30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár til þess að fá hér fram umr. um landhelgismálið og þær viðræður sem fram hafa farið um það mál við fulltrúa Efnahagsbandalagsins og nokkuð hefur verið skýrt frá í blöðum. Ég á afar erfitt með að verða við þeirri beiðni hæstv. forseta að tala mjög stutt um þetta mál. Ég tel að hér sé um svo stórt mál að ræða að það sé ekki hægt að komast hjá því að gefa sér fullan tíma til þess að ræða það, og það er líka þess eðlis, að það verður varla tekið hér fyrir á Alþ. með öðrum hætti en utan dagskrár.

Eins og öllum er kunnugt, þá fóru fram sérstakar viðræður, sem skýrt var frá opinberlega, við fulltrúa Efnahagsbandalagsins um fiskveiða- og landhelgismál. Ég hygg að það hafi verið 12. nóv. sem fyrstu umræður fóru hér fram í Reykjavík. Þá var lögð mikil áhersla á það af hálfu hæstv. ríkisstj. að hér væri ekki um samningaviðræður að ræða og í rauninni ekki um neinar formlegar viðræður, heldur var klifað á því að hér væri aðeins um könnun á málavöxtum að ræða, könnunarviðræður, og að ríkisstj. ætlaði aðeins að hlýða á mál sendimanns Efnahagsbandalagsins. En það kom fljótlega í ljós, að það var staðið mjög einkennilega að þessari könnun af hálfu ríkisstj. Hún, sem hafði aðeins ætlað að hlusta á þennan erlenda sendimann og meta það síðan hvort hún yfirleitt ætti að hefja formlegar viðræður við hann, stóð þannig að málinu, að hún sendi af sinni hálfu tvo hæstv. ráðh., tvo alþm. og átta embættismenn og þar að auki sjálfan forsrh. Allir þessir aðilar tóku þátt í því að kanna það, hvort yfirleitt ætti að ræða við þennan mann efnislega um þau mál sem hér var nú um að ræða.

Engar yfirlýsingar voru gefnar að lokinni þessari fyrstu könnun aðrar en þær, að könnuninni mundi verða haldið áfram. Svo leið ein víka eða svo og sendimaður Efnahagsbandalagsins kom hingað á nýjan leik með fulltrúa sína og aftur hófst könnun. Og það var þrástagast á því í öllum fréttamiðlum að hér væri bara um könnun að ræða, engar alvarlegar viðræður. Og enn var allt þetta líð sent fram af hálfu okkar íslendinga sem ég minntist á og ekki heldur dregið úr því að hæstv. forsrh. væri þarna með — hann talaði einnig við þennan sendimann. Síðan hefur verið skýrt frá því aðeins í stuttri yfirlýsingu hvað virðist þó hafa komið út úr þessum viðræðum. Það er enn ástæða að halda áfram könnun, eftir því sem segir í erlendum fréttum, eftir hálfan mánuð. En sameiginleg yfirlýsing var gefin út á þá leið, að aðilar væru sammála um að efna til formlegra samningaviðræðna um langtímasamning á milli aðila sem varðaði fiskverndarmál og stjórnun á fiskveiðum. Síðan er einnig tekið fram í þessari yfirlýsingu, að auk þess yrði síðar fjallað um hugsanlegar gagnkvæmar veiðiheimildir á fiskimiðum hvors aðila um sig.

