29.11.1976
Efri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Mér þykir hlýða að segja nokkur orð. Það voru tilefni í ræðu hv. frsm. sem komu mér til þess. Að vísu hefur hv. 5. þm. Norðurl. v. talað þegar við þessa umr., en kom þó ekki inn á það atriði í ræðu hv. frsm. sem ég vildi gera að sérstöku umtalsefni.

Hann kom inn á það, hv. þm. Bragi Sigurjónsson, að við þetta frv., við þessa tillögugerð þeirra alþfl.-manna hefði á undanförnum þingum komið fram andstaða þeirra sem síst skyldi, og þar þóttist ég kenna að hann ætti við okkur hv. þm. Stefán Jónsson. Ég vil þess vegna gera nokkra grein fyrir því enn einu sinni, þó það ætti reyndar að vera óþarft. Ástæðan var nefnilega og er einföld. Till., sem nú er komin í frv.-form, hefur tekið ærnum breytingum og sumar þeirra breytinga voru m.a. raktar í máli frsm. Það er öðruvísi að orði kveðið í frv. heldur en var í tillögugerðinni og ég tala nú ekki um fyrstu framsöguna fyrir þessari till. sér í lagi. Þar var blærinn ólíkur því sem við heyrum hér nú, og þegar sú framsöguræða var flutt. Ég meira að segja efast um að hv. flm, mundi nú þekkja með öllu sumt úr fyrstu framsögunni ef hann hefði ekki rifjað það upp nú nýlega, því samræmi var þar ekki, og út af því spratt töluvert af því sem kom fram í máli okkar hv. þm. Stefáns Jónssonar við þá umr.

Ég man að fyrsta andstöðuræða mín, — ég varð að rifja það upp líka hvers vegna andstaðan hafði verið, — fjallaði um annars vegar ákveðin atriði í till., en þó aðallega nokkur veigamikil rök í málflutningi. Þetta varð svo tilefni spaugilegra orðaskipta milli okkar hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, sem hafði ekki heyrt mína ræðu, en flutti út af henni langa og mikla skammaræðu um það, hve við Alþ.- menn hefðum snúið af réttri leið í þessu efni. Einhver ágætur maður hafði endursagt honum ræðu mína og endursögnin var hæði ónákvæm og villandi. En síðan hefur svo merkilega brugðið við, að þessi endursögn hefur verið notuð af flokksblaði frsm. og einnig af flokksformanni í útvarpi og vafalaust verið trúað af þeim sem vissu ekki betur.

Ég held þó að tvö hafi verið aðalatriði í minni skoðun hvað snertir bújarðir bænda, eignarrétt á þeim og hlunnindum þeim tengdum, þ.e.a.s. þeim hlunnindum sem hafa þar verið eðlilegur þáttur í búskap frá fyrstu tíð. Um eitt þeirra atriða er hér deilt, þ.e.a.s. veiðiréttinn. Að því vík ég síðar og kemur þar fleira til. Þar var og er mín skoðun sú, að rétt sé að bændur eigi jarðir sínar með þessum hlunnindum, ekki síst vegna þess í hvers konar þjóðfélagi og með hvers konar ríkisvaldi við lifum. Ég mun hafa orðað það svo og ég held að hv. þm. Stefán Jónsson hafi enn frekar hnykkt á því, að til varðveislu gegn ágengni t.d. erlendra aðila treysti ég bændum almennt mjög vel, þótt um hitt séu kannske dæmi einnig, auðskilin á öld okkar auðhyggju sem öllu tröllríður. Og það er rétt, að meðferð opinberra aðila á jarðeignum er vart til fyrirmyndar eða getur vart til fyrirmyndar talist, — framtíðarskipan þessara mála, sem hv. 12. þm. Reykv. var að lýsa hér með svo ógnvekjandi orðum, undir því hagkerfi og því ríkisvaldi félagshyggju sem við hv. frsm. hljótum báðir að stefna að, því skoðanir okkar hljóta auðvitað fyllilega að fara saman um þá framtíðarskipan.

