30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

68. mál, kennaraskortur á grunnskólastigi

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseli. Ég vil þakka hæstv. ráðh. svör hans. Út af fyrir sig voru það gagnlegar talnalegar upplýsingar sem þarna komu fram, en reyndar kom ekki mikið annað fram í þessu máli. Spurningunni um það, af hverju fólk leitar ekki eftir kennslu, af hverju það leitar í önnur störf en þau sem það hefur undirbúið sig sérstaklega til, henni er kannske ekki alveg auðsvarað. Það er þó vitað að kennarastéttin í heild er láglaunastétt tvímælalaust og alveg sérstaklega eftir að nám hennar eða próf er orðið háskólapróf. Þar kemur inn á það, sem ég minntist á áðan í sambandi við Kennaraháskólann, að þegar honum var komið á, þá var þar allt of geyst farið'. Það var of stórt stökk tekið í einu a.m.k. og þar af leiðandi varð, eins og hæstv. ráðh. drap á, hin stórkostlega fækkun á útskrifuðum kennurum á einu ári, úr yfir 200 og niður í 7. Vandinn er vissulega mikill í sambandi við að leiðrétta kjör þessa fólks, alveg sérstaklega eftir að farið er að gera til þess þessar menntunarkröfur, og ég álít að rn. menntamála eigi að vinna þar að og styðja kennarastéttina beinlínis í því að ná þar fram rétti sínum.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, eins og ég gerði reyndar í fsp. áðan, að ég vil síst vega að þeim sem miklu hafa bjargað í þessum málum, þeim réttindalausu, og ég veit að þar eru margir velmenntaðir starfskraftar á ferð. Ég get ekki neitað því hins vegar, að aðaláherslu ber auðvitað að leggja á uppeldishlutverkið í þessum efnum. Það er svo aftur spurning hvort Kennaraskólinn og Kennaraháskólinn hafi gegnt því hlutverki að mennta menn nægilega vel á því sviði, hafi ekki lagt of mikið upp úr öðru.

Ég tel það líka algjörlega óviðunandi, eins og nú liggur ljóst fyrir, að þeir menn, sem tóku kennarapróf á sínum tíma sem það mesta mögulega próf sem þá var hægt að taka varðandi grunnskólanámið, þeir skuli nú búa við miklu lakari kjör en hinir, sem hafa tekið prófið nú á síðustu árum, eftir að þetta kom á háskólastigið. Það er með öllu óviðunandi, því að þessir aðilar hreinlega gátu ekki á sínum tíma komist lengra í menntun og tekið hærra próf í sambandi við þetta stig. Ég held að þarna hljóti að vera um að kenna einhverju þroskaleysi í minni gömlu stétt. En ég hlýt að skora á hæstv. ráðh. að beita sér fyrir því að þarna verði á launajöfnuður milli þessara aðila.

En aðalatriði málsins er það, að rn. menntamála hlýtur að verða að taka þessi mál föstum tökum. Þar ber margt til. Þessi mál eru nú í brennidepli. Það er að vísu almennur órói á vinnumarkaðinum sem er eitt aðaleinkenni allra þjóðlífshreyfinga í dag. En mismunur á kjörum er óviðunandi innan þessarar stéttar og þessi stétt er einnig allt of illa launuð. Það er engin von til þess að menn sæki eftir sjö ára nám, þar af þriggja ára nám á háskólastigi, í starf sem ekki er betur launað, þó að það sé skárra en hjá gömlu kennurunum, mér og öðrum sem tóku sitt lokapróf úr Kennaraskólanum. Ég hlýt því að treysta hæstv. ráðh. til þess að rn. menntamála taki þessi mál öðrum og fastari tökum en hingað til hefur verið gert.