Til viðbótar við þessa yfirlýsingu gaf svo fulltrúi Efnahagsbandalagsins út sérstaka tilkynningu og lagði þar á það áherslu, að hann teldi alveg vist að samkomulag mundi nást sem m.a. tryggði að þjóðir Efnahagsbandalagsins þyrftu ekki að hætta snögglega veiðum sínum hér við land. Og eftir að hann var kominn til útlanda og við fórum að fá fréttir úr fréttastofum þaðan, þá var enn bætt við þetta, því að þá var sagt að hann væri alveg viss um að samningur yrði gerður fyrir jól sem tryggði m.a. bretum áframhaldandi veiðar hér. Og næst komu svo fréttir — ég held í morgun — um það að bretar reiknuðu sjálfir með því, auðvitað eftir að hafa talað við þennan sendimann sem hér var til viðræðu um þessi mál, að þeir reiknuðu með því að fá að hafa hér a.m.k. 12 togara. Að vísu mundu þeir verða að fara heim nú 1. des., en í jan. mundu þeir geta haft hér 12 togara við veiðar vegna þeirra samninga sem fram undan væru.

Allt er þetta býsna einkennilegt, og mér sýnist að það sé eðlilegt að það komi upp margar spurningar varðandi þessar upplýsingar sem ég hef hér minnst á. En áður en ég vík beint að þeim, þá finnst mér ástæða til þess að minnast hef hér minnst á. En áður en ég vík beint að þeim hafa verið í þessum efnum.

Það dregur eflaust enginn í efa að hér er um eitt allra stærsta mál íslensku þjóðarinnar að ræða, sem er okkar landhelgismál og okkar fiskveiðimál almennt séð. En þó að það sé svo, þá hafa ekki fengist fram umr. hér á hv. Alþ. á neinn hátt um það, hvaða stefnu við skulum halda uppi í þessu máli í hugsanlegum viðræðum við útlendinga, sem við vissum, að sóttu á um að fá viðræður. Í stað þess stendur hæstv. ríkisstj. þannig að málinu, að hún þykist í rauninni ekkert vera að gera, alltaf að hlusta, alltaf að kanna eitthvað og gerir það með þessum furðulega hætti, en síðan stöndum við allt í einu frammi fyrir tilkynningu um að það sé nokkurn veginn að verða víst að innan skamms geti menn gert samning, sem eigi að gilda til langs tíma, um fiskfriðunarmál og stjórn á fiskveiðum.

Ég verð að segja það, að þessi vinnubrögð, að ganga á þennan hátt fram hjá Alþ. eins og gert hefur verið, þau eru auðvitað fordæmanleg. Hér er um að ræða óþingræðisleg vinnubrögð og ólýðræðisleg vinnubrögð sem ber að vita. Auðvitað hefur enginn meira um að gera stefnumörkun varðandi okkar fiskfriðunarmál en Alþ. og einnig það að setja reglur um stjórn á fiskveiðum sem snerta okkur. En nú heyrum við það allt í einu að menn séu búnir í öllum þessum könnunum að undirbúa það, að það eigi að fara að semja við erlendan aðila, þ.e.a.s. Efnahagsbandalag Evrópu, gera við hann langtímasamning um þessi atriði. Það er þetta sem hefur komið fram í opinberri tilkynningu frá aðilum um málið. Ríkisstj. hefur ekki, svo að mér sé kunnugt, haft neitt samband við Alþ. um þessi mál. Það var fyrst í gærmorgun að skotið var á fundi í utanrmn. og bar gefnar nokkrar upplýsingar eða lagðar fram fundargerðir frá þessum viðræðufundum án nokkurra teljandi umr., af því að menn urðu vitanlega að fá tíma til þess að geta lesið þessar fundargerðir. En við flokkana hér á Alþ. hafði ekki verið rætt, og mér er nær að halda að þessi mál hafi lítið eða ekkert verið rædd, ekki einu sinni í stjórnarflokkunum sjálfum. Það eru þá undarlegar frásagnir, sem berast hér frá manni til manns, ef umr. hafa farið fram í stjórnarflokkunum sem markað hafa stefnuna varðandi þessi mál á þann hátt að nú séu menn tilbúnir að gera langtímasamning við erlenda aðila um þessa þætti málsins. Ég tel að það sé sjálfsagt að það fari fram ítarlegar umr. á Alþ., og ég fyrir mitt leyti mun hlutast til um að þær fari fram, ef ekki hér með venjulegum hætti og fullum ræðutíma á Alþ., þá í útvarpsumr., því að við eigum kost á því að koma málinu að þannig, af því að hér er um málefni þjóðarinnar að ræða, og það er hvorki hægt að ganga fram hjá Alþ. né þjóðinni þegar ákvarðanir eru teknar í þessu máli. Slíkt er vitanlega algert hneyksli.