En þá er að hinu atriðinu komið, sem ég mun hafa notað sem höfuðröksemd, þ.e.a.s. hinu almenna þjóðnýtingaratriði sem hér er inn á farið, og efasemdir mínar um það, að þar ættu t.d. bújarðir bænda að vera í fremstu röð, svo sem sterklega var að ýjað í fyrstu tillögugerðinni, mig minnir reyndar nokkuð ljóst að orði kveðið þar um. Ég benti þá og get enn frekar nú bent á ýmislegt í okkar þjóðfélagi sem ætti á undan að ganga, ekki síst ýmis þau framleiðslutæki sem eru keypt fyrir allt upp undir og ég tala nú ekki um og yfir 100% ríkisframlög og lánsfé, svo eitthvað sé nefnt. Olíuverslunina í landinu mætti hér nefna og innflutningsþætti ýmiss konar sem vitanlega ættu hér að ganga á undan. Þar um gildir að vísu alls staðar sá fyrirvari, að við lium í þjóðfélagi þar sem einkareksturinn er í fjöldamörgum greinum. Þó að fallega sé um hann talað og enginn tali fegur um hann og skemmtilegar en hv. 12. þm. Reykv., er sá einkarekstur oft aðeins í orði, á pappírnum. Það er samfélagið, þjóðin sjálf, sem stendur þar undir að mestum hluta.

Þetta voru, að mig minnir, helstu atriðin sem síðan hafa verið rangtúlkuð svo rækilega að engu lagi er líkt. Endursögnin hans Gylfa hefur sem sagt orðið ansi lífseig. Ég man eftir því, að það gekk meira að segja svo langt að á tímabili var því haldið blákalt fram við mig, að við hv. þm. Stefán Jónsson værum orðnir algerlega andvígir eigu þjóðarinnar allrar, sameign þjóðarinnar á háhitasvæðum. Svo langt gekk vitleysan. Og ég man eftir því að þetta kom fram í erindi í blessuðu útvarpinu okkar. Það var aðeins flutt af svo leiðinlegum aðila að ég nennti ekki að leiðrétta það, og vissi að a.m.k. yrði þessu ekki trúað nema af einstökum Vilmundum þá úti í þjóðfélaginu, og það var þá í lagi þó að þeir tryðu því.

Ég benti jafnhlíða þessum annmörkum á annað jákvætt og lagði þar mikla áherslu á, og þar erum við hv. frsm. áreiðanlega algerlega sammála. Það varðar eign ríkisins á bújörðum bænda, atriði sem þeir eignarréttarmennirnir gleyma nú ærið oft, taka alls ekki með, — atriði sem ég kvað bændum hollt að hugsa um. Ég man að þetta kom einnig upp varðandi jarðalögin og var þá rætt töluvert hér. Mér verður nefnilega æðioft hugsað til þeirra bænda, ótalinna, margra mér kunnugra, sem flosnað hafa upp, hafa neyðst til þess að flytja frá sínum bújörðum, jarðir þeirra farið í eyði og arðurinn af erfiði þeirra og striti — oft áratuga — hefur verið til einskis, þeir staðið uppi með tvær hendur tómar í fullkomnu allsleysi. Vissulega — og það mættu þeir eignarréttarmenn sannarlega athuga — vissulega hefði ríkiseign bjargað þar einhverju, þó ég viti um lága viðmiðun í mati í þessum tilfellum.

Mér er það minnisstætt að trúr sínum sósíalísku viðhorfum sagði faðir minn mér það ungum dreng, að þjóðin, ríkið, ætti að eiga allt, einnig snotru bújörðina okkar, og ég man að ég var lengi að brjóta heilann um þetta. Hann bætti hins vegar við, og ég man þau orð svo vel af því að mér urðu þetta tilefni ærinna heilaþrota: „Í því verður ekkert vit fyrr en sósíalisminn er kominn á hér á landi, og það verður einhvern tíma.“ Og ég kannske sannfærist enn betur um það þegar ég heyri ræður eins og ég heyrði áðan hjá hv. 12. þm. Reykv., að auðvitað mun þetta einhvern tíma gerast. Hann er þar greinilega góður liðsmaður þó að hann geri sér það e.t.v. ekki ljóst. Faðir minn þekkti nefnilega enn betur raunasögu allsleysingjanna uppflosnuðu af Jökuldalsheiðinni, úr Loðmundarfirðinum, svo ég nefni dæmi úr mínu héraði og viðar.

