23.11.1976
Sameinað þing: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

35. mál, útbreiðsla atvinnusjúkdóma

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil eins og hv. síðasti ræðumaður lýsa stuðningi við þetta mál.

Það er alveg ljóst að hér er fjallað um efni sem snertir mjög marga þætti þjóðfélagsins. Það snertir ekki einungis þær stéttir sem sérstaklega voru nefndar í ræðu flm. Mikið vinnuálag er nokkuð sem ég held að flestir íslendingar þekki mjög vel. Það þarf ekki verkamenn og iðnaðarmenn til þess að um sé að ræða svo mikið vinnuálag á fólki að það eigi erfitt með að njóta nokkurra frístunda eða njóta fjölskyldulífs, eins og hv. 1. landsk. þm. sagði áðan.

Þegar ég nefni fjölskyldulíf, þá er það í raun og veru sérstaklega með það í huga sem ég stend hér upp. Ástæðan til þess er sú, að ég hef kynnst meðferð slíkra mála sem þessa, sem hér liggur fyrir, nokkuð í félagsmálanefnd Norðurlandaráðs. Á vegum þeirrar nefndar hefur verið gert verulegt átak til þess að kynna mönnum þær rannsóknir sem unnar hafa verið á þessu sviði. Sérstaklega kom þetta fram á ráðstefnu sem haldin var í Porsgrunn í Noregi í fyrrasumar og fjallaði um vinnuumhverfi. Til skamms tíma hafa menn fyrst og fremst haft hugann við hættuleg efni og nánasta umhverfi á vinnustað, ýmislegt sem annaðhvort er sjáanlegt, hægt er að finna lykt af eða festa hönd á á vinnustaðnum og getur verið hættulegt heilsu manna. Nýrra fyrirbrigði og mjög athyglisvert eru þó rannsóknir sem gerðar hafa verið á streitu í atvinnulífinu, og þá vitna ég enn til Svíþjóðar eins og tveir hv. síðustu ræðumenn. Á þessari ráðstefnu flutti, að mér þótti, langathyglisverðasta erindið sænskur læknir, sem heitir Lennart Levi og starfar við svo kallað Stressforskningsinstitut sem er í tengslum við Karolinska sjukhuset í Stokkhólmi. Þessi maður hefur starfað að þessu verkefni um árabil ásamt starfsbræðrum sínum, skrifað mjög mikið bæði á vegum sinnar eigin stofnunar og fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Þessi maður dró fram ýmis atriði sem okkur sýnast á mörgum vinnustöðum vera nokkurn veginn sjálfsögð og mjög algeng. Hann benti á hvernig á einfaldan hátt mætti einungis með upplýsingastarfsemi kynna fólki aðferðir til þess að draga úr margnefndri streitu sem hrjáir marga í okkar þjóðfélagi, fólk af öllum stéttum. Og rannsóknir rakti hann sem höfðu verið gerðar á því hvernig heimilislíf manna, sem voru ofhaldnir streitu í vinnu sinni, varð, hvernig heilsa þeirra varð — og ekki einungis þeirra eigin heilsa, heldur heilsa maka þeirra og barna. Það er sem sé um mál að ræða hér sem ekki einungis snertir þá launþega sjálfa sem um er að ræða, eða eftir atvikum atvinnurekendur, heldur er hér einnig um mál að ræða sem snertir börnin, makana og heimilin.

Ég held þess vegna að það verði ekki of mikil áhersla lögð á félagslæknisfræðilega þáttinn í þeim rannsóknum sem um er talað í þessari þáltill. Þegar við lesum texta þáltill. sjáum við að það er um viðamikið verkefni að ræða. Það á að gera mjög flóknar rannsóknir. En ég held að við megum ekki láta hugfallast þess vegna, heldur hugsa til þess að þegar hafa verið gerðar í veröldinni mjög miklar og góðar rannsóknir sem við getum verulega stuðst við. Vitanlega er sumt af þessum rannsóknum gert við aðstæður sem eru alls ekki í okkar litla þjóðfélagi. Við höfum t.d. ekki verksmiðjur af þeirri stærð að sá, sem vinnur þar við færiband frá morgni til kvölds, veit varla í hvaða tilgangi hann vinnur það verk. Hér eru fyrirtækin og aðstæðurnar svo litlar að hver launþegi ætti að finna hver tilgangur er með framlagi hans. Þetta nefni ég sem dæmi um vandamál sem geta verið ótrúlega ólík í litlu þjóðfélagi og stóru. Engu að síður hafa þegar verið gerðar merkar rannsóknir sem nefnd sérfræðinga um atvinnusjúkdóma gæti haft verulegt gagn af. Og ég vil benda á að það væri vafalaust hægt með milligöngu þeirrar nefndar Norðurlandaráðs, sem ég gat um, að útvega töluvert efni sem gæti létt þetta starf.