Ég vil þá víkja nokkru nánar, fyrir utan þessi vinnubrögð, að því, hvað mér sýnist hér vera á ferðinni. Það er sem sagt stefnt að því, eins og segir í yfirlýsingunni, að gera langtímasamkomulag við Efnahagsbandalag Evrópu um fiskfriðunarmál og stjórn á fiskveiðum. Ég hlýt að spyrja: Hvað meina menn með þessari yfirlýsingu? Er meiningin að við eigum að fara að gera langtímasamning við Efnahagsbandalag Evrópu um það, hvaða fiskfriðunarreglur eigi að gilda á okkar lögsögusvæði, innan 200 mílna fiskveiðilandhelginnar við Ísland? Ég tel allt slíkt auðvitað alveg fráleitt. Það er í algerri mótsögn við það sem gengið hefur verið út frá. Hér er um okkar lögsögusvæði að ræða, og við setjum eftir okkar lagareglum ákvæði um það, hvernig verður staðið að fiskfriðunarmálum á þessu svæði, og gerum engan samning um það við eitt eða annað erlent ríki. Síst af öllu ætti að velja Efnahagshandalag Evrópu til þess að fara að gera samning við það um ráðstafanir á þessu svæði. Eða er þá líklegt að hér sé um að ræða samning við Efnahagsbandalagið um fiskfriðunarmál fyrir utan 200 mílurnar eða þá væntanlega innan 200 mílnanna hjá Efnahagsbandalagsþjóðunum? Mér dettur ekki í hug að búast við því, þó að þeir séu að vísu leiknir sýnilega í því að reyna að lokka saklausa íslendinga sem lengst út á hálan ís, að þá dytti þeim í hug hjá Efnahagsbandalaginu að fara að gera samning við okkur til langs tíma um fiskfriðunarreglur á sínu lögsögusvæði. Okkar menn eru alveg nýlega komnir af fundi í London hjá Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni. Fulltrúar aðildarríkja þeirrar stofnunar með sérfræðinga sér við hönd hafa það verkefni að reyna að koma sér saman á frjálsum grundvelli um almennar reglur sem gilda eiga þeirra á milli varðandi fiskveiðar og fiskfriðunarmál utan þeirra svæða sem eru tilgreind sem lögsögusvæði hvers ríkis. Á þessum fundi, sem nýlega fór fram í London, sögðu fulltrúar Efnahagsbandalagsins: Það kemur ekki til mála að við höfum neitt við neina að tala í þeirri nefnd lengur sem snertir neinar ráðstafanir innan 200 mílna svæðisins sem bráðum verður hjá okkur. — Það var alveg skýrt hjá þeim að það kæmi ekki til mála. Þá er aðeins eftir sá möguleiki að það standi til að gera almennan fiskfriðunarsamning milli Íslands og Efnahagsbandalagsins á svæði sem er utan 200 mílnanna, bæði á þeirra vegum og okkar vegum. En þá er auðvitað samningur aðeins við Efnahagshandalagið mjög lítils virði og einhlíða, því að slíkir samningar ættu auðvitað að fara fram á vegum þeirra alþjóðastofnana sem nú þegar eru til og við erum aðilar að og við höfum unnið í og einmitt eiga að fjalla um málið á þeim slóðum. En ég vænti þess að hæstv. forsrh., sem fylgst hefur gerla með þessum málum, gefi hér upplýsingar um það, hvað menn meini með lýsingu um að gera langtímasamning við Efnahagsbandalagið um fiskfriðunarmál. Slíkur samningur getur ekki komið til mála af okkar hálfu varðandi eina eða neina skerðingu á okkar lögsögusvæði, sem hér skiptir auðvitað öllu máli.

