30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 74 svo hljóðandi fsp. til hæstv. heilbrrh.:

„Hvað líður framkvæmd þál. frá 16. maí 1975 um hjálparstofnanir vegna vangefinna, sem dveljast í heimahúsum, og aukningu hjúkrunarrýma?“

Þessi umrædda þál., sem samþ. var með shlj. atkv. á Alþ., í báðum deildum þess, og afgreidd úr Ed. hinn 16. maí 1975, hún hljóðar svo:

Alþ. skorar í ríkisstj. að undirbúa hið fyrsta ráðstafanir til að bæta aðstöðu vangefinna og fjölfatlaðra, m.a. með aukningu hjálparstofnana vegna þeirra, sem dveljast í heimahúsum, og aukningu hjúkrunarrýma fyrir þá, sem eiga við þessi vanheilindi á háu stigi að stríða.“

Hér er um að ræða tvo afmarkaða þætti í hinu viðamikla máli sem snertir aðbúnað vangefinna á landinu. Ég vil leyfa mér til að undirstrika við hvað var átt í þessari þál. að vitna — með leyfi hæstv. forseta — til grg. sem þessari litlu till. fylgdi á sínum tíma. Í henni segir svo m.a.:

„Fjöldi foreldra vangefinna barna og fjölfatlaðra vill, ef nokkur kostur er, fremur annast þau í heimahúsum en vista þau á stofnunum. Þarf ekki að ræða það, hvers virði það er þessum einstaklingum að njóta foreldraumhyggju. En e.t.v. eru of fáir sem hugsa út í það, hvílíkt álag slík umönnun getur verið foreldrum eða aðstandendum. Það er ekki einfalt mál fyrir það fólk að njóta hvíldar smátíma, þótt þreki þess geti ella hæglega verið ofboðið. Oft vakna líka vandasamar spurningar og áhyggjur í sambandi við uppeldi og aðhlynningu þessa vanheila fólks.

Hjálparstofnanir, sem veitt gætu þessum foreldrum ýmiss konar aðstoð og leiðbeiningar og tekið gætu að sér umönnun þessara einstaklinga smátíma í senn stöku sinnum, t.d. nokkra daga, gætu orðið að ómetanlegu liði og í sumum tilvíkum forðað uppgjöf.

Við hið daglega álag bætist að áhyggjur sækja á marga þessa foreldra vegna óvissu um það, hvað við taki er þeirra nýtur ekki lengur við. Sum þessara barna eru svo illa sett að þau virðast lenda eins og á mörkum ýmissa stofnana, milli þeirra eða jafnvel utan við þær vegna þrengsla og skorts á möguleikum í þeim stofnunum sem fyrir eru.

Önnur eru bæði vangefin og auk þess svo mjög fötluð og vanheil að öðru leyti, að þau þurfa mikla hjúkrun og sérstæða umönnun. Vegna þessara einstaklinga þyrfti t.d. verulega að efla og bæta hjúkrunardeild Kópavogshælis.“

Hér með lýkur tilvitnun í grg. þál. sem samþ. var vorið 1975 hér á Alþ. Mér er ljóst að til þess að gera sér grein fyrir þörf slíkra hjálparstofnana sem um er rætt í þessari þál. þarf töluverða fyrirframkönnun á högum þeirra foreldra og óskum sem hér er um að ræða. Mér er vel kunnugt um að það er mikil þörf á þessu, en ekki nákvæmlega hversu mikil. Ég hef ekki haft tækifæri til að átta mig á því, Enn fremur er það ljóst, eins og ég nefndi um hinn þátt málsins, tíð þar er úrbóta þörf. Fyrir þá sem eru fatlaðir eða mjög skertir á margan hátt, ef til vill blindir og heyrnarlausir, mállausir og vangefnir og lamaðir allt í senn, fyrir slíkt fólk skortir því miður þá aðstöðu sem þarf.

Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. ráðh. að gera grein fyrir því hvað rn. hyggst gera í þessu efni.