30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir það sem hæstv. heilbrrh. sagði áðan um mörkuðu tekjustofnana. Það getur verið að það sé æskilegt að afnema þá alla, en það er bara ekki alltaf hægt með tilliti til þeirra verkefna sem þeim hefur verið ætlað að þjóna. Það er hverju orði sannara að það er nauðsyn á meira samstarfi — og formlegu samstarfi — heldur en verið hefur með þeim þremur rn. sem þessi mál falla einkum undir. Ég vil geta þess hér, sem ég hef einhvern tíma skýrt frá áður, að í vetur varpaði ég fram þeirri hugmynd að þessi rn. settu þriggja manna n. til þess að athuga lög og reglur um þessi mál með tilliti til hugsanlegrar samræmingar. Það er mín sök að framkvæmdir drógust í þessu máli, en sú n. hefur nú verið sett á laggirnar og ég vil leyfa mér að vona að með því sé hafinn eins konar vísir að formlegu samstarfi með þessum þremur rn., heilbr.-félm. og menntmrn., um þessi málefni sem hér er fjallað um, því að á því er vissulega mjög mikil þörf.

Það er ekki vafi á því, að okkur vantar hér betra skipulag þegar á heildina er litið. En okkur vantar líka meira fjármagn, og það er á örlitlum misskilningi byggt hjá hv. 2. þm. Reykn. þegar hann sagði að eftir setningu grunnskólalaganna með þeim sterku ákvæðum, sem þar eru um menntun þroskaheftra, sé það fyrst og fremst skipulagsatriði í menntmrn. hvernig þetta sé framkvæmt. Þetta er að nokkru leyti rétt, ekki að öllu leyti, því að þessar framkvæmdir kosta mjög mikla peninga, bæði rekstrarlega, því að þó fjöldi einstaklinganna sé takmarkaður, þá er mjög dýr þessi einstaklingskennsla, og oft og einatt og ekki síður stofnkostnaðarlega, því okkur vantar víða aðstöðu til þess að geta sinnt kennslumálum þessa fólks. En það eru fjárframlög sem borga sig þegar fram í sækir, þegar hægt er að hjálpa þeim til sjálfsbjargar sem ella hefðu orðið þjóðfélaginu byrði ævilangt.