Þetta, sem ég hef sagt, gildir í rauninni einnig varðandi hina yfirlýsinguna, sem snertir það að gera samning um stjórnun á fiskveiðum, –við eigum að semja við þennan aðila um stjórnun á fiskveiðum. Ætlum við að heimila þeim hér einhverja íhlutun um það, hvernig við stöndum að því að stjórna okkar fiskveiðum? Hefur ekki alltaf verið meiningin að það væri okkar löggjafaratriði að ráða fram úr því á okkar lögsögusvæði? Eða er þetta kannske allt saman, eins og mér sýnist nú, miðað við þær upplýsingar sem ég hef getað aflað mér, — er þetta kannske allt saman eintómur hégómi og tilbúningur til þess að fela það sem hér liggur raunverulega á bak við? Á fyrri hlutinn í þeim samningi, sem nú er verið að tala um, að vera marklausar yfirlýsingar beggja um að menn stefni að fiskfriðun, menn stefni að því að fara vel með fiskstofna og nýta þá til hins besta eða eitthvað í þá áttina, — á það að vera eins og inngangurinn að öllu saman, síðan komi kjarninn og aðalatriðið, að það á að leyfa tilteknar veiðar í íslenskri fiskveiðilandhelgi? En um það snýst allur leikurinn eins og við vitum.

Í þessari yfirlýsingu, sem ég hef gert hér að umtalsefni, er að vísu ekki sagt að það standi beinlínis til að gera samning um gagnkvæmar veiðiheimildir á fiskimiðum hvors aðila um sig. En það er sagt að það skuli einnig í komandi viðræðum fjalla um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir. Auðvitað var hinum erlenda sendimanni í þessu tilfelli nægjanlegt að fá það yfirlýst og opinbert, að um leið og ætti að gera samning um þennan fyrri hluta, sem ég hef minnst á, þá ætti einnig að fjalla um hitt.

Þá hlýt ég að spyrja einnig um það eftir alla könnunina sem fram hefur farið: Hvað er það sem hæstv. ríkisstj. meinar með gagnkvæmum fiskveiðiheimildum sem á að fjalla um? Hæstv. ríkisstj. hlýtur að vita eitthvað um það. Það er ómögulegt að þeir ráðh. og þeir embættismenn, sem hafa eytt mörgum dögum og mörgum kvöldum og setið í mörgum veislum með þessum sendimönnum, viti ekki hvert þeir eru að fara, þeir viti ekki enn hvað þeir vilja eða hvað á um að fjalla þegar næst verður komið saman. Hvað er það sem er verið að fjalla um varðandi gagnkvæmar fiskveiðiheimildir?

