29.11.1976
Neðri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

100. mál, söluskattur

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Með frv. því, er hér er til umr., er lagt til að söluskattsauki samkv. söluskattslögum verði hækkaður um 1%. Jafnhliða verður lagt til með öðru frv. að felld verði úr gildi lög nr. 9 27. febr. 1976, um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o.fl. Er gert ráð fyrir flutningi þess frv. Fellur þá niður hið svonefnda olíugjald sem nemur nú 1% á söluskattsstofn. Hins vegar verður í því frv. ákvæði varðandi ráðstöfun olíustyrks sem gert yrði ráð fyrir á fjárlögum. Breyting sú, sem í frv. felst, hefur því hvorki áhrif til hækkunar eða lækkunar á skattlagningu vöru og þjónustu. Breytingin er gerð til einföldunar og hagræðis, en þeim tekjum, sem koma af olíugjaldi og ganga til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða, beint og óbeint, er nú ætlað að ráðstafa í framtíðinni á fjárl. hverju sinni.

Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1977 er lagt til að 600 millj. kr. verði varið til beinna styrkja til þeirra aðila sem nota olíu til hitunar íbúða sinna. Þar er einnig lagt til að 1000 millj. kr. renni í Orkusjóð til að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum vegna hitunar íbúða og til að standa undir skuldbindingum sjóðsins að öðru leyti.

Frv. þetta felur þannig fyrst og fremst í sér formbreytingu. Olíugjaldið svonefnda var ekki talið með í ríkissjóðstekjum, heldur var litið á það sem tímabundna ráðstöfun fjár til þess að milda áhrif olíuverðhækkunarinnar 1973 og eftirleiks hennar. Nú er hins vegar með öllu ljóst að þeim vanda, sem hlýst af hækkun orkuverðs í heiminum, verður hér á landi best mætt með því að efla hitaveituframkvæmdir og aðrar hagkvæmar innlendar orkuframkvæmdir. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að efla fjárhag Orkusjóðs til þess að greiða fyrir fjármögnun þessara framkvæmda. Hér er ekki um tímabundið víðfangsefni að ræða og því langeðlilegast að stiga það skref sem hér er lagt til, að viðurkenna olíusjóðsgjaldið sem ríkistekjur í stað þess að hafa það eins og á milli vita.

Eins og ég gat um áðan, er þegar gert ráð fyrir að meiri hluti fjárins gangi til hitaveituframkvæmda eða annarra verkefna Orkusjóðs, eða einn milljarður, en um 600 millj. kr. til styrkja til þeirra sem hita hús sín með olíu. Í þeirri tölu er gert ráð fyrir að styrkfjárhæðin á hvern mann geti hækkað vegna útbreiðslu hitaveitna. Það er eftirtektarvert að síðan 1972 hefur sá hluti þjóðarinnar, sem býr við hitaveitu, aukist úr 45% í 55% og á næstu 4 árum gæti þetta hlutfall hækkað í 72%. Þessi nýja búgrein sparar vitaskuld mikinn innflutning og þar af leiðandi gjaldeyri, og segja má að þetta frv. sé til þess flutt að ríkissjóður geti staðið að þessari þróun á næstu árum og lagt grunn að framhaldi hennar.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.