29.11.1976
Neðri deild: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

100. mál, söluskattur

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í rauninni af sama toga og fyrra frv. sem hér var verið að enda við að ræða. Þar var á það minnst að lagt hefði verið á skyndigjald, innflutningsgjald, sem átti að standa í nokkra mánuði, en síðan hefur það verið framlengt og virðist nú vera að verða að föstum tekjustofni hjá ríkissjóði. Í þessu tilfelli er um það að ræða að lagt var á sérstakt gjald, svonefnt olíugjald, eitt söluskattsprósentustig, og átti að verja þessu gjaldi í sérstöku skyni. Um það voru sett ákveðin lagaákvæði um það fé, sem aflaðist með þessum hætti, ætti að nota til þess að reyna að lækka olíuverð til þeirra aðila sem þyrftu að hita upp híbýli sín með olíu. Þegar þetta var ákveðið hafði sem sagt það gerst, að olían hafði hækkað gífurlega í verði og þeir, sem bjuggu við þessar aðstæður, fengu þar á sig miklu meiri útgjöld í daglegu lífi sínu en aðrir. En nú kemur hér frv. frá hæstv. ríkisstj. um að innbyrða þetta gjald í ríkissjóð eins og önnur gjöld, bæta þessu við hinn almenna söluskatt, gera þetta að föstum tekjustofni ríkissjóðs og síðan verði ákveðið á fjárl. hverju sinni hvort eigi að greiða mönnum eitthvað til verðlækkunar á olíu, þeim sem gjaldið áttu upphaflega að fá, eða greiða þeim ekki. Og þegar er till. í þessu formi komin fram, sú fyrsta, að gera ráð fyrir því að 600 millj. af þessu gjaldi renni til þeirra sem verða að hita upp híbýli sín með olíu, en 1000 millj. eigi hins vegar að renna í ríkissjóð eða til ákveðinnar ríkisstofnunar.

Það er augljóst mál að þessi skattlagning er að verða hreinasti skrípaleikur eins og að henni er staðið. Þetta gjald er ekki lengur lagt á til stuðnings við þá aðila í landinu sem verða að borga þessa dýru olíu, því að það, sem þeir fá, ef þeir fá aðeins 600 millj. kr., er orðið minna en þeir borga af heildargjaldinu. Ef þær tölur eru réttar sem hæstv. fjmrh. greindi hér frá, þar sem hann sagði að svo hefði verið, að 45% landsmanna hefðu búið við hitaveitu, en nú væri þetta komið upp í 55%, þá verður maður að reikna með að það séu þá hin 45% sem eftir eru sem enn þá búa við það að hita upp híbýli sín með olíu. En það er augljóst mál að ef heildargjaldið er 1600 millj. kr., þá er þetta í fullkomnu jafnvægi, það sem þeir fá og það sem þeir greiða, ef þeir væru 37%, þessir sem hita upp hús sín með olíu. Sem sagt, það er búið að snúa þessu gjaldi svo laglega við, að það er heldur verið að auka álögurnar, einnig á þá sem verða að hita upp híbýli sín með ollu, umfram það sem verið hefði ef gjaldið hefði alls ekki verið lagt á. Hér er auðvitað óeðlilega að málum staðið. Þetta gjald átti að renna allt, — um það voru gefnar yfirlýsingar á sínum tíma þegar gjaldið var lagt á, — það átti beinlínis að renna allt til þeirra aðila í þjóðfélaginu sem búa við þessar sérstöku aðstæður sem virðist vera erfitt að láta menn skilja hér á hitaveitusvæðunum, einkum hér á Reykjavíkursvæðinu, — skilja, hvers konar aukaútgjöld hvíla á þeim sem verða að hita upp íbúðarhús sín með því að kaupa olíu.

Ég er á þeirri skoðun að það beri að halda áfram þessari gjaldtöku og verja öllu gjaldinu til að mæta mismunandi kostnaði sem menn verða fyrir. En ég er algerlega á móti því að taka stóran hluta af þessu gjaldi til almennra hitaveituframkvæmda eða annars þess sem á að fjármagnast með allt öðrum hætti. Það er sjálfsagt að greiða fyrir því að ráðist sé í hitaveitur, og auðvitað ber ríkinu af sínum tekjustofnum nú eins og áður að standa undir vissum útgjöldum á vegum Orkustofnunar. En það á ekki að ráðast sérstaklega á þessar takmörkuðu tekjur þeirra sem búa tvímælalaust við mestu útgjöldin í sambandi við upphitun á íbúðarhúsum sínum.

En nú er sem sagt með þessu frv. verið að ganga enn lengra í óréttlætisáttina en gert hefur verið síðustu tvö ár, þegar farið var inn á þá braut að taka hluta af þessu gjaldi, sem var ætlað til ákveðinna aðila í landinu, og verja því í öðru skyni. Nú er beinlínis lagt til að taka gjaldstofninn, bæta honum við fasta tekjustofna ríkissjóðs, koma honum einu sinni inn fyrir þar að fullu og öllu og ákveða svo við hverja fjárlagaafgreiðslu hvort megi kasta einhverju af þessu gjaldi í þá, sem verða að hita upp híbýli sín með olíukyndingu, eða ekki.

Ég er algerlega andvígur þessu frv., tel að í því felist mikið óréttlæti og í rauninni algjör svik við þá sem þetta gjald var lagt á fyrir með ákveðnu samkomulagi á sínum tíma. En auk þess ber þetta vott um að hafi gjald verið lagt á einu sinni af einhverjum sérstökum ástæðum, þá er það alltaf tekið, í öllum tilfellum, og gert að fastatekjustofni ríkissjóðs. Þetta er röng stefna. Mér er það ljóst að eins og nú er komið væri miklu betra fyrir þá, sem eiga í erfiðleikum með sinn mikla kyndingarkostnað, að fallast á að þetta eina prósentustig félli niður og þeir losnuðu við þau útgjöld sem þeir hafa af þessu gjaldi og fengju þá heldur engan olíustyrk, því að það er komið sem sagt þannig að gjaldið, sem hefur verið lagt á undir þessu fororði, það er búið að breyta um eðli, þetta er að verða fastur og almennur tekjustofn hjá ríkinu.

Ég skal svo ekki eyða frekari tíma hér við 1. umr. um málið, en lýsi algerri andstöðu minni við þetta frv.