22.11.1976
Efri deild: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

62. mál, biskupsembætti

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég er nú kannske ekki rétti maðurinn til þess að tala um kirkjunnar málefni, en ég vil þó ekki láta hjá líða að lýsa persónulegri andstöðu minni við þetta frv. Ég tel enga þörf á því að á Íslandi sitji tveir biskupar, allra síst þegar mér sýnist í þessu frv. að sá, sem á að sitja norðanlands, eigi að lúta í ýmsu undir biskupinn sunnanlands. Ég hef þann metnað fyrir norðlendinga að það ætti þá að vera tvennt hliðstætt, en ekki annað yfirstætt og hitt undirstætt. Að öðru leyti finnst mér líka fráleitt að ætlast til þess, eins og tímarnir eru í dag, að biskupinn sitji á Hólum, sem er í nútíðarskilningi í afdal nánast, Hjaltadal, og um ýmislegt erfiðara að ná sambandi við presta umhverfis heldur en ef hann sæti á Akureyri. Í öðru lagi hef ég lítið heyrt um að það sé áhugi á þessu máli norðanlands nema í Skagafirði og hygg að það sé fyrst og fremst af staðarlegum ástæðum.

Til þess að færa rök að því, að hér sé ætlast til þess að biskupinn að Hólum lúti að vissu marki undir biskupsembættið sunnanlands, má t.d. benda á 5. gr. Sjóðir og aðrar kirkjueignir, sem samkvæmt lögum, skipulagsskrám eða öðrum löggerningum eru bundin öðru biskupsdæminu, skulu vera í umsjá og vörslu viðkomandi biskups ef heimildargögn mæla því ekki í gegn. En svo kemur síðar í 5. gr: „Aðrir sjóðir og kirkjueignir skulu lúta vörslu og reikningshaldi Skálholtsbiskups“ — þ.e.a.s. allt sem ekki beinlínis er tínt til undir Hólastól, það á að lúta undir vörslu og reikningshald Skálholtsbiskups. Í öðru lagi er tekið fram í 6. gr.: „Skálholtsbiskup er fulltrúi íslensku þjóðkirkjunnar út á við gagnvart erlendum kirkjum.“ Þar á hinn norðlenski biskup ekki að koma við sögu.

Að lokum vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að ég teldi miklu betur varið þeim fjármunum, sem hér er auðsjáanlega stefnt að að verja til biskupsstóls norðanlands, til þess að bæta t.d. laun prestanna sem eru að mörgu leyti mjög óhagstæð nú, sniðin við það t.d. að prestur, sem er búsettur í sveit, hafi svo og svo mikinn styrk af búskap, sem mjög er undir hælinn lagt að sé. Að minni hyggju væri skynsamlegt, miðað við breytta tíma, þótt það snerti ekki þetta frv., að prestaköllum væri fækkað, en prestar betur launaðir.