23.11.1976
Sameinað þing: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

35. mál, útbreiðsla atvinnusjúkdóma

Flm. (Svava Jakobsdóttir):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. og hef í rauninni ekki miklu við að bæta, en ég vil þakka hv. tveim þm., Jóni Árm. Héðinssyni og Ragnhildi Helgadóttur, fyrir góðar undirtektir. Mér finnst þær undirtektir og ræður þeirra beggja lofa góðu um framgang þessa máls og séu í rauninni staðfesting á því að þetta málefni sé orðið svo brýnt að það megi ekki bíða að hefjast handa um það.

Það er alveg rétt ábending hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, að rannsóknir af þessu tagi hafa verið gerðar á vegum Norðurlandaráðs og einnig í Svíþjóð, svo ég viti til. Ég veit að þessar kannanir er hægt að fá og væri alveg sjálfsagt að útvega þær handa þeirri n. sem fær þetta mál til umfjöllunar.