30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

239. mál, rafmagn á sveitabýli

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Ég held að hæstv. ráðh. ætti að kynna sér betur málfarsnotkun hér á hinu háa Alþ. Það er gömul hefð hér að heimila og leyfa ráðh. að gera eitt og annað, en í því felst viljayfirlýsing Alþ., og hæstv. ráðh. er skylt að hlýða þeirri viljayfirlýsingu. Það felst ekki í þeirri lagabreyt., sem ég beitti mér fyrir að gerð var hér á þingi, sú skylda að Landssíminn borgi þetta. Það væri líka hægt að hafa þann hátt á, að Landssíminn gerði ríkissjóði reikning fyrir kostnaði við að láta aldrað fólk og öryrkja með lágmarkstekjur hafa ókeypis síma. Síðan væri hægt að innheimta það hjá ríkissjóði, og hæstv. ráðh. gæti beitt sér fyrir því að þessir fjármunir væru t.a.m. teknir af söluskatti sem er stolið undan svo milljörðum skiptir á ári hverju, eða af þeim innflytjendum sem uppvísir verða að því núna að stela undan gjaldeyri og hækka allt vöruverð í landinu sem því svarar, eða taka það af gróðafyrirtækjum og gróðaaðilum sem urðu landsþekktir í sumar fyrir að borga engin opinber gjöld til ríkisins. Það er mjög auðvelt að finna fjármuni til að standa undir þessari breytingu ef einhver vilji er fyrir hendi hjá hæstv. ráðh. til að framkvæma vilja Alþingis.