25.11.1976
Sameinað þing: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Jón Helgason:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn., sem er fyrri flm. þessarar þáltill., rakti nokkuð þær umr. sem fram fóru s.l. fimmtudag um þessa till., og þau andmæli, sem þar komu fram. Í þeim umr. kom fram sú skoðun að þessi till. væri í sjálfu sér góð, en hins vegar mætti ekki samþykkja hana þar sem annaðhvort væri hún marklaus eða gengi í öfuga átt við hina einu réttu stefnu í vegamálum. Jafnframt var því haldið fram að við samþykkt þessarar till. hlyti að verða samdráttur í öðrum vegaframkvæmdum, enda þótt við flm. legðum áherslu á það í ræðum okkar að slíka samdráttarleið mætti ekki fara. Til þess að forðast misskilning vil ég taka það fram, að ég minntist aðeins á að það væri hugsanlegt að fara þá leið, en sagði að hún kæmi alls ekki til greina. Og ég vil taka undir það sem sagt var hér áðan, að ég held að andmælendur þessarar till. hafi ekki lesið hana nægilega vel, þegar þeir telja að hún gangi á móti uppbyggingu vega, þar sem forsendan fyrir þeim framkvæmdum, sem þarna er gert ráð fyrir, er vitanlega að byggja upp meiri hlutann af þjóðvegunum. En þar sem þessar fullyrðingar, sem fram komu í andmælum við till., stangast algerlega á við þau rök sem ég færði fyrir afstöðu minni til þessarar till., þá vil ég aðeins ítreka þau.

Versnandi viðskiptakjörum okkar árið 1974 var í fyrstu að miklu leyti mætt með mikilli skuldasöfnun erlendis, og virðast allir orðnir sammála um það nú að slíku er ekki hægt að halda áfram í svo ríkum mæli, enda er nú komið að skuldadögunum, að byrja á að endurgreiða skuldirnar. Þá hafa margir hallast að því að til þess að geta það þurfi að draga úr fjármagni til fjárfestingar. En með því að standa að flutningi þessarar till. vil ég m.a. leggja áherslu á að slíkur samdráttur sé neyðarúrræði um stundarsakir, en má alls ekki verða framtíðarstefnan. Ef þjóðin ætlar að halda áfram að lifa í landinu, þá hlýtur hún að verða að byggja upp og búa í haginn fyrir framtíðina. Ég hélt því fram að með of miklum samdrætti í framkvæmdum værum við að varpa þyngri byrðum yfir á framtíðina en með lántökum til þess að hrinda þeim í framkvæmd. A.m.k. verður að miða við að nýta starfsorku þjóðarinnar með hóflegu vinnuálagi, því að það er tvímælalaust verst af öllu ef vinnuaflið er ekki nýtt til þarfra verkefna.

Í umr. um þáltill. um frjálsan innflutning á litasjónvörpum, sem einnig fóru fram hér s.l. fimmtudag, komst einn ræðumaður svo að orði að eign á slíku tæki væri orðið stöðutákn. Ég ætla ekki að ræða það frekar. En ég minnist á þetta vegna þess að slík tæki eru aðeins eitt dæmi um fjölmarga hluti sem nú eru á boðstólum og við höfum af einhverjum ástæðum gaman og e.t.v. eitthvert gagn af að kaupa, en getum þó lifað góðu lífi án. Þetta á vafalaust mikinn þátt í því að hinir betur launuðu í þjóðfélaginu telja nú kauphækkun sér til handa a.m.k. ekki þýðingarminni en kjarabætur handa hinum lægst launuðu, og vafalaust halda slíkar kröfur áfram að koma fram því að sífellt fjölgar tækifærunum til þess að eyða fjármagninu. Við vitum einnig að sífellt eru að koma fram óskir og kröfur um alls konar þjónustu frá nýjum sérfræðingum og fullkomnari stofnunum, oft til að ráða bót á okkar sjálfskaparvítum, enda þótt þessi staðreynd gleymist þegar farið er að býsnast yfir rekstrarútgjöldum fjárlaga hverju sinni. Ég tel því ákaflega þýðingarmikið að við reynum að gera okkur grein fyrir því, að hvaða verklegum framkvæmdum við viljum vinna næsta áratuginn, hvaða verkefni það eru sem ekki mega bíða nema þá eitt og eitt ár ef þjóðin verður fyrir einhverjum sérstökum áföllum, og stefnuna í efnahagsmálum verði að miða við að þetta sé kleift, en einkaeyðslan fari þá fremur eftir efnum og ástæðum enda þótt ávallt þurfi að reyna að tryggja viðunandi lágmarkslaun. Mér er því full alvara með flutningi þessarar þáltill. Hún er ekki flutt til less að fá glansmynd í blaði, eins og hv. 2. þm. Austurl. gaf í skyn í ræðu sinni að væri tilgangur ræðuhalda hér á Alþ., enda hef ég enga mynd fengið af mér enn þá, held ég, eða ég hef ekki séð hana í sambandi við þessa till. En í mínum huga eru góðir vegir hvorki glansmynd né stöðutákn, heldur nauðsynlegur og hagnýtur hlutur sem við getum ekki verið án.

Ég nota vegina af því að ég þarfnast þeirra, og ég held að ég geti fullyrt að ég hef ekki eytt minni tíma í það að baslast áfram í ófærð heldur en ýmsir aðrir hv. þm. og það sé þess vegna ekki af ókunnugleika sem ég flyt þessa till. Vitanlega eru brýnu verkefnin, sem við þurfum að vinna að, fleiri en vegagerðin ein, þó hér sé minnst á hana eina. Það er því rétt að þessi till. er stefnumarkandi. En hún markar ekki þá stefnu að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum, eins og að byggja vegina upp, heldur er hún einn líður í að marka þá stefnu að áfram verði haldið að beina nægilegum hluta af fjármagni þjóðarinnar til uppbyggingar í stað þess að eyða því í of ríkum mæli til kaupa á hlutum sem við getum lifað án.