29.11.1976
Neðri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

97. mál, barnalög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er sama að segja um þetta frv. og það er ég mælti siðast fyrir, að það var lagt fram á síðasta Alþ. til kynningar, en var þá ekki rætt. Þetta frv. er samið af hinni svokölluðu sifjalaganefnd, en ég gat um það áðan hverjir væru í henni. Hér er um mjög viðamikinn lagabálk að ræða. Hann á að koma í stað þeirra laga sem nú gilda um réttarstöðu barna, en það eru að stofni til tvenn lög: lög nr. 46 1921, um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, og lög nr. 87 frá 1947, um afstöðu foreldra til óskilgetins barns.

Þessi tvenn stofnlög um réttindi barna eða réttarstöðu foreldra og barna voru sett fyrst 1921 og voru árangur af norrænni lagasamvinnu. Þó að íslendingar tækju ekki beinan þátt í þeirri samvinnu voru þau frv., sem samin voru af þeirri samnorrænu laganefnd, notuð hér til fyrirmyndar og að verulegu leyti um að ræða þýðingu á lögum um þetta efni sem um svipað leyti voru lögtekin á Norðurlöndunum. Það var þáv. prófessor og síðar hæstaréttardómari Lárus H. Bjarnason sem annaðist samningu á þessum lagafrv. í öndverðu.

Síðan hafa verið sett ýmis ákvæði um stöðu barna eða breytingu á stöðu þeirra hefur leitt af öðrum lögum, og þær breytingar leiddu m.a. til þess, sérstaklega vegna þeirra ákvæða sem voru komin í tryggingalöggjöf að það voru sett alveg ný stofnlög 1947 um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, eins og ég gat um áðan. En eftir það hafa einnig verið gerðar nokkrar breytingar á þeim lögum, og þau lög, sem um þetta hafa gilt, hafa tekið breytingum, bæði vegna almannatryggingalagaákvæða, framfærslulaga, barnaverndarlaga og hjúskaparlaga, og einnig hafa verið sett ákvæði um viss atriði í réttarfarslögum.

Þessu frv., ef að lögum verður, er ætlað að leysa af hólmi þessi lög, sem ég hef nefnt, og þær breytingar, sem á þeim hafa verið gerðar. Frv. er í meginatriðum byggt á vinnu sem fram hefur farið á Norðurlöndunum, nýrri lagasamvinnu á þessu sviði. Það fylgir þessu frv., eins og því frv. sem ég mælti fyrir áðan, mjög ítarleg grg. þar sem mörg atriði eru rakin til fróðleiks, en auk þess fylgja með athugasemdir og skýringar um einstakar greinar.

Það er um þennan lagafrumvarpsbálk að segja, að hann felur í sér mjög víðtækar breytingar að ýmsu leyti frá þeim gildandi stofnlögum um þetta efni. Það er tekið saman í athugasemdunum hverjar bær helstu breytingar séu.

Fyrsta og aðalbreytingin má segja að sé sú, að frv. fjallar bæði og samfellt um skilgetin börn og óskilgetin, þannig að það er ekki gerður sá greinarmunur sem gerður hefur verið til þessa, að það væru sett sín hvor lögin um þetta efni. Og það, sem er kannske aðalatriðið og grunnteinninn í þessu frv., er það stefnumið sem telst í frv., en það er að gera hlut óskilgetins barns sem jafnastan hlut skilgetinna barna, að gera ekki lengur þann greinarmun þar á sem hingað til hefur verið gert.

Það eru í þessum aths. ýmsar tölfræðilegar upplýsingar og af þeim sést m.a. að tala óskilgetinna barna er mjög há hér á landi og hærri en víðast hvar annars staðar. Frv. tekur mið ef því og byggir á því að réttmætt sé, eins og komið sé þjóðfélagsþróuninni og með sérstakri hliðsjón af því að um 34% fæddra barna hér á landi eru óskilgetin að mæla svo fyrir að börn sambúðarfólks verði í allríkum mæli ýmist talin skilgetin við fæðingu eða að sambúð foreldra valdi því, að vissum skilyrðum fullnægðum, að börn öðlist síðar réttarstöðu skilgetinna barna vegna sambúðar foreldra þeirra. En þarna er átt við svokallaða óvígða sambúð sem hér tíðkast, eins og ég gat um, jafnvel í ríkara mæli en annars staðar. Þannig er það ef sambúð foreldra hefur varað óslitið tvö ár fyrir fæðingu barns telst það skilgetið við fæðingu, í öðru lagi, ef sambúð hefur varað óslitið 10 mánuði fyrir fæðingu og tvö ár eftir hana öðlast barn stöðu skilgetins barns við lok tveggja ára tímabilsins, og í þriðja lagi, ef foreldrar barns taka upp sambúð eftir fæðingu. þá öðlast barn stöðu skilgetins barns ef sambúð hefur varað óslitið í þrjú ár.

