18.10.1976
Neðri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hv. síðasti ræðumaður sagði að það væri ekki hægt að afsaka þann seinagang sem er ráðandi hjá stjskrn. Ég get alveg fallist á að það væri eðlilegt að fundir í stjskrn. væru oftar en verið hefur. En þeir eru þó orðnir nokkuð margir, fundirnir sem n. hefur haldið.

Ekki er það rétt, sem einn ræðumaður fullyrti hér áðan, að stjskrn. ætlaði að leggja kjördæmamálið til hliðar. Það var fundur á föstudaginn í stjskrn., og þá var rætt um kjördæmaskipunina. Og einnig verður rætt um kjördæmaskipunina á næsta fundi, það var ákveðið s.l. föstudag. En stjskrn, gerir sér ljóst að það er ekki vandalaust að vinna að þessum málum. Og þess ættu hv. alþm. að minnast, að þetta er ekki eina stjskrn, sem skipuð hefur verið og starfað hefur síðan lýðveldið var stofnað. Það hafa fleiri stjskrn. starfað, og þeim hefur reynst erfitt að skila heildaráliti. Ég ætla ekki að fara nánar út í það. Ég veit að hv. alþm. minnast þess og vita að það hafa áður starfað stjskrn. sem ekki hafa skilað áliti. Ég held að það sé ekki rétt að dæma þessar n. hart fyrir það, vegna þess að það er vandasamt verk að endurskoða stjórnarskrána og ná samkomulagi um málið. Eftir því sem menn lesa stjórnarskrána betur, því ljósara verður mönnum að stjórnarskrá sú, sem við búum við, er býsna góð. Stjórnarskráin er í aðalatriðum frá 1874. Eigi að síður er sjálