29.11.1976
Efri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þær umr. sem eru nú orðnar allítarlegar í sambandi við meðferð þessa máls nú við 1. umr. í hv. Ed. Ég vil þó láta í ljós þá skoðun mína, að mér finnst að mörg ákvæði þessa frv. séu þannig vaxin að mér er mjög til efs, hvort ekki er beinlínis um stjórnlagabreytingu að ræða ef þetta frv. yrði að lögum. Get ég til stuðnings þeirri skoðun minni nefnt sem dæmi ákvæði bæði 7. og 11. gr., þar sem rætt er um hvernig skuli haga um bætur til aðila fyrir þær lendur og lóðir og eignir sem kynnu að vera teknar af þeim. Hér er það gert með ákveðnum hætti sem tiltekinn er í þessum greinum. En ef mig minnir rétt, þá held ég að í stjórnarskránni sé ákveðið að enga eign megi taka nema hún sé goldin fullu verði.

Ég vil svolítið dveljast við ákvæði þessa frv. að því er snertir bújarðir bænda. Ég minnist þess að fyrr á árum var það mikið deilumál. að því var komið í lög sem kallað var í mæltu máli 17. gr. jarðræktarlaganna, og ég held að hún hafi verið eitthvað á þann veg að svokölluðum jarðræktarstyrk, sem yrði til þess að auka verðmæti jarðar hlutaðeiganda, þeim hluta bújarðarinnar skyldi vera haldið aðskildum, ef ég fer rétt með, að því er snertir umráðarétt bóndans til veðsetningar og sölu. Og ef ég man rétt, þá var þetta óskaplegur þyrnir í augum margra bænda og það svo mikill að þetta var eitt af hitamálum í kosningum hér fyrr á árum. Þetta út af fyrir sig sýnir að mínu mati hversu rík sú hugsun er hjá íslenska bóndanum að hann vill sjálfur eiga sitt jarðnæði. Ég held ég fari ekki rangt með að það er yfirgnæfandi skoðun bænda og draumur þeirra allra að eignast sína bújörð. Þeim nægir ekki að hafa umráðaréttinn til jarðanna, og þó að því séu engin takmörk á hvern hátt þeir megi nýta jarðir og annað, þá er þetta einhvern veginn svo ríkt í eðlisvitund íslenska bóndans og þetta hefur að mínu viti verið svo mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð, að draumurinn og ásetningurinn er að bóndinn eigi bújörð sína sjálfur.

Ég viðurkenni fúslega það sjónarmið sem kom fram í ræðu hv. flm. þessa frv., þm. Braga Sigurjónssonar, að það fylgir því viss annmarki að þurfa alltaf að selja kynslóð eftir kynslóð eða að flytja eignarréttinn á milli kynslóða. Því geta fylgt vissir annmarkar. En bæði er það, að lög um erfðaábúð og ættaróðal gefa mönnum visst svigrúm til þess að gera þær ráðstafanir sem tryggja erfðaábúð á jörðum, og svo er það bara þessi hugsunarháttur bóndans og bændastéttarinnar yfirleitt, að þrátt fyrir það að hún er þess meðvitandi að það fylgir viss annmarki þeirri tilhögun, að eignarréttur bænda sé á jörðunum, þá vilja þeir heldur búa við þann kost heldur en að vera leiguliðar.

Ég er kaupstaðabarn, alinn upp á mölinni, en ég hef haft það mikil samskipti við bændur allt mitt líf og ég þykist hafa einhvern veginn fundið og lært að skilja þetta sjónarmið bændanna. Og ég tel að við sem slíkir stöndum í þeirri þakkarskuld fyrir starf bændastéttarinnar í heild í þessu þjóðfélagi og fyrir þann mikla menningararf sem við höfum hlotið í vöggugjöf frá bændastéttinni, að okkur nútímamönnum beri siðferðileg skylda til þess að gera ekki veigamiklar breytingar á stöðu þessara mála í þjóðfélaginu, a.m.k. ekki án þess að hafa gjörrannsakað hver er vilji hlutaðeigenda í þessu máli, og persónulega efast ég ekki um hver sá vilji er. Hann er alveg gagnstæður því sem ákvæði þessa frv. hafa í för með sér.

Mönnum hefur orðið nokkuð tíðnefnt í sambandi við umr. um þetta frv. orðið brask, auðshyggja og allt það sem vinstri mönnum hættir svo við að viðhafa í niðurlægjandi merkingu í sambandi við fjármagnssköpun. Það getur verið af því að lífsskoðun mín er allt önnur. Hún mótast af allt öðrum viðhorfum heldur en lífsskoðun þeirra manna sem hafa talað á þann veg sem ég hef verið hér að lýsa. Ég er sem sé þeirrar skoðunar, að menn vanmeti og það mjög hvað felst í því að skapa fjármuni. Það er eins og það sé eitthvert illgresi í augum sumra manna og einhver illþýðisháttur gagnvart þjóðfélaginu hjá þeim sem leggja það fyrir sig að skapa verðmæti. Að mínu mati má fyllilega líkja því að skapa fjármuni saman við ræktun, en fjármagn er fyrst og fremst afl þeirra hluta sem þarf til margra framkvæmda, og til þess að skapa fjármuni þarf að viðhafa alveg sömu alúðina og bóndinn þarf að sýna. Hann þarf að hlúa að jarðveginum, það þarf að bera á, það þarf að sá. Alveg er eins með manninn sem hefur fésýsluna að sínum akri. Hann fær ekki ávöxt nema hann sýni þeim akri fyllstu alúð og nærgætni. Þess vegna er mér illa við þetta brasktal manna. Það er eins og menn geti aldrei séð að það sé til nein heilbrigð starfsemi, sem þróist og eigi rétt á sér, í þeirri viðleitni að skapa verðmæti, að ég tali nú ekki um ef uppskeran skyldi reynast vera peningar. Þá er slíkt atferli í augum margra glæpi næst. Ég held einmitt að það sé kominn tími til af þjóðfélagsins hálfu að taka til rækilegrar endurskoðunar hvort ekki væri ástæða til þess einmitt að létta svolítið róðurinn fyrir þeim ræktunarmönnum þjóðfélagsins sem enn eru þess sinnis að þeir vilja freista þess að plægja þann akur sem gefur, ef vel er að unnið, ávöxt sem felst í sköpun nýs fjármagns.

Herra forseti. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en ég vil þó, áður en ég lýk máli mínu, geta þess, að það er ýmislegt í þessu frv. sem gefur fyllilega tilefni til jákvæðrar athugunar á afstöðu manna til ýmissa gæða bæði á láði og legi, sem ástæða er til að athuga nánar.

En ég held að við getum ekki hrapað að því að leysa þau mál á þann veg sem felst í því að samþ. það frv. sem hér er til umr., og mun ég því ekki sjá mér fært að veita því brautargengi.