29.11.1976
Efri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs þegar þetta frv. var hér til 1. umr. á dögunum, en það hefur ekki komið á dagskrá aftur fyrr en núna. Ég sé ekki að neitt hafi komið fram síðan sem verður þess valdandi að ég komi ekki fram með þær athugasemdir sem ég þá hugsaði mér að gera við frv.

Ég vil segja það, að mér sýnist að þetta frv. sé í fyrsta lagi algjörlega ónauðsynlegt. Því meginhlutverki sem því er ætlað að inna af hendi varðandi afnot landsins sem frv. gerir ráð fyrir, því vil ég halda fram að hafi verið náð með ýmsum lagasetningum á undanförnum árum og það sé því algjörlega ónauðsynlegt frv. að þessu leyti.

Ég sé að í grg. með frv. kemur það fram að ráðstefna, sem haldin var í Vancouver í Kanada og nefnd var Habitat, virðist vera eins konar kveikja að þessu frv. sem hér er fram lagt. Og þar segir að 120 þjóðir hafi staðið að þeirri ráðstefnu, en íslenska ríkisstj. hafi ekki séð ástæðu til að senda þangað fulltrúa „og ber að harma það,“ segja flm.

Í grg. stendur þessi setning m.a. þegar rætt er um þessa ráðstefnu, með leyfi hæstv. forseta: „Er þar skemmst af að segja, að ráðstefnan varð einróma sammála um stefnu varðandi landið, sem er mjög í sama anda og till. Alþfl. um eignarrétt á landi, gögnum þess og gæðum.“ Það hafa kannske borist einhverjir straumar vestur til Vancouver frá aðilum á Íslandi þó að íslenska ríkisstj. hafi ekki sent þangað fulltrúa, gæti maður ályktað eftir þessum orðum sem hér eru í grg.

Hins vegar sýnist mér á þeirri þýðingu á samþykktinni, sem hér er látin fylgja með, að hvergi sé um það rætt að landið eigi fyrst og fremst að vera í eigu alþjóðar.

Í inngangsorðum, ef ég má minna á það sem í grg. stendur, er gert ráð fyrir því að landið verði notað í þágu þjóðfélagsheildarinnar, og ég er þeirrar skoðunar að svo sé einnig farið með land hér á landi.

Í lið 1, þar sem er útdráttur úr samþykkt þessarar ráðstefnu, segir svo, að landið sé takmörkuð auðlind og meðferð þess eigi að vera háð opinberu eftirliti eða stjórn í þágu alþjóðar. Ég held því alveg hiklaust fram að hér sé meðferð lands mjög undir opinberu eftirliti, Samkv. t.d. ítölulögum er stjórnað notum af því og samkv. lögum, sem sett hafa verið, er líka gert ráð fyrir því að hægt sé að efna til sérstakra nota á landi til útilífs, t.d. fyrir þéttbýlisfólk, og er það m.a. í lögum sem eru ekki eldri en svo að þau ættu að vera okkur þm. í fersku minni.

Í öðru lagi er talað um að breytingar á landnotum, sérstaklega frá landbúnaði til þéttbýlis, eigi að vera háðar opinberu eftirliti og reglum. Ég veit ekki betur en að reglur séu einmitt um þetta í íslenskum lögum og þurfi því ekki að setja ný lög til þess að ná þessu atriði fram.

Í 3. lið eru í upphafi þessi orð: „Óverðugan hagnað, sem myndast af því að land hækkar í verði vegna breyttra landnota, vegna opinberra framkvæmda eða ákvarðana eða vegna almenns vaxtar samfélagsins, skulu opinberir aðilar geta endurheimt, nema aðstæður kalli á aðrar frekari aðgerðir, svo sem breytta eignaraðild eða upptöku lands.“ Ég held að það sé um þessa grein alveg það sama að segja, að hún sé algerlega óþörf. Það hefur verið boðað að nú séu athugaðir möguleikar á því að koma á skatti af sérstökum söluhagnaði og ætti það þá algerlega að koma til móts við þessa skoðun.

