29.11.1976
Neðri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

99. mál, tímabundið vörugjald

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Ég hef áður við meðferð þessa máls gert grein fyrir þeirri skoðun minni, að gjaldheimta af því tagi, sem á sér stað með vörugjaldinu, sé ætið óheppileg, kunni þó að vera óhjákvæmileg til bráðabirgða, en sé algerlega óhafandi til frambúðar og að staðaldri. Þetta gjald er í rauninni neysluskattur. Flestum mun þykja nóg um að við höfum 20% söluskatt sem tekinn er af vöruverði við sölu. En þegar við bætist af fjölda vörutegunda, meiri hluta innflutnings, 18% gjald af innflutningsverði, þá er mælirinn svo fleytifullur að það er sannfæring mín að við slíkt verði ekki búið til langframa án þess að mjög óheppileg áhrif segi til sín í fjármálakerfi og viðskiptum í landinn.

Ég stend fyrst og fremst upp til að ítreka þessa skoðun mína. En ég vil einnig bæta því við, að til fjáröflunar af því tagi, sem vissulega er hægt að sýna fram á að þörf sé á, er miklu heppilegra, eðlilegra og sérstaklega félagslega réttlátara að gera þær breytingar á skattheimtu sem geri þá skattstofna, sem leggjast á eftir tekjum, eftir efnum og ástæðum, virkari, frekar en leggja sífellt aukna áherslu á gjaldheimtu sem fellur á án tillits til ástæðna þeirra sem endanlega þurfa að greiða gjaldið, í þessu tilfelli neytenda þess varnings sem gjaldið er tekið af. Því vil ég lýsa alveg sérstaklega eftir því að hæstv. fjmrh. geri sem fyrst alvöru úr fyrirheitum sínum um að bera fram breytingar á skattalögum, því að það er löngu viðurkennt að gildandi skattheimtukerfi er bæði óréttlátt og gloppótt, og ég er ekki í neinum vafa um að endurbætur á því væru miklu heppilegri og miklu varanlegri bót á tekjuöflunarvanda ríkissjóðs heldur en að framlengja gjaldtöku eins og þessa von úr viti. Ég man ekki betur en hæstv. fjmrh. hafi á sínum tíma lýst þeirri skoðun að tekjustofn eins og vörugjald þetta væri neyðarúrræði og hann fyrir sitt leyti teldi að það ætti að taka enda. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. hvort hann sé ekki enn sömu skoðunar og hvort hann sjái ekki fært að sýna þá skoðun í verki með því a.m.k. að byrja að sneiða af þessu gjaldi þegar líða tekur á næsta ár, þótt hann kannske telji sig ekki færan um að afsala sér því með öllu á næsta tekjuári.