Jú, við vitum að það, sem fram hefur komið, er að fulltrúi Efnahagsbandalagsins býður fram heimildir handa okkur til þess að stunda síldveiðar 1 Norðursjó. Það fer ekkert á milli mála. Og það fer heldur vel á því, að við viljum fjalla um það mál á þeim grundvelli að í staðinn fyrir slíka heimild förum við að veita á móti ákveðnar fiskveiðiheimildir hér, einmitt þegar við erum nýbúnir að láta okkar sendimenn á fundinum í London leggja fram till. um að okkar stefnumál sé að loka Norðursjó, stöðva allar veiðar þar. Þegar við erum búnir að leggja það fram og hamra á því, að það sé okkar stefna af brýnni nauðsyn að stöðva síldveiðarnar í Norðursjó, þá á framhaldið að verða það, að auðvitað verðum við að gera eitthvað talsvert fyrir að fá að stunda þar veiðar. Sér er nú hver samkvæmnin í málflutningi ! Við vitum að það væri rétt að stöðva um nokkurt bil allar síldveiðar í Norðursjó, eins og þar er komið. En við vitum líka, jafnvel þótt okkur eða öðrum verði boðið að veiða nokkurt magn þar, þá vitum við að slíkt tilboð er sáralítils virði og eins og nú er komið er vafasamt að íslensk útgerð mundi notfæra sér slíka heimild, — mjög vafasamt. Ég fyrir mitt leyti dreg mjög í efa að sá síldveiðifloti okkar, sem hefur notfært sér Norðursjávarveiðina til þessa, en er jafnframt sá floti sem fyrst og fremst getur nýtt sér sumar- og haustloðnuveiðarnar fyrir Norðurlandi, — ég dreg það mjög í efa að þeir verði margir sem stöðva loðnuveiðina til þess að notfæra sér veiðar í Norðursjó við þær aðstæður sem menn hafa þar við að búa nú. Auðvitað er þetta tilboð af hálfu Efnahagsbandalagsins sýndartilboð og hrein blekking og við getum ekki keypt þetta fyrir einn einasta eyri, ekki fyrir einn einasta fisk.

Hvað er það annað sem er verið að bjóða? Jú, það er látið að því liggja að Efnahagsbandalagið ráði fiskveiðilandhelginni við Grænland, og er það þó mjög vafasamt samkv. þeim upplýsingum sem fyrir liggja, að hve miklu leyti Efnahagsbandalagið, a.m.k. eins og nú standa sakir, fer þar með nokkurt umboð. Skipta þar ekki miklu máli fullyrðingar þess sendimanns sem kom hingað, því að það liggja þar aðrar yfirlýsingar á móti. En gerum samt ráð fyrir því að Efnahagsbandalagið geti verslað með fiskimiðin við Grænland. Eins og hefur verið bent á áður í umr. á Alþ., þá vitum við það mætavel að fiskimiðin við Grænland eru í slíku ástandi nú, að við viljum ekkert fyrir þau gefa eins og þau eru í dag — ekkert. Það væri því alger fjarstæða af okkur að fara að kaupa aðgang að þeim miðum, eins og nú standa sakir, með því að hleypa einhverjum skipum inn á okkar mið, fyrir utan það, að það er auðvitað fyrir neðan allt velsæmi að gera kaupskap við Efnahagsbandalag Evrópu, ýmsar auðugustu þjóðir í heiminum sem þar eru, veita þeim tiltekin fríðindi í okkar landhelgi á kostnað grænlendinga. — Við ættum að standa að slíkum samningum að við gætum hirt eitthvað af því sem eftir kann að finnast á Grænlandsmiðum, tekið það frá grænlendingum sem þurfa virkilega á slíku að halda, til þess að við gætum fært hinum efnuðu þjóðum Efnahagsbandalagsins eitthvað af okkar fiski. Slíkt er auðvitað þannig að ég trúi ekki að það verði margir menn hér á hv. Alþ. sem styðji slíka stefnu þegar til á að taka. Það væri vitanlega með öllu ósæmilegt af okkur, og það yrði þá heldur lítið úr þeim aths. sem við höfum gert í sambandi við meðferðina á okkur áður fyrr, þegar nokkuð svipað stóð á fyrir okkur þegar við vorum í sambandinu við dani.

