29.11.1976
Neðri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

99. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Sérstakt tímabundið vörugjald var sem kunnugt er upphaflega lagt á með brbl. nr. 65 frá 16. júlí 1975. Var það 12% frá 17. júlí 1975 til áramóta 1975–1976. 10% frá 1. jan. 1976 til 4. maí s.l., en hefur verið 18% frá þeim tíma. Samkv. 1. gr. laga nr. 20 1976 skal vörugjaldið innheimt til 31. des. á þessu ári.

Með frv. því, sem hér er til umr., er lagt til að gjaldið verði framlengt til 31. des. 1977, eins og gert er ráð fyrir í tekjuáætlun fjárlagafrv. fyrir næsta ár og fram kom í fjárlagaræðu minni. Ekki er gerð till. um breyt. á vöruflokkum sem gjaldskyldir eru, en verði hið nýja frv. um tollskrá, sem innan skamms verður lagt fyrir þingið, samþ., hefur það í för með sér að breyta þarf upptalningu tollskrárnúmera í 1. gr. laganna um sérstakt tímabundið vörugjald.

Áætlað er að hið sérstaka vörugjald skili ríkissjóði 4 milljörðum og 30 millj. kr. á þessu ári, en 5 milljörðum 250 millj. á því næsta.

Þm. er í fersku minni, hygg ég, tilefni þess að horfið var frá áformum um lækkun vörugjalds á þessu ári og ákveðið að hækka það úr 10% í 18% á s.l. vori. Ástæðan var fjáröflunarþörf til landhelgisgæslu, hafrannsókna, fiskverndaraðgerða, en reyndar einnig sú þörf sem var þá og er enn að tryggja hallalausan ríkisbúskap. Nú eru horfur á að það takist á þessu ári að koma ríkisbúskapnum í viðunanlegt jafnvægi, á sama tíma sem viðskiptahallinn við útlönd minnkar mikið, eða úr 11–12% 1975 í um það bil 4% á þessu ári. Þetta er mikilsverður árangur, og batinn í ríkisfjármálunum hefur áreiðanlega haft sitt að segja í þessu efni. En betur má ef duga skal, og á næsta ári er mikilvægt að ná verulegum áfanga til þess að bæta stöðu þjóðarbúsins út á við. Við þurfum að stefna a.m.k. að helmingslækkun viðskiptahalla á næsta ári. Á sama tíma knýja á brýnar þarfir til útgjalda. Þannig má nefna landhelgisgæslu, dómsmál, löggæslu, auk almennra þjóðhagsástæðna. Er því full ástæða til þess að halda 18% vörugjaldinu allt næsta ár, ekki síst þar sem mæta þarf tekjumissi vegna tollalækkana samkv. viðskiptasamningum okkar við önnur ríki. Beinar samningsbundnar tollalækkanir eru metnar á um 600 millj. kr., eins og fram kemur í fjárlagafrv., en auk þess þarf að gera aðrar breyt. á tollskránni til hagsbóta fyrir innlenda atvinnuvegi sem kosta frekari tekjumissi.

Þetta eru í stuttu máli þær ástæður, sem liggja að baki þessu frv. Til viðbótar þeirri fjárhæð, sem ég gat um hér áðan, er rétt að það komi fram, að sú ákvörðun, að fella niður eða endurgreiða að fullu sölugjald vegna innfluttra véla til iðnaðarins þýðir 150 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð á næsta ári.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um frv. Ég legg til að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.