25.11.1976
Sameinað þing: 25. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

84. mál, átján ára kosningaaldur

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vildi við fyrri umr. um þessa till. strax lýsa afstöðu minni til till. Ég er samþykkur efni þessarar tillögu. Ég álit að það sé kominn tími til þess að við leiðum í lög hér 18 ára kosningaaldur. Þessi skoðun mín er í fullu samræmi við afstöðu míns flokks. Hann hefur barist fyrir því að lækka kosningaaldurinn og fylgt till. sem fram hafa komið um það. Sem sagt, ég vildi við þessa umr. láta koma skýrt fram að það er afstaða okkar alþb: manna að við viljum greiða fyrir því að lækka hinn lögbundna kosningaaldur. Til mála gæti komið að mínum dómi að að breyta till. nokkuð, þannig að tryggt væri að hún fengi afgreiðslu á tilteknum tíma, en lægi ekki um óákveðinn tíma til athugunar.

Um önnur atriði, sem snerta almennan kosningarrétt og hv. frsm. minntist hér á, ræði ég ekki. Þau koma ekki þessari till. við. Þar falla hins vegar skoðanir okkar greinilega ekki saman. Ég mæli ekki á neinn hátt með því að auka grautargerð eða glundroða í almennum atkvæðisrétti. Ég tel að þær till., sem þar hafa komið fram og hér var aðeins minnst á, séu síður en svo til þess að auka við hinn almenna kosningarrétt. En þessari till. er ég sem sagt fylgjandi. Ég tel að það eigi að vinna að því að koma efni hennar fram.