30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

248. mál, geðdeild Landsspítalans

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram vegna orða hæstv. menntmrh., að ég vil leggja á það mikla áherslu að ég tel að þetta fólk eigi fullkomlega sama rétt til framlaga úr okkar menntakerfi og því fjármagni, sem lagt er til menntamála, eins og aðrir einstaklingar á skólaaldri eða þeir sem á menntun eiga rétt. Því vil ég leggja á það áherslu að ekki verði látið við það sitja að gera áætlanir um að liðsinna þeim í þessu efni, heldur komi til framkvæmda einnig. Það er sí og æ verið að framkvæma mikið í þessu landi í skólamálum, það er mikill rekstrarkostnaður við skólana og þroskaheftir eiga ekki á nokkurn hátt að verða út undan. Þeir eiga rétt á því að njóta sömu réttinda og aðrir þegnar þjóðfélagsins í þessum efnum. Það er þetta sem ég vil leggja megináherslu á, að þeir verði ekki settir hjá.