Nei, það er alveg augljóst mál að það, sem hér er á ferðinni, er það — og kemur okkur auðvitað ekkert á óvart — að fulltrúi Efnahagsbandalags Evrópu er hér á ferðinni og knýr á með það að komast með veiðiskip frá bandalagsþjóðum sínum inn á okkar fiskimið. Það er ástæðan fyrir ferð hans hingað. Það er ástæðan fyrir þeim umr. sem fram hafa farið. Þetta á vitanlega að viðurkenna og láta alla íslensku þjóðina fá að fylgjast með. Alþ. á að ræða málið á þessum grundvelli, og hæstv, ríkisstj. á að skýra hér frá því hvað það er, sem þessir menn reyna að bjóða hér fram. Þó að þeir hafi ekki lagt fram formlegar till. um hve mörg tonn við megum veiða við Grænland og um hve mörg tonn við megum veiða í Norðursjó, þá eru tilboð þeirra um þetta. Og þó að ekki sé búið enn þá af hálfu íslendinga, a.m.k. ekki opinberlega, að tilnefna hvað eigi að veita Efnahagsbandalagsþjóðunum mikil réttindi í tonnum mælt til veiða hér við land, þó að þetta sé ekki búið, þá er búið að ræða um sjálft efni málsins, það vitum við.

Ég vil nú í framhaldi af því, sem ég hef sagt, óska eftir að hæstv. forsrh. gefi við þessar umr. hér yfirlýsingu um það, ég fer fram á að hann gefi hér yfirlýsingu um það, því að málið er komið það langt áleiðis að það er full ástæða til þess að óska eftir skýrri afstöðu hans í málinu, — hann gefi hér yfirlýsingu um það, að það verði ekki gerðir neinir samningar um veiðiheimildir handa útlendingum í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Við eigum kröfu á því að hæstv. ríkisstj. segi til um það nú á þessari stundu. Telur hún að þetta sé hægt, eða er hún á móti þessu? Það nær auðvitað engri átt að standa þannig að málinu, að um miðjan des. verði samningaviðræðum haldið áfram, gengið verði frá samningum rétt fyrir jól, þm. síðan sendir heim í mánaðar jólafrí og svo komi menn saman, eins og stundum áður, og standi frammi fyrir gerðum hlut: ráðh. eru búnir að samþykkja þetta, þeir eru búnir að skuldbinda sig. Hvað á maður að gera? segja stuðningsmenn stjórnarinnar. Er nú hægt að láta stjórnina falla á þessu? Ætli maður verði ekki að kyngja þess?

Svona er vitanlega ekki hægt að standa að málum og allra síst máli eins og þessu. Því vænti ég þess, að hæstv. forsrh. treysti sér til að koma hér upp í ræðustólinn og lýsa því beinlínis yfir sem afstöðu ríkisstj. að veiðiheimildasamningar við útlendinga komi ekki til greina.

Í öðru lagi vil ég óska eftir því, að hæstv. forsrh. gefi hér einnig yfirlýsingu um það, að í framhaldi af þessum margumtöluðu könnunarviðræðum, sem átt hafa sér stað, verði málíð nú lagt hér fyrir Alþ., umr. teknar upp um málið á eðlilegan hátt og stefna í þessu máli mörkuð hér á Alþ. Ég er sannfærður um að þjóðin öll mundi verða miklu rólegri en hún er í dag í sambandi við þetta mál ef það lægi fyrir að forsrh. hefði lýst því yfir, að í framhaldi af þeim viðræðum, sem nú hafa átt sér stað við erlenda aðila um þessi mál, verði málið tekið fyrir á Alþ. og stefnan í málinu verði mörkuð á Alþ., en það verði ekki gengið fram hjá Alþ. og hendur manna bundnar á þann hátt með einhvers konar samningagerð.

Ég vil einnig fara fram á það við hæstv. forsrh., að hann geti nú þegar lýst yfir það mikilli stefnumörkun í málinu, að hann fáist til þess að lýsa því hér yfir, að það verði ekki gerðir neinir samningar við útlendinga varðandi fiskveiðimál íslendinga sem bindi hendur Alþingis á nokkurn hátt varðandi fiskfriðunarmál og stjórn fiskveiða eða annað þess háttar, — verði umr. haldið áfram, þá sé það alveg ljóst að það geti ekki komið til greina að gera neina slíka samninga sem geti haft nokkur minnstu áhrif á það að binda hendur Alþ. sem hefur réttinn til þess að setja lög og reglur varðandi bæði fiskverndarmál og stjórn á fiskveiðum.

