22.11.1976
Efri deild: 13. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

62. mál, biskupsembætti

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég tel að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé í rauninni mjög merkilegt frv. þar sem gert er ráð fyrir því að endurreisa á ný biskupsstól á Norðurlandi. Ég hef alltaf með sjálfum mér verið andvígur því fyrirkomulagi, sem hér er nú með vígslubiskupum, og tel að miklu beinna sé og eðlilegra að hafa hér tvo biskupa, einn á Norðurlandi og annan á Suðurlandi. Ég skal ekki á þessu stigi málsins gera það að neinu aðalefni hvort biskupssetur verður að Hólum eða á Akureyri, en tel að það mál þurfi nánari athugunar við. Það mál er ekki það vel grundað af minni hálfu að ég vilji alfarið á þessu stigi hafna hugmyndinni um Hólabiskup heima í Hjaltadal, því að þar er um svo sterka sögulega og menningarlega hefð að ræða að það væri bæði skemmtilegt og mikill sómi fyrir norðlendinga að hafa kjark og dug í sér til þess að endurreisa það biskupsdæmi heima á þeim stað. Ég hygg að það gæti á margan hátt verið táknrænt einmitt fyrir þann tilgang sem felst á bak við biskupsdæmið.

Það, að ég stend nú upp, er vegna þess að mér komu töluvert á óvart þessar tvær mótbárur við þessu frv. Við höfum orðið vör við það, sem höfum verið að mestu leyti eða öllu leyti utan Alþ. undanfarin ár, að Alþ. hefur átt afskaplega erfitt með að gera upp við sig ýmis málefni kirkjunnar. Þannig hefur t.d. frv. um prestskosningar legið fyrir Alþ. svo árum skiptir án þess að Alþ. hafi haft kjark í sér til þess að gera upp hug sinn í þeim efnum. Ég vil þakka hæstv. kirkjumrh. fyrir að bera þetta frv. hér fram og fyrir hans hógværu og málefnalegu framsögu fyrir því, og ég vil mega vænta þess, að þessi hv. d. skili frv. frá sér, helst samþykki það, kannske með einhverjum breytingum, ella felli frv. — frv. verði með öðrum orðum ekki látið daga uppi, heldur hafi Alþ. skoðun á málefnum kirkjunnar.

Það er rétt, sem hv. 4. landsk. þm. sagði, að það er sumt í þessu frv. sem kannske orkar tvímælis og sumt orkar mjög tvímælis. Hann nefndi í því sambandi 6. gr. frv., þar sem talað er um að Skálholtsbiskup skuli vera fulltrúi íslensku þjóðkirkjunnar út á við. Auðvitað má hugsa sér aðrar reglur í því sambandi. Það má t.d. hugsa sér að sá biskup, sem eldri sé í starfi, skuli gegna því fulltrúastarfi og er ekkert nema eðlilegt um það að segja.

Við norðlendingar höfum alltaf átt svolítið erfitt með að sætta okkur við yfirgang Skálholtsbiskupa, ekki síst Ögmundar á sinni tíð gagnvart Jóni Arasyni, og munum sýna það eins og Jón Arason að við verðum harðir í horn að taka ef slíkt á að endurtaka sig.

Aðeins vil ég að lokum segja það, að eins og nú er komið siðgæðisvitund og ég vil segja lausung í okkar þjóðfélagi, þá hlýtur það að vera af hinu góða að reyna að efla kirkjulegt starf í landinu og kristni. Ég álít að Alþ. hafi ekki verið nógu rausnarlegt í þeim efnum. Ég álít að hið háa Alþ. verði að endurskoða þá afstöðu.

Það kom mér hins vegar ekki á óvart, hvaða skoðanir hv. 5. þm. Norðurl. e. hafði á málefnum kirkjunnar og landskristni, og vil segja nm ræðu hans hið sama og hann sagði um þetta frv. hér, að sú ræða var ótímabær, yfirborðsleg og alvörulítil.