23.11.1976
Sameinað þing: 24. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

63. mál, grunnskólar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa þáltill. Sannarlega er hér um hóp fólks að ræða sem hefur þörf fyrir að betur sé við það gert en verið hefur. En það er að vísu fleira en löggjöf sem okkur vantar í þessu efni, og ég held að það, sem á undanförnum árum hefur e.t.v. háð okkur einna mest í því að hægt væri að gera það sem þurfti fyrir þetta fólk, sé skortur á sérmenntuðum starfskröftum. Það byggist á því, eins og getið hefur verið um hér, að það hefur orðið nokkur stefnubreyting á undanförnum árum í meðferð þessa fólks og hún er að verulegu leyti í því fólgin að hafa stærri hluta af þessu fólki í skólum landsins og á sérstofnunum þar sem það fái þjálfun, andlega og líkamlega, og til þess höfum við ekki haft næga starfskrafta.

En ég vil líka taka það fram, að að mínu mati hefur verið gert allmikið fyrir þetta fólk einmitt nú á síðustu árum og að þessi vakning er ekki alveg ný. Áður en Styrktarfélag vangefinna tók til starfa má segja að hér hafi verið þögn um þetta fólk. En tappagjaldið svonefnda gjörbreytti aðstöðunni. Þá var aukið rými fyrir þetta fólk á stofnunum, og það verður að segjast að þá var sú stefna uppi viðast hvar í heiminum að þetta fólk væri inni á stofnunum, a.m.k. verulegur hluti af því, og væri þar a.m.k. um tíma á meðan verið væri að sjá til hvort hægt væri að koma því út í lífið. En eftir að tappagjaldið kom var ekki bara það sem skeði, að aukið væri rými á stofnunum fyrir þetta fólk, heldur voru reistar ýmsar mjög myndarlegar stofnanir af Styrktarfélagi vangefinna, þ. á m. dagheimili, þar sem þetta fólk gat fengið sérkennslu og afþreyingu, og einnig nú á síðustu árum vinnustaðir, sem gera mjög mikið gagn.

Hér var minnst á Kjarvalshúsið sem er til fyrirmyndar að mínu viti, en hins vegar vantar mikið á að það geti fullnægt þörfum í þessu efni. Þar að auki hefur það skeð núna á síðustu árum að í mörgum skólum landsins eru komnar sérdeildir þar sem þroskaheftir fá sérkennslu, og það er einmitt þessi stefna sem í okkar nágrannalöndum hefur rutt sér mjög til rúms. En allt er þetta af vanefnum gert og ein s og ég segi fyrst og fremst líklega vegna þess að okkur hefur vantað starfskraftana.

Alþ. aftur á móti hefur e.t.v. ekki alltaf verið nógu vel á verði, því það skeði svo að það komu aðrir hópar og þeir þurftu að fá hluta af tappagjaldsfjármagninu sem upphaflega var ætlað til þroskaheftra, og við verðum að gæta okkar á því, þegar við færum þetta allt undir samfélagið og við fáum kannske ágæta löggjöf, að það fari ekki þannig að sú brýning, sem hefur verið frá Styrktarfélagi vangefinna og nú félaginu Þroskahjálp, þynnist út þegar þetta er komið inn í kerfið þar sem margir eru sem vilja fá sína sneið af kökunni. Ég vona að svo verði ekki og að þessi sjóður, sem hefur verið þroskaheftum mikil hjálp á undanförnum árum, fái að vera það áfram og að þeir fái að njóta hans og þeirra nýjunga sem fram koma á hverjum tíma.