29.11.1976
Efri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka þeim þm. sem hér hafa rætt um þetta mál. Þó að skoðanir séu skiptar er það venjulega til bóta, en ekki á hinn veginn, því að til þess eru umr. að menn kanni mál frá ýmsum hliðum og reyni að brjóta þau til mergjar.

Mér finnst að andmælendurnir, aðallega tveir úr röðum Sjálfstfl., hafi að sumu leyti misskilið það sem í frv. stendur, en að öðru leyti velt ég vel að þeir eru á annarri skoðun en við sem að frv. stöndum. Ég vil taka það fram í upphafi, að persónulega er ég sannfærður um — og nú tek ég fram: persónulega er ég sannfærður um að það væri bændastéttinni til hagræðis að allar jarðir væru eign hins opinbera og þeir hefðu þær undir höndum sem erfðafestujarðir og þyrftu ekki að selja þær frá kynslóð til kynslóðar, eins og nú er. Hins vegar er ég það lífsreyndur maður, að ég veit að eignarrétturinn, löngunin til að eiga er ákaflega ríkur þáttur í manninum, ekkert síður í bóndanum heldur en kaupstaðarbúanum, ekkert síður vafalaust í mér heldur en hv. 12. þm. Reykv. Þetta er mannlegt eðli. En ég sagði áðan að ég væri persónulega sannfærður um að hitt væri bændunum hagkvæmara — og það er vegna þess að ég er fæddur og uppalinn í sveit og hef alla tíð fylgst töluvert mikið með lífi og háttum bænda, kannske miklu meir en flestum öðrum stéttum. Og ég hef séð að það hefur oft verið mikill bölvaldur bændanna að jarðir skuli vera seldar milli kynslóða, kynslóð eftir kynslóð, og ég þekki margan bónda sem á mörg börn og er í vandræðum með hvernig hann á að skila jörð sinni til næstu kynslóðar. Af þessum sökum m.a., en af mörgum öðrum sökum er 1. gr. þessa frv. orðuð svo: „Landið allt með gögnum þess og gæðum og miðin umhverfis það, svo sem viðtekin efnahags- og fiskveiðilögsaga hverju sinni greinir, er sameign þjóðarinnar allrar.“ En til þess að koma móts við þetta eðli mannsins, þá er sett inn, og ég held að það hafi verið sett inn strax í annað skiptið sem þáltill. var flutt, að meðan bændur kysu sjálfir frekar hinn háttinn, að eiga jarðirnar, þá væri þeim það frjálst. En hér er sett inn nýtt atriði — ég skal undirstrika það — að það er enn þá fastar orðað í 3. gr. í þessu frv.: „að eiga jarðir til eigin búrekstrar“. Takið eftir því. Þarna viljum við flm. setja undir þann leka sem við þekkjum að er í mörgum sveitum, að þegar bóndi hættir og ekkert barnanna er kannske viðbúið að taka við í bili, þá er jörðin ýmist leigð eða hún er lögð niður sem búrekstrarjörð og stendur árum saman án þess að verða nokkrum verulega að gagni. Þetta finnst mér vera skaði. Og með því að segja þarna: „til eigin búrekstrar“ — þá verður bóndinn þegar hann hættir, annaðhvort að selja öðrum hana til búrekstrar eða að hún falli til ríkisins.

Nú var hv. þm. Steinþór Gestsson óttasleginn um það, að ef 4. gr. frv. yrði samþ., þá yrði hún ríkisvaldinu eða ríkiskassanum erfið viðfangs. Ef Steinþór er sannfærður um að bændur vilji lengst af eiga sínar jarðir sjálfir sem þeir búa á, þá held ég að hann þurfi ekki að óttast þetta, þeir verði þá sennilega ekki ýkjamargir sem vilja selja jarðir sínar og ætla að búa áfram, en hinir, sem vilja hætta búskap, þurfa að hætta búskap. Þá finnst mér eðlilegt að ríkið sjái um að þeir gangi ekki slyppir og snauðir frá jörðum sínum. Þannig hugsa ég nú, og það má hver sem vera skal kalla þetta kommúnisma. Mér finnst þetta vera bara skynsamleg íslensk hagspeki.

Þá var verið að furða sig á því hvernig við hugsuðum okkur að veiðiréttur yrði bættur bónda sem hefði keypt veiðijörð. Vel kann að vera að þetta mætti hugsa betur. Enginn gerir svo öllum líki og ekki guð í himnaríki, og ég hygg að það megi segja það um margan manninn, að það megi betrumbæta hans verk. En þetta var þannig hugsað, að það væri ekki ósanngjarnt að t.d. bónda, sem hefði keypt jörð vegna veiðiréttarins að meira eða minna leyti, honum yrði gefinn sá kostur að eiga og nota jörðina með veiðiréttinum í allt að 20 ár. Það var hafður þarna bak við eyrað þessi gamli hefðarréttur. En með hverju ári sem hann nýtti jörðina og veiðiréttinn, þá minnkaði bótaskyldan og þegar 20 ár væru liðin væri hún fallin út og veiðirétturinn alfarið kominn undir ríkiseign.

