29.11.1976
Neðri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

99. mál, tímabundið vörugjald

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að það ætlar að fara á sömu lund með þennan skatt eins og marga aðra sem lagðir hafa verið á, að það verður ekki auðvelt að létta honum af aftur. Þegar þetta gjald var upphaflega lagt á á miðju ári 1975, þá átti það aðeins að standa í stuttan tíma, enda var gjaldið þannig að hér var aðeins um tiltekið prósentuálag að ræða í álagningu á nokkra þar til greinda vöruflokka sem voru fluttir til landsins. Sem sagt, skattlagningin var mjög ónákvæm á allan hátt. Það var afsakanlegt og er afsakanlegt að leggja gjöld af þessu tagi á til mjög stutts tíma þegar sérstaklega stendur á. En nú hefur sem sagt komið í ljós að gjaldið er í gildi hálft árið 1975, allt árið 1976 og nú er lagt til að framlengja það fyrir allt næsta ár, og í rauninni í svipuðu formi allan tímann, þó að gjaldið sé aðeins mismunandi hátt.

Ég tel að skattheimta af þessu tagi sé með öllu óeðlileg og eigi ekki að eiga sér stað, það sé hættulegt að ætla að taka gjald af þessu tagi upp á svipaðan hátt og gert hefur verið með mörg önnur gjöld, að það skuli síðan framlengt og framlengt ár eftir ár, og auðvitað er það í litlu samræmi við yfirlýstan vilja til þess að reyna að hamla gegn verðbólgu að leggja á gjald af þessu tagi. Ég vil því lýsa yfir andstöðu okkar alþb.-manna við framlengingu á þessu gjaldi. Við teljum að hér sé um ranga aðferð að ræða. Ef hins vegar svo er ástatt að það er talið alveg óhjákvæmilegt að tryggja ríkissjóði til frambúðar meiri tekjur en hann hefur samkvæmt þeim tekjustofnum sem honum eru yfirleitt ætlaðir, þá ber að sjálfsögðu að endurskoða þetta gjald og athuga hvort það eigi þá ekki að leggjast á í allt öðru formi.

Þá vil ég einnig geta þess, að það er mikil fljótaskrift á þessu frv. því að það hefur ekki einu sinni tekist að setja þessar tvær gr. frv. þannig upp að þær séu allar. Í 1. gr. frv. segir: „Skal gjaldið vera 18% til 31. des. 1977 og greiðist af eftirgreindum vöruflokkum“ — og þar með búið og punktur og vörurnar eru ekki taldar upp. Þó að gert sé ráð fyrir því að hér kunni að verða breyting á með endurskoðun á tollskránni, þá var vitanlega sjálfsagt að telja það upp í gr. við þessa meðferð málsins sem hefur verið gildandi í lögum, með svo þeim almenna fyrirvara að á þessu gæti orðið breyting ef breyting yrði á þeim lögum sem þetta er miðað við.

Þetta verður að sjálfsögðu allt tekið til athugunar af þeirri n., sem fær málið til meðferðar. En ég vek aðeins athygli á þessu um leið og ég lýsi yfir því, að við erum andvígir framlengingu þessa gjalds í því formi, sem þarna er um að ræða, og teljum að framlenging gjaldsins á þann hátt, sem verið hefur, beri í rauninni vott um algert skipulagsleysi hjá hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessi tekjuöflunarmál.