegar sjá fram á það, að ef biskup á Hólum ætti að megna að hefja þann ágæta stað menningarlega hátt yfir þann sess sem hann nú skipar, þá þyrfti biskup sennilega að fá þarna til umráða sæmilegt húsnæði, og ef seta biskups á Hólum á að nægja til menningarlegra áhrifa á svæðinu norðan frá Ströndum og suður að Skaftafelli austur um landið, þá hygg ég að hann þyrfti í líkingu við hina fyrri biskupa, sem á Hólum sátu, að hafa um sig hirð nokkra eða starfslið.

Ég hef grun um það að til álita komi að því fé, sem til þyrfti að smíða slík höfðingjasetur eða standa undirslíkri hirð eða starfsliði, mætti e.t.v. verja betur á annan hátt til fremdar sömu góðu málefnum eins og hæstv. ráðh. gerði hér grein fyrir.

Það þarf ekki að orðlengja það sem öllum hv. þm. er kunnugt, að á sínum tíma kom upp töluverð hreyfing fyrir því hér syðra að biskup yrði fluttur aftur að Skálholti. Það var stofnað sérstakt félag þar að lútandi, sem dreif upp nokkra byggingarstarfsemi í Skálholti til þess að endurreisa biskupsstólinn þar. En þegar til kastanna kom vildi biskup ekki sitja í Skálholti. Hér er svo ráð fyrir gert að Hólabiskup sitji að Hólum, en þó heimilt að flytja biskupinn þaðan ef prestar skyldu fallast á það álit hans að t.d. væri þægilegra að sitja á Akureyri.

Ekki vil ég rýra sæmd kirkjunnar sem ég hygg að gegni hér enn ákveðnu, mikilvægu þjóðfélagslegu hlutverki. En þetta frv. um fjölgun biskupa á Íslandi í a.m.k. tvo — og að því er virðist sér nú í rauðar iljar þeim þriðja að því er manni heyrðist á hæstv. ráðh. — það finnst mér ótímabært. Mér finnst málið yfirborðslegt og alvörulítið.