Ég veit ekki hvort — og þó reikna ég nú með því að þeir, sem hafa lesið þetta frv. eitthvað niður í kjölinn, hafi tekið eftir því að hér er á a.m.k tveimur stöðum vikið að því að bætur fari eftir því hvernig menn hafa talið sig hafa gagn af hlutunum undanfarið. Það er nefnilega vitað mál, að oft er hagurinn af veiðiréttinum ekki talinn ýkjamikill fram til skatts eða hagurinn af afréttarlandinu — og þó talið afskaplega mikils virði ef á að taka það af þeim. Þess vegna fannst mér ekkert ósanngjarnt að það væri farið eftir framtölum manna í sambandi við þessar bótareglur.

Ég vil taka það fram, að í 6. gr. er einmitt tekið fram að þau gjöld, sem ríkissjóður væntanlega fengi af því að leigja út veiðiréttinn, ættu að ganga til aukinnar fiskræktar, því þetta er að minni hyggju og ég hygg margra annarra einmitt sá búskapur sem má ætla að taki verulegum vaxtarbreytingum á næstu árum eða næstu áratugum og það væri ekki ósanngjarnt að afla tekna til hans á þennan hátt að einhverju leyti.

Hér var nokkuð vikið að því, að sumt af því, sem væri tekið upp í þetta frv., væri til í öðrum lögum. Það er nú svo með flesta lagagerð, að hún snertir töluvert önnur lög, jafnvel .fer dálítið ofan í það á suma grein. Hér var bent t.d. á jarðalögin. En ég tók fram í minni framsöguræðu að sá leki, sem jarðalögin átti að setja undir, hefur haldið áfram þrátt fyrir allt, og tók ég einmitt dæmi af því í sambandi við jarðasöluna uppi í Lundarreykjadal sem ég var að rekja í framsöguræðu minni.

Hv. þm. Steinþór Gestsson taldi að það kæmi fram í grg. að kveikjan að þessu frv. væri ráðstefna sem haldin var vestur í Kanada. Hann veit náttúrlega betur. Við erum búin að flytja hér — ég held í fimm vetur — þáltill. sem farið hefur í þessa átt, þannig að það er ólíklegt að fundur, sem haldinn var í fyrrasumar, hafi orðið kveikjan að þessu frv. Það fannst mér vera nokkuð mikið út í hött.

Ég hefði kosið að mega svara skemmtilegri ræðu og betri ræðu hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni heldur en hann flutti hér áðan, því að þessi ágæti þm. drepur oft skemmtilega á ýmsa hluti hér í þinginu og með öðrum hætti en ýmsir aðrir þm. En hann gerði það ekki í þessari ræðu, og sá meiningarmunur, sem er á milli mín og hans um eignarráð, er á þann veg að ég sé ekki ástæðu til þess að elta ólar við það. Ég hygg að ég sannfæri hann ekki, og ég geri ráð fyrir og veit að hann sannfærir mig ekki.

Ég ætla að lokum að víkja að því, sem ég annars fagnaði í minni framsöguræðu, að hér er komið fram annað frv. í d. sem lýtur að ýmsu leyti að því sama og er í þessu frv. En það, sem þar ber helst á milli, er t.d. að í frv. Ragnars Arnalds og þeirra félaga er ekki gert ráð fyrir því sem heildartakmarki að allt landið verði alþjóðareign. Það er ekki gengið eins langt að því leyti. Og þeir vilja láta veiðiréttinn haldast á bújörðunum, sem er aftur ekki samkv. okkar frv., og það er, eins og ég hef gert hér grein fyrir áður, vegna þess að ég tel að veiðirétturinn sé braskvaldur, braskvaki í sambandi við kaup og sölu á bújörðum og að því leyti hættulegt á marga lund, að hafa þetta undir bújörðum.

Ég held að það sé ekki ýkjamargt fleira sem ég vil taka hér fram um þetta. Ég vil að lokum vænta þess að menn hugleiði þessi mál vel og gaumgæfilega. Ég og við félagar erum ugglaust til viðtals um einhverjar lagfæringar, ef það er eitthvað sérstakt sem menn hnjóta um í því samþandi. En ég endurtek: Það er sannfæring okkar, og það er sannfæring sem ég finn að á mjög ríkan þátt og mjög ríka hlutdeild í fjölda manns, að þeim finnst að landið allt eins og miðin eigi að vera alþjóðareign og gögn landsins og gæði öll.