Í 4, tölulið segir svo: „Tímabundinni eða varanlegri þjóðareign skal beita þegar nauðsynlegt er til að tryggja, stjórna og vernda land, sem þarf fyrir vöxt þéttbýlissvæða, einnig til framkvæmdar á almennum umbótum í borgum og sveitum til að tryggja almenna þróun hagkvæma þjóðfélaginu.“ Ég held að það sé alveg það sama að segja og um þá liði sem ég hef rakið hér áður, að í lögum okkar eru ákvæði sem algjörlega koma til móts við þetta sjónarmið.

Í þessum punktum, sem hér eru lagðir fram frá ráðstefnunni, er ekkert um það, að landið skuli fyrst og fremst vera þjóðareign, alþjóðareign.

Ég held að það sé þess vegna algjörlega augljóst, sem ég sagði hér í upphafi, að þetta frv. er ónauðsynlegt. Ég tel að það sé líka að ýmsu leyti varhugavert og ég vil aðeins koma að örfáum atriðum í frv. sem sanna að svo er.

Lítum t.d. á 4. gr. frv.:

„Ríkinu skal skylt að kaupa bújarðir af bændum, ef þeir óska, og miðist kaupverð við gildandi gangverð jarða til búrekstrar milli bænda hverju sinni.

Sömuleiðis skal ríkinu skylt að kaupa af bændum hús og ræktun á jörðum sem fara úr byggð vegna óbyggis eða afbýlis, og skal í reglugerð

setja nákvæm fyrirmæli um það, hvernig slíkar eignir skuli meta til verðs.“

Hér er ekki lögð lítil kvöð á ríkið. Það er skyldugt til að kaupa hversu margar jarðir sem á boðstólum eru hverju sinni, og væri dálítið fróðlegt að fá einhverja hugmynd um það, hvað Alþfl. eða ráðstefna í Vancouver hefur hugsað sér í þessu efni. Ég býst við að við hér á Alþ., sem veltum vöngum yfir því hvort framlag til Jarðakaupasjóðs eigi að vera 12 millj. eða kannske eitthvað svolítið meira, þyrftum að hugleiða þetta dálítið nánar,

Þá vil ég aðeins koma að því, að í 7. gr. frv. segir svo í síðari helmingi greinarinnar: „Viðkomandi sveitarfélög og/eða upprekstrarfélög skulu halda hefðbundnum afréttarnotum sínum án endurgjalds, enda sinni þau og hefðbundnum skyldum við afréttina, en skylt skal þeim að hlíta settum reglum hverju sinni um ítölu sem og gróður- og náttúruvernd, einnig reglum um umferð og ferðafrelsi innan settra marka.“

Eins og ég hef getið um áður, er þetta atriði í lögum um ítölu og þarf þess vegna ekki að gera almenningana að alþjóðareign til þess að ná fram því sem ætlast er til að ná með þessari grein.

8. gr. er svohljóðandi — ég held ég verði að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Skylt er ríkinu að anna eftirspurn þéttbýlisbúa eftir leigulóðum undir sumarbústaði og láta skipuleggja slík bústaðahverfi, en falið getur það sveitarfélögum þeim, þar sem slík hverfi rísa, þessi verkefni, ef betur þykir henta.

Þurfi að taka bújörð eignarnámi vegna sumarbústaðahverfis, eða hluta bújarðar, skal bæta eiganda hennar samkvæmt mati með hliðsjón af þeim búnotum sem af eignarnámslandinu hafa verið.“

Það er með þessi ákvæði eins og mörg önnur sem í þessu frv. eru, að þau eru þegar í íslenskum lögum þó að það sé ekki nákvæmlega eins, þá er það líklega í fleiri tilvikum þannig að það ætti ekki síður að ná tilgangi sínum heldur en þetta orðalag sem hér er notað. Í jarðalögum er t.d. gert ráð fyrir því, að skipulögð séu sumarbústaðahverfi, og tekið fram í þeim lögum, að í þeim tilvíkum skuli fyrst og fremst horfið að því að skipuleggja þau svæði á ríkisjörðum, og í raun og veru er það það sama sem þarna er lagt til.

