30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. mjög vel fyrir hans greinagóðu skýrslu um þessi mál. Hún var raunar yfirgripsmeiri en ég hafði þorað að fara fram á, en þar með var hún einnig gagnlegri.

Ég held að það sé mjög nytsamt fyrir hv. þm. yfirleitt að fá yfirlit um stöðu þessara mála eins og hæstv. ráðh. gaf. Það vekur strax töluvert alvarlegar hugleiðingar að við blasir sú staðreynd, að þetta viðkvæma mál heyrir undir þrjú rn. Það liggur að vísu í augum uppi að menntunarþáttur þess hlýtur að heyra undir menntmrn., að svo miklu leyti sem menntun vangefinna fer fram í hinum almennu skólum og að svo miklu leyti sem um fólk er að ræða sem er það hraust og þannig á sig komið að það getur notfært sér þá menntun sem stendur til boða í skólakerfi okkar.

Annað atriði finnst mér að við þurfum sérstaklega að hafa í huga, og það eru ábendingar hæstv. ráðh. um skort á starfsliði og sérhæfðu hjúkrunarliði á þessu sviði. Slíkar ábendingar frá ráðh. ná víðar en til alþm. Umr. um það eru gagnlegar vegna ungs fólks sem er að velja sér ævistarf. Þær gætu vakið athygli á því, að þar væri um starfsvettvang að ræða sem hæfir kraftar ungmenna mættu beinast að.

Að því er varðar þau ummæli hæstv. ráðh., að séu þáltill. sem þessi, fluttar af þm., skoðaðar í ljósi þeirra fjárveitinga sem síðar væru veittar, virtist sem hugur þm. fylgdi ekki máli þegar rætt væri um slík mál, þá er það að vísu jafnrangt eins og að ég léti mér detta í hug að segja að hæstv. ráðh. léti sig þetta mál ekki skipta af því að það væri ekki búið að leysa allan vanda þessa máls. Það dettur mér ekki í hug að segja og ekki heldur að hugsa, því að ég veit að hæstv. ráðh. hefur einlægan áhuga á að koma máli þessu í höfn. Hins vegar er hér við gífurlegan vanda að etja, og það er ljóst, að þegar hæstv. ráðh. beinir til þm. á þann hátt sem hann gerði í sinni ræðu, að styðja sig við lausn slíks vanda, þá hljótum við að reyna hvað við getum að gera það.

Ég ítreka þakklæti mitt til hæstv. ráðh. fyrir hans ágætu og glöggu skýrslu um þessi mál. Ég sé á öllu að við megum vænta þess, að a.m.k. muni hann og hans rn. ekki láta sitt eftir liggja til þess að koma þessum málum í höfn.