23.11.1976
Sameinað þing: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

63. mál, grunnskólar

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég er ein meðal flm. þessarar till., en þarf ekki miklu við að bæta það sem hv. þm. Helgi F. Seljan skipti sem það er lagt fram. Ég vil aðeins taka skipti sem það er lag fram. Ég vil aðeins taka sérstaklega undir fáein atriði sem hann kom inn á, og það er þá þetta fyrst, að ég held að sú löggjöf, sem þessi till. vonandi leiðir til. verði að vera rúm. Hún verður að vera rúm. Þung, þröng og einstrengingsleg lög um þetta efni gætu unnið málinu mikið tjón. Ég er sannfærð um að þeir aðilar sem til verða kvaddir að gera þessa löggjöf úr garði — eða ég alla vega vona að þeir geri sér í upphafi grein fyrir því.

Við hörmuðum það, sem að þessari till. stóðum í fyrra, að hún komst ekki í gegnum þingið. Ég fyrir mitt leyti vildi taka gilda þá skýringu sem okkur var gefin um að þessi mál væru í athugun hjá þremur hlutaðeigandi ráðuneytum í þar til kjörinni samstarfsnefnd. En ekki er sýnilegt, að nokkur árangur hafi orðið af starfi þeirrar n., þannig að það er vissulega tímabært að hraða nú eftir föngum skipun þessarar n. og heimildarlöggjafar um þessi efni.

Það, sem ég vil einnig leggja sérstaka áherslu á og undirstrika, er þetta, að með sérstakri löggjöf um málefni þessa fólks er ekki stefnt að því eða á ekki að vera stefnt að því að draga það í sérstaka dilka og skipa á sérbása í þjóðfélaginu, heldur er einmitt meginmarkmiðið að gera lífskjör fólksins, sem þannig er háttað um, sem allra eðlilegust, eftir því sem hægt er að með almennari löggjöf um málefni þessa fólks, en aðeins með sérstöku tilliti til sérþarfa sem þar eru fyrir hendi. Það er sem betur fer mjög vaxandi skilningur á þessum málum. Það hefur þótt fram til skamms tíma sjálfsagt að byggja sérstofnanir sem þetta fólk væri sett á til varanlegrar geymslu, fram til æviloka í verstu tilfellum. En hér hefur orðið stefnubreyting. Skilningur manna hefur vaknað á því, að með mörgu af þessu þroskahefta fólki búa meiri möguleikar, bæði til sjálfsbjargar og til almennrar þátttöku í eðlilegu þjóðfélagi, margfalt meiri en gert hefur verið ráð fyrir. Þar fyrir er það vafalaust rétt að stofnanir verða ekki úr sögunni. Það verður alltaf viss hluti þroskahefts fólks sem ekki er hægt að láta njóta hinnar almennu þjónustu sem veitt er á skólasviðinu, í heilbrigðisþjónustunni og á hinu félagslega sviði. Þar verðum við að hafa sérstaka aðstöðu til að taka við þessum einstaklingum. En meiri hluti þessara einstaklinga verður að komast inn í hið eðlilega stjórnunarkerfi landsins þannig að ekki verði gert meira úr vanköntum þess heldur en þörf er á. Ég vil líka leggja áherslu á það, að sérstakar stofnanir, sem reistar kunna að verða og hljóta að verða reistar til að þjóna málefnum þessa þjóðfélagshóps, mega ekki vera allar á sama stað, Við höfum haft tilhneigingu til þess að hafa slíkar stofnanir hér á höfuðborgarsvæðinu, og að sjálfsögðu rísa þær upp hér fyrst. En þær verða að koma jafnframt úti um landsbyggðina þannig að aðskilnaður fjölskyldu og þroskaheftra einstaklinga sé ekki meiri en framast er þörf. Ég veit því miður mörg dæmi um það, að fólk utan af landi hefur beinlínis orðið að flytjast búferlum úr heimabyggð sinni vegna þess að börnum þess eða fjölskyldumeðlimum, sem þroskaheft voru, voru engin skilyrði sköpuð heima fyrir, og þetta út af fyrir sig talar sínu máli. Engum einstaklingi fremur en þeim, sem er þroskaheftur, er þörf á aðhlynningu og umhyggju fjölskyldu sinnar og aðskilnaður einmitt undir þessum kringumstæðum er margfalt alvarlegri heldur en þar sem heilbrigðir einstaklingar eiga í hlut.

Ég vil enn fremur leggja áherslu á það, sem raunar kom fram í framsöguræðu frsm., að ráðgjöf til aðstandenda og hin svokallaða greiningarstöð eru eitt af þeim atriðum sem við þurfum í upphafi að leggja megináherslu á, að vandamál og vöntun þessa fólks verði sem allra fyrst á æviskeiðinu greind þannig að hægt sé að gera sér grein fyrir hvar aðstoðar er helst þörf og á hvaða sviði.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta. Málinu hafa verið gerð ítarleg og góð skil af 1. flm. En ég vil aðeins ítreka þá von mína að hv. Alþ. afgr. þetta mál fljótt og vel nú, þannig að ekki þurfi að verða að frekari töf á aðgerðum í málinu.