Það er meginreglan, það er a.m.k. svo eftir þessu frv., að foreldravald eða forsjá barna er í ríkum mæli í höndum beggja foreldra sem búa í óvígðri sambúð, þótt barn hafi ekki enn öðlast stöðu skilgetins barns. Það eru sérstök ákvæði um skipan foreldravalds þegar sambúðarfólk, sem á barn saman, skilur. Ákvæði eru og um umgengnisrétt þess foreldris, sem ekki fær forræði barns. Er lagt til að umgengnisréttur verði lögfestur til handa föður óskilgetins barns, eins og nú hefur verið gert annars staðar á Norðurlöndum. Lagt er til að foreldrar séu framfærsluskyld að einkarétti gagnvart börnum til 18 ára aldurs og heimilt sé að gera þeim að styrkja börn sín til náms allt til 24 ára aldurs. Þetta er sambærilegt ákvæði við það sem tíðkast í Danmörku og Svíþjóð. En það er e.t.v. ástæða til þess að undirstrika þetta þannig að það fari ekki fram hjá mönnum hvað þeir eru að samþ. þegar þeir eru að samþ. þetta ákvæði. Það er að vísu ekki stórfellt skref, má segja, sem þarna er stigið, en það er þó þannig, eins og þm. sjálfsagt vita, að nú ef hámarkið á framfærsluskyldunni 17 ára aldur, var reyndar áður aðeins 16 ára aldur, en var hækkaður í 17 ár á sínum tíma, en þarna er gert ráð fyrir því sem sagt, að það sé hækkað um eitt ár og sé fært upp í 18 ár. Þetta er um framfærsluskyldu foreldra, en það verkar að sjálfsögðu í fleiri áttir og hefur sín áhrif t.d. varðandi almannatryggingar.

Heimilt er að gera foreldri að greiða sérstakar greiðslur vegna fermingar, skírnar o.fl. umfram almenn framfærslulög.

Þá eru í frv. þessu ný ákvæði um varnarþing í barnsfaðernismálum sem heimila að höfða mál á varnarþingi móður og eftir atvíkum barns. Jafnframt er lögsögureglum breytt í þessu efni. Það er lagt til að afnumin séu ákvæði um aðildareið í barnsfaðernismálum, svo sem gert hefur verið á öllum hinum Norðurlöndunum með lagabreytingum eða í lagaframkvæmd, og enn fremur afnumin heimild til að dæma menn aðeins meðlagsskylda án þess að kveðið sé á um faðernið. Þetta eru að sjálfsögðu hvort tveggja veigamiklar breytingar frá því sem tíðkast hefur hér á landi.

Lagt er til að það sé slakað á strangleika reglunnar sem kölluð hefur verið Pater-est í vefengingarmálum svokölluðum um faðerni barna. Það er í samræmi við það sem gert hefur verið í yngri norrænum lögum um þetta efni.

Frv. byggir á því að það séu óbreyttar reglur um dómara í barnsfaðernismálum, þ. á m. að sakadómarar í Reykjavík dæmi í þessum málum. ýmislegt mælir þó með því, að því er sifjalaganefndin tekur fram, að einkamáladómarar fjalli um þau mál, en í frv. er gert ráð fyrir að hinir síðarnefndu fjalli um vefengingarmál, þ.e.a.s. einkamáladómarar.

Réttarfarsákvæði um vefengingarmál, þ.e.a.s. um vefengingar á faðerni skilgetins barns, hafi verið og eru í lögum nr. 57 frá 1921 en hins vegar hefur verið tekinn sérstakur kafli í lögin um meðferð einkamála um réttarfarsreglur í málum um faðerni óskilgetins barns. Eru tekin upp í þetta lagafrv. ákvæði nm réttarfarsreglur um þetta hvort tveggja, byggt á því sjónarmiði, sem er hjá sifjalaganefndinni, að réttarfarsákvæði um barnsfaðernismál eigi heima í barnalögum.

Þá er að geta þess, að reglur um foreldravald eru í þessu frv. og þar með teknar út úr lögræðislögunum, 2.2. gr. þeirra.

Þá er loks að nefna það, að í þessu frv. eru nokkur ákvæði sem varða aðgang aðila að Tryggingastofnun ríkisins um greiðslur, og gætir þar að nokkru nýmæla og þá í þá átt að auka þann: Barnalög. aðgang sem aðili hefur að Tryggingastofnuninni.

Ég hef hér drepið aðeins á örfá atriði af þeim mörgu ákvæðum, efnislegum og formlegum, sem eru í þessu frv. Ég hirði ekki um að rekja það nánar. En ég efast ekki um að hv. þdm. er ljóst af þessum fáu orðum, sem ég hef hér sagt, svo og þegar þeir lesa frv., að hér er á ýmsan hátt um veigamiklar breytingar að ræða. Þess vegna er ekki óeðlilegt að þm. telji að þeir þurfi að hugsa sig um ýmis þau málefni, ýmis þau atriði, áður en gengið er frá lagasetningu um málið, og nauðsynlegt að frv. hljóti ítarlega athugun í þeirri n. sem það fær til meðferðar. Það má segja, eins og ég hef komið inn á, að það séu viss og það nokkuð mörg „prinsip“-atriði í þessu frv. sem e.t.v. fer ekki mikið fyrir, en menn verða að gera sér grein fyrir.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. allshn.

ATKVGR.