30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi slær því föstu að rannsóknir hafi ekki verið nægar í upphafi og að það hafi verið staðfest aftur og aftur að staðsetning virkjunar hafi verið í meira lagi vafasöm. Ég tel því rétt aðeins í örstuttu máli að rifja upp aðdragandann og þær rannsóknir sem fram höfðu farið.

Í ítarlegri skýrslu, sem Orkustofnun gaf út í ársbyrjun 1975, er greint frá niðurstöðum rannsókn á Kröflu- og Námafjallssvæðinu. Það er rétt að geta þess hér, hverjir eru höfundar þessarar skýrslu, nöfn þeirra eru skráð á titilblaði. Það voru þeir Kristján Sæmundsson, Stefán Arnórsson, Karl Ragnars, Hrefna Kristmannsdóttir, Gestur Gíslason, en skýrslan er gefin út í nafni Orkustofnunar, jarðhitadeildar.

Í þessari skýrslu er getið um það, að boranir og rannsóknir hafi farið fram á árunum 19701973 og á árinu 1974 voru boraðar rannsóknar- og tilraunaholur, tvær að tölu. Niðurstaða þessara borana og annarra rannsókna, sem þannig höfðu staðið yfir í nokkur ár, var sú, að Kröflusvæðið mundi standa undir 60–60 mw. gufuvirkjun og hugsanlegri stækkun síðar. Var tekið fram að Kröflusvæðið sé tífalt stærra að flatarmáli en Námafjallssvæðið, sem einnig hafði komið til orða, og því líkur á að Kröflusvæðið sé öruggara í vinnslu og standi undir verulegri stækkun síðar.

Ég get þessa hér sérstaklega vegna þeirra ummæla og fullyrðinga hv. fyrirspyrjanda að rannsóknum og undirbúningi hafi verið mjög ábótavant. Margt af því, sem síðar hefur komið fram, er rætt og rakið í rauninni í þessari skýrslu.

M.a. er þar gert ráð fyrir því, að á vissu dýpi, eða um 2000 m dýpi, gæti orðið allt að 340 stiga hiti eða um það bil sá hiti sem mestur hefur mælst í borholum í Kröflu.

Í þessari skýrslu er einnig tekið fram að efnainnihald í vatni og gufu í þessum tveimur rannsóknarholum, sem boraðar voru á árinu 1974 í Kröflu, sé svipað og í vinnsluholunum í Námafjalli og megi því styðjast við reynslu þar hvað varðar tæringu og aðra eiginleika vatnsins. Í þessari skýrslu segir síðan að á grundvelli rannsóknanna sé lagt til að stöðin verði reist á hrauni innst í Hlíðardal, nákvæmlega þeim stað þar sem stöðvarhúsið var reist.

Ég vil enn fremur taka það fram, að í þessari margumræddu skýrslu Orkustofnunar er einmitt rætt um bæði gos þau, sem áður hafa orðið á þessum svæðum, og hættu á hraungosi, og segir svo m.a. orðrétt í þessari skýrslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Krafla og hæðardrögin þar umhverfis standa það hátt að þar skapast ekki veruleg hætta þótt hraungos verði einhvers staðar í grenndinni. Jafnframt myndar þetta fjalllendi varnargarð umhverfis Hlíðardal.“ – En það er í Hlíðardal sem stöðvarhúsið er byggt. — „Innst í Hlíðardal eru þrjár gossprungur, sú yngsta er. 2000 ára gömul. Lagt er til,“ segir Orkustofnun, „að stöðin verði byggð á hrauni sem hefur runnið frá þeirri gossprungu,“ þ.e.a.s. þessari 2000 ára gömlu. „Veruleg hætta skapast varla fyrir stöðvarbygginguna af völdum hraunrennslis nema ef gos yrði að nýju innst í Hlíðardal.“

Ég tel ástæðu til þess vegna ummæla hv. þm. að rekja þetta mál hér. Ég vil enn fremur taka það fram, að Alþ. fjallaði um þetta mál vorið 1974 á þann veg, að lagt var fyrir Alþ. stjórnarfrv. um virkjun Kröflu. Það frv. var samþ. einróma. Helsta áhyggjuefnið, sem menn höfðu, var að of seint kynni að ganga að ljúka Kröfluvirkjun vegna langs afgreiðslutíma á vélum. Í rauninni var það Alþ. sem ákvað að ráðist skyldi í virkjun Kröflu, og það var vissulega ekki án rannsókna eða undirbúnings því að rannsóknir höfðu farið fram árum saman, og niðurstaða Orkustofnunar, sem er samkv. lögum sá aðili sem á að vera rannsóknar- og ráðgjafaraðill ríkisvalds í þessum efnum, skoðun og tillögur Orkustofnunar lágu fyrir, þar sem mælt var með Kröfluvirkjun og hvar stöðvarhúsið skyldi byggt.