Ég minntist á jarðalögin áðan. Þau gengu hvergi nærri nógu langt. m.a. kom þar upp margumtöluð till. hv. þm. Ragnars Arnalds og féll hér í hv. d., og hefði hún þó e.t.v. ekki nægt, það er rétt. Braskið er býsna ríkt í okkar þjóð. En þar fara bændur ekki fremstir. Við höfum hér á aðalþéttbýlissvæðinu heila stétt eða stéttir slíkra sem þar af einu lifa, og mikið hefði ég nú viljað sjá við þeim hróflað í 12 ára valdatíð Alþfl., samfelldri valdatíð hans sem helmingsaðila að stjórn. En e.t.v. eigum við hv. frsm. eftir að glíma saman við þá Gláma sem þar ríða húsum, braskarana á Íslandi, þessa alvörubraskara sem fæsta er að finna upp til

sveita á Íslandi, þó að það sé kannske hægt að rekja um það einhver skilmerkileg dæmi af gagnstæðu tagi.

Í frv. okkar alþb.- manna er þessi till. hv. þm. Ragnars Arnalds komin, og nú er að sjá hvernig henni reiðir af.

Ég vík að lokum að búskaparhlunnindunum. Þar er um að ræða vandasamt og viðkvæmt mál þar sem eru veiðiárnar. Ég vil ekki mæla því bót hver þróun þar hefur orðið. En hún hefði ekki orðið betri þó aðrir hefðu þar um fjallað en bændur sjálfir, það þori ég að fullyrða. Það er rætt um útlendinga og forgang þeirra að þessari auðlind, og ég játa að ég hef á því hreina andstyggð. En það eru til fleiri auðlindir, dýrmætari auðlindir, stórkostlegri auðlindir: fallorkan okkar, raforkan, og hvernig koma útlendingar inn í þá mynd og hvernig er þar komið afstöðu manna og flokka, m.a. Alþfl. Þar má raunasögu rekja, miklu meiri raunasögu en hér var upp lesin í sambandi við veiðiárnar okkar. Sú orka, sú auðlind hefur blátt áfram verið gefin erlendum auðhringum, svo sem er um álverið — og skyldi ekki Grundartangaverksmiðjan sleppa allbærilega? Ég segi því: Væri kannske ekki nær að líta fyrst á hið stóra, á hið þýðingarmesta: hver á að njóta þessarar auðlindar, við íslendingar sjálfir eða erlendir auðhringar, sem seilast hér til valda — áður en hugað er að hinu? Þar liggur sem betur fer ljóst fyrir afstaða okkar Alþb.- manna. En þá spyr ég líka: Hvað um aðra þá sem hafa þennan mikla þjóðnýtingaráhuga.

Við hv. flm. Bragi Sigurjónsson áttum saman skemmtilega kvöldstund austur á Egilsstöðum s.l. vor, þar sem fundur var haldinn með framsögu hv. þm. Braga Sigurjónssonar, og á eftir gengu menn þar berserksgang og bitu í skjaldarrendur og voru hinir vígreifustu. Ég veit að hv. þm. Braga Sigurjónssyni þótti ég leggja of mikið upp úr því neikvæða í tillögu hans og kannske fara of mikið út í það sem áður var þar, en hefur nú verið breytt. En það býr lengi að fyrstu gerð, og einhvern veginn þótti mér alltaf — þykir kannske að nokkru leyti enn — sem refirnir væru til annars skornir en nú segir mildilega í þessu frv. Það fór svo á Egilsstöðum, að sumir þeir vígreifustu voru með elstu gerðina af till. í höndum sér og lögðu þar út af allgrimmilega. Ég ætla ekki að rekja nein dæmi þar um, en auðvitað verð ég að segja það, að þær umr. voru heimamönnum, fyrri hluti þeirra a.m.k., lítt til sóma. það er víst um það og það skal vottað hér. að hv. þm. Bragi Sigurjónsson gekk þar af fundi með mjög góðan hlut, það er óhætt að segja, m.a. með því að leggja aðaláherslu á það sem niður hafði verið fellt og breyst hafði til batnaðar í tillögugerð þeirra alþfl: manna.