Í 5. gr. er gert ráð fyrir því, að ár og vötn séu sameign þjóðarinnar og veiðirétturinn þar með alþjóðareign og tekinn undan bújörðum og yrði þá algjörlega fjallað um veiðiréttarmálin af ríkinu sjálfu.

Það fór ekki fram hjá neinum, sem hlustaði á framsöguræðu 1. flm. að þessu frv., að hann gerði afar mikið úr því, hvernig bændur færu með veiðirétt sinn, og las í því sambandi upp úr grein sem birst hafði í Morgunblaðinu um það, hversu íslendingar væru útilokaðir frá því að geta hagnýtt sér veiðirétt í laxveiðiánum. Kom fram í máli hans að þarna þyrfti verulega að breyta um og fá ríkinu umráð yfir þessum veiðirétti þess í stað. Ég fór að líta nánar á þessa grein, og mér virðist að hv. þm., 1. flm., hafi horft fram hjá því að lesa næstu málsgrein á undan upptalningunni á þeim ám, sem leigðar eru útlendingum. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til þess að mönnum verði ljóst í hvílíka niðurlægingu þessi mál eru komin í höndum bænda og annarra landeigenda og ríkisvalds, sem er stærsti landeigandinn, hef ég aflað mér eftirfarandi upplýsinga.“ Það kemur sem sagt á daginn að sá maður, sem skrifar þessa grein og telur upp þær ár sem leigðar eru útlendingum og hann telur að íslendingar hafi ekki jafnan rétt við útlendinga til þess að hagnýta, hann metur það svo að ríkisvaldið sé stærsti landeigandinn í þessu tilvíki. Það mundi e.t.v. sanna það, sem ég hef verið að benda hér á, að með þessum lögum verður ekki kippt í lag neinu í sambandi við veiðiréttinn. Hins vegar tel ég að ákvæði, sem er núna í ábúðarlögunum um það að veiðiréttur skuli skilyrðislaust fylgja ábúðarrétti, sé einmitt sú ráðstöfun sem sé líklegust til þess að veiðirétturinn verði hagnýttur á eðlilegan hátt.

Það er dálítið erfitt að kyngja því, að bændum sé borið það á brýn að þeir séu á „braskhrakningi“ með fósturjörðina. Í því efni er ekki að vænta að ríkið standi þar betur í ístaðinu heldur en bændur hafa gert í þessu tilviki.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa miklu fleiri orð um þetta frv. að þessu sinni. Ég vil þó aðeins, áður en ég lýk máli mínu, koma hér að því að þetta frv. gerir ráð fyrir að landið sé þjóðnýtt, ekki allt að vísu í fyrstu, en að því skuli stefnt.

Ég minnist þess, að ég átti einu sinni leið til Ráðstjórnarríkjanna og kom þar í fyrsta aðsetur byltingarstjórnarinnar. Þá rifjaðist upp að ein af fyrstu tilskipununum, sem gerðar voru frá aðsetri hennar, var um það, að land skyldi allt þjóðnýtt. Sjálfsagt hefur eitthvað breyst síðan þetta var talið góð og gild latína, því að ég tók eftir að hv. 5. þm. Norðurl. v., sem talaði hér á undan mér, sagði svo í sinni ræðu, að ef ætti að fara að þjóðnýta allt land, þá væri að hans mati byrjað á öfugum enda. Ég vil nú taka undir þetta með honum. Ég held að það sé rétt. Þjóðnýting er að mínu viti röng í þessu tilfelli og hún er að mínu viti hættuleg, ekki síst fyrir þá sök, að ég er þess fullviss að ef ríkið hefur eignarhald á landinu að mestum hluta, þá sé kippt burt þeim stoðum sem ættartengsl og tryggð einstakra manna við landið hafa verið og hafa sannarlega stuðlað að því að vel hefur verið búið að landinu og bændur hafa yfirleitt tekið þeim ráðstöfunum vel sem ríkið hefur viljað gera til verndar því á hverjum tíma.