24.11.1976
Efri deild: 14. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

81. mál, réttindi og skyldur hjóna

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Frv. það, sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 89, er mjög einfalt í sniðum. Efni þess er það að arfur, hvort sem hann er skylduarfur eða ekki, skuli vera séreign.

Rökin fyrir því, að ég flyt þetta frv., eru þau, að oft verða sársaukafullar og óréttmætar eignatilfærslur við slit hjúskapar þar sem samkvæmt núgildandi lögum er farið með arf sem hjúskapareign.

Ég flutti þetta frv. á síðasta Alþ., og það var þá sent til umsagnar Lögmannafélagi Íslands og lagadeild Háskóla Íslands. Báðir þessir aðilar töldu að þetta frv. væri ekki til bóta eins og það var lagt fram. Þó kemur fram í umsögnum beggja þessara aðila að núgildandi lög hafa oft í för með sér ósanngirni, eða eins og segir í áliti Lögmannafélags Íslands, með leyfi hæstv. forseta: „Breyting á núgildandi lögum í þá átt, er frv. gerir ráð fyrir, getur ein sér ekki síður valdið óréttmætum eignatilfærslum en hætta er á með núgildandi lögum. Á þetta einkum við er hjúskapur hefur staðið lengi, en arfur tæmst snemma á hjúskaparskeiði.“ Um þetta atriði er það að segja, að það er að sjálfsögðu alltaf álitamál hvernig fara skuli með eignir þegar slit verða á hjúskap. Þær reglur hafa nú mjög verið í endurskoðun og endurmótun, og ég hygg að á öðrum Norðurlöndum sé þróunin komin lengra en hér á landi, enda eru þessar reglur nú í endurskoðun hér.

Ég er sammála því að þessar reglur í heild þurfa endurskoðunar við, en hef hins vegar ekki treyst mér til þess að flytja brtt. við þær í sérstöku frv. Ég álit á hinn bóginn að rétt sé að taka arfinn út fyrir vegna þess að þar höfum við fyrir okkur mörg mjög sláandi og óþyrmileg dæmi þar sem til hjónaskilnaðar hefur komið. Ég get hins vegar ekki áttað mig á því hvaða óréttmætar eignatilfærslur þetta frv. getur haft í för með sér og álit að það séu fullyrðingar sem ekki standist.

Ég hef borið efni þessa frv. undir marga aðila, og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að allir séu um það sammála í rauninni að þetta sé réttlætismál. Það er eðlilegt að börn erfi foreldra sina. Það er með öllu óeðlilegt að tengdabörn geti farið með arf maka síns út úr hjúskap ef til slita kemur.

Í því áliti, sem Háskóli Íslands hefur gefið um þetta efni, er aðalmótbáran við þessu frv. sú, að það geti verið afskaplega erfitt að annast skipti á búi ef þetta frv. nær fram að ganga, eins og segir í áliti þessu, með leyfi hæstv. forseta:

„Næstum 4 af hverjum 5 hjónaböndum standa þangað til annað hjóna læst. Ef hjúskapur stendur lengi getur það orðið óleysanleg þraut fyrir skiptaráðanda eða aðra, sem að búskiptum standa, að ráða í hvað af eignum hjóna er séreign ef enginn skráður stafur er um arf sem hjónunum hefur tæmst.“

Nú er það í sjálfu sér framkvæmdaatriði hvernig farið yrði með slíkt, og ég er ekki andvígur því, að um það séu settar nánari reglur, og vitna í því sambandi til þess sem segir í erfðalögum, 10. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Arfur eða gjöf, sem hinu langlífara hlotnast,“ — það er því hjóna sem lengur lifir, — „rennur þó eigi inn í óskipt bú ef það lýsir því fyrir skiptaráðanda innan tveggja mánaða frá því er það fékk vitneskju um arf eða gjöf að verðmæti þessi skuli ekki renna inn í óskipta búið. Verða fjármunir þessir séreign þess sem situr í óskiptu búi. Ber að halda þeim og annarri séreign aðgreindum frá eignum búsins.“

Mér sýnist ekki óeðlilegt, að þessi grein verði látin gilda um þetta atriði ef þm. treysta sér til þess að fallast á þær breytingar sem hér um ræðir. Einnig er í þessu sambandi hægt að áskilja í lögum að þó skuli farið með arf sem hjúskapareign við andlát annars hjóna, þannig að séreignin gildi ekki nema til hjónaskilnaðar komi.

Í lögum er það heimilað um stofnun hjúskapar að fólk hafi séreign með kaupmála. Enn fremur er það heimilað í erfðalögum, einnig um lögarf, að séreign sé áskilin. Einhvern veginn hefur það gengið fram að þessu að fella úrskurð um það hverju sinni hvað sé séreign ef til þess hefur komið. Svo mun að sjálfsögðu einnig vera hægt í þessu tilfelli, einkanlega þó ef nánari reglur eru settar um framkvæmdahlið málsins.

Ég vil í sambandi við þennan frumvarpsflutning aðeins vekja athygli á því, að það hefur mjög færst í vöxt hér á hinu háa Alþ. alþm. hafa horfið frá því að flytja frv. til breyt. á lögum, en þess í stað flutt þáltill. Ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu sú, að lagafrv. eru oft flóknari og erfiðari í samningu heldur en þáltill. sem eru almennara eðlis og oft felst í þeim að skora jafnvel á Alþ. sjálft að hlutast til um eitt eða annað.

Í lögum er ákvæði um það að forsrh. sé heimilt að skipa sérstaka laganefnd þriggja manna sem sé alþm. til aðstoðar við samningu lagafrv. og til þess að fara yfir þau. Ég álít að það mundi verða til bóta að, skipa þessa n. og gefa þm. kost á að leita aðstoðar hennar við margvíslega frumvarpsgerð.

Ég vil svo að lokum aðeins ítreka, að þetta frv. er flutt vegna þess að löggjöfin um réttindi og skyldur hjóna er núna í endurskoðun, til þess að undirstrika það sjónarmið sem þar kemur fram, að farið sé með arf sem séreign af réttlætissjónarmiðum. Ég held að það sé óverjandi að beygja sig fyrir því að réttlætið nái ekki fram að ganga vegna þess að á því kunni að vera einhverjir framkvæmdaannmarkar. Það er hægt að tryggja þá hlið málsins á margan hátt, svo sem gert er m.a. í sambandi við setu eftirlifandi hjóna í óskiptu búi.

Síðast þegar þetta frv. var til meðferðar á hinu háa Alþ. var það sent til lagadeildar og Lögmannafélagsins, og ég sé ekki ástæðu til þess að það verði gert á ný, því ég hef kynnt mér það að þar eru viðhorf hin sömu og s.l. ár. Ég tel hins vegar rétt að það verði sent til Dómarafélagsins til þess að athuga hvað þeir segja um þessa hlið málsins, þ.e.a.s. framkvæmdahliðina, og þó einkanlega um það atriði, hvort rétt kunni að vera að binda þetta ákvæði um séreign við það að til hjónaskilnaðar komi, en ekki við andlát.

Ég vil svo að lokum óska þess að þessu frv. verði vísað til allshn. og 2. umr.