Við boranir hefur hins vegar sumt reynst á aðra lund en Orkustofnunin og þeir vísindamenn, sem þar starfa og unnið höfðu að málinu, höfðu gert ráð fyrir. T.d. hefur gasinnihald gufunnar reynst meira en þeir höfðu gert ráð fyrir og eins og kom fram í þeim orðum úr skýrslunni sem ég las er talið að þetta aukna gasinnihald gufunnar megi rekja til gosvirkninnar í des. á s.l. ári. Það hefur einnig komið fram tæring á fóðurrörum í sumum holum, og eru taldar líkur á því að það standi einnig í sambandi við þetta gasmál.

Varðandi tæringuna, þá er hins vegar það mál ekki fullrannsakað enn, en ekki líkur til að þar sé nein bráð hætta á ferðum. Ef ekki tækist að koma í veg fyrir þessa tæringu, þá gæti hún með sama áframhaldi eyðilagt fóðurrörin eftir 10–15 ár. Hins vegar er í nánari athugun bæði um orsakir þessarar tæringar og hvaða ráð kunna að vera til þess að vinna gegn henni.

Í þriðja lagi hefur hlutfallið milli gufu og vatns í borholum reynst á annan veg, þ.e.a.s. að hlutfall gufunnar er hærra en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta bendir til þess að dómi sérfræðinga, að í dýpri hluta jarðhitasvæðisins séu gufa og vatn saman í holrými bergsins, en þetta geti valdið tregara rennsli vegna tiltölulega mikils rúmmáls gufunnar og kunni að vera skýringin á tiltölulega litlu rennsli úr þessum holum. — Svo komast sérfræðingar Orkustofnunar að orði nú um þetta vandamál.

Það er því ljóst að við ýmis vandamál er að etja varðandi gufuöflunina. Sum þeirra má rekja til áhrifa gosvirkninnar fyrir ári. Hins vegar er rétt að hafa í huga að boranir standa enn yfir og mælingar á þeim borholum, sem lokið er við, standa einnig yfir. Ég vil nota hér þau orð sem yfirmenn Orkustofnunar viðhöfðu í morgun í sambandi við þetta mál, að á þessu stigi máls er ástæða til að varast bæði ótímabæra svartsýni og ótímabæra bjartsýni. Það verður unnið áfram að rannsóknum og mælingum á borholunum, eins og aðstæður frekast leyfa, og mun Orkustofnun þá skila skýrslu um þau mál.

Hv. fyrirspyrjandi vitnaði í grein Ísleifs Jónssonar verkfræðings í Fréttabréfi Verkfræðingafélagsins, en þá grein kallar hann: „Hugsanleg orsök lítils gufumagns í Kröflu.“ Þar setur hann fram tilgátu um skýringu á því, hvers vegna minna gufurennsli sé úr borholunum en gert hafði verið ráð fyrir. Það er rétt að það komi hér fram, að jarðfræðingar jarðhitadeildar í Orkustofnun eru í veigamiklum atriðum ósammála því sem Ísleifur Jónsson setur fram um eiginleika bergsins í þessari grein. Þetta er auðvitað ekki nýtt. Við höfum heyrt það oft fyrr, hversu ágætum sérfræðingum ber ekki saman um margt varðandi Kröflu, og skal ég ekki rekja það hér. En ég vil taka það skýrt fram, eins og ég hef margsinnis gert áður, að varðandi framgang og framhald framkvæmda við Kröfluvirkjun hef ég talið eðlilegt að byggja fyrst og fremst á þeim skoðunum sem Orkustofnun sem slík lætur í ljós um þessi efni. Og þegar ég tala um Orkustofnun sem slíka, þá á ég við það sem þeir yfirmenn hennar, sem ábyrgðina bera á umsögnum frá stofnuninni, láta frá sér fara, en það er fyrst og fremst orkumálastjóri, sem er yfirmaður stofnunarinnar, og dr. Guðmundur Pálmason, sem er yfirmaður jarðhitadeildar.