Þá hefði mér einnig þótt mjög vænt um ef hæstv. forsrh, hefði treyst sér til þess að gefa hér yfirlýsingu um það, að það væri hans stefna að við íslendingar gætum ekki, þótt okkur væri boðið, þá gætum við ekki þegið það með neinum hætti að taka við fiskveiðiheimildum okkur til handa á Grænlandsmiðum án þess að beint samþykki grænlendinga liggi þar fyrir. Það er mín skoðun, að komi til þess fyrr eða síðar að við íslendingar teljum rétt og nauðsynlegt að semja um einhver gagnkvæm réttindi við færeyinga og grænlendinga, þá eigi að taka stefnumarkandi ákvörðun um það og semja við slíka aðila beint og án allrar milligöngu Efnahagsbandalagsins, dana eða annarra slíkra. Vill nú ekki hæstv. forsrh. líka lýsa því yfir, að það sé hans skoðun eins og mín, að við getum ekki verið þekktir fyrir það að gera neina samninga eða þiggja neitt af hálfu Efnahagsbandalagsins, sem er á kostnað grænlendinga, í þessum efnum?

Ég vil vænta þess að hæstv. ríkisstj. hætti þeim leiðu vinnubrögðum sem hún hefur haft í þessu máli, að pukrast með málið, segja ýmist mjög viljandi til um það, hvað hefur verið að gerast, eða halda alveg frá mönnum öllum upplýsingum sem skipta aðalmáli, en það tel ég mig geta sannað að ríkisstj, hefur gert í þessu tilfelli. Hún hefur ekki sagt frá því sem hér skiptir máli. Hún hefur látið það liggja í þagnargildi, við höfum ekki fengið upplýsingar um það. Enda ætla ég að það gefi nokkurn veginn auga leið, að erlendir samningamenn, sem hingað koma og eyða mörgum dögum til viðræðna við íslenska embættismenn og hæstv. ríkisstj., þeir láta ekki frá sér fara, rétt eftir að þeir koma frá viðræðunum, slíkt sem sendimaður Efnahagsbandalagsins hefur gert í þessu tilfeili, að hann t.d. telji það nokkurn veginn víst að samkomulag muni takast, nema á einhverju verulegu sé að byggja, enda ætti þá ríkisstj. að leiðrétta slíkar yfirlýsingar tafarlaust og bera þær til baka ef þær eru með öllu ósannar.

Eins og ég sagði áður, þá er hér um svo stórt og mikið mál að ræða að það er ómögulegt að þola að það verði gengið fram hjá Alþ. í málinu eða að því staðið þannig að raunverulega sé fyrst gengið frá öllum hnútum í samningum án þess að ræða málið á Alþ. og síðan verði Alþ. stillt upp frammi fyrir gerðum hlut. Fáist ekki skýrari yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. um stefnuna í þessu máli og um stefnumörkun í málinu né heldur um það að málið verði hér tekið fyrir til umr. á eðlilegan hátt, opið fyrir allri þjóðinni, þá verða gerðar hér ráðstafanir til þess að flytja till. um málið og heimta útvarpsumr. um þá till. og getur þá ríkisstj. ekki skotið sér undan því að málið verði tekið hér fyrir. Ég sé satt að segja ekki hvaða ástæður geta legið til þess að ríkisstj. reyni að halda fast við þá óvenjulegu vinnubragðaleið sem hér hefur verið valin.

Ég vil svo vænta þess, að hæstv. forsrh. verði við óskum mínum, sem ég hef sett hér fram, að gefa bæði Alþ. nánari skýrslu um það, sem fram hefur komið í málinu á þessum viðræðufundum, og yfirlýsingar í þá átt sem ég hef óskað eftir, til þess að taka af allan vafa um það, hver sé afstaða hans og stefna ríkisstj. varðandi þýðingarmestu atriði málsins.