Ég sé það í blöðum stjórnarsinna nú að frv. okkar alþb.-manna og hetta frv., sem hér er til umr., eru að jöfnu lögð. Ég þykist nú vita að m.a. þeim framsóknarmönnum mörgum, sem standa nú viða hallir í sveitum, þeim muni þykja hlýða að hefja upp þann söng t.d. að nú ætlum við hv. þm. Stefán Jónsson bærilega að söðla um og þyrla af fullum krafti með þeim alþfl.- mönnum að vega hart og títt að bændum. Við höfum í raun og veru engu breytt okkar afstöðu, það kemur greinilega fram í okkar frv., og ég trúi því að það gangi heldur illa nyrðra og eystra að telja fólki trú hér um. Meginatriðin í frv. okkar alþb.-manna eru nefnilega þau, þrátt fyrir það að við stefnum í framtíðinni að almennri og alhliða þjóðnýtingu, og ég dreg ekkert úr þeirri stefnu minni á neinn hátt, að miðað við núverandi aðstæður haldi bændur ekki einasta bújörðum sínum, heldur og þeim hlunnindum sem búskapnum fylgja og hafa fylgt frá ómunatíð.

Ég hef oft áður og m.a. hér að framan skýrt þá afstöðu og þá um leið hvers vegna ekki er tekin upp róttækari þjóðnýtingarstefna en raun ber vitni. Ég sætti mig hér við fullkomlega á meðan önnur svið þjóðlífsins eru ekki tekin fyrir á sama veg og þetta. En hitt er rétt að undirstrika og að því skulu menn vel gæta og það veit áreiðanlega hv. 1. flm. og færist áreiðanlega í aukana við það einmitt, að meðal bænda sjálfra vex þeirri skoðun fylgi jafnt og þétt að ný stefna í eignarréttarmáli jafnt í sveit sem við sjó eigi fyllsta rétt á sér. Það sannaði þrátt fyrir allt Egilsstaðafundurinn sem ég minntist á áðan, þar sem við hv. þm. Bragi Sigurjónsson tókum nokkrar brýnur og þar sem menn voru þó í fyrstunni býsna stórorðir og þungorðir. Í seinni ræðum manna þar kom þessi vilji ákaflega áberandi fram í ýmsum greinum, þó menn vildu þá eðlilega taka málið fyrir í heild og líta á öll svið þjóðlífsins um leið.

Félagshyggja bænda hefur löngum verið sterk og stundum hafa þeir þar verið í fararbroddi. Ég er sannfærður um að framtíðarstefna þeirra mun án efa verða meir þar í ætt, en við þá einstrengingslegu einstaklingshyggju sem eingöngu kemur einhverjum forréttindaaðilum til góða. Ýmis tákn eru nú uppi meðal bænda í þessa átt, og ekki kæmi mér á óvart þó að það yrðu þeir sem yrðu bestu liðsmennirnir í því að brjóta á bak aftur óheft frelsi auðmagnsins sem nú ríkir hér öllu ofar. Og þá verðum við hv. þm. Bragi Sigurjónsson vonandi bandamenn í þeirri umsköpun sem í kjölfarið fylgir, og þá skulum við hyggja að ýmsu nærtækara fyrr en bújörðum bænda og búskaparhlunnindum, þó allt komi það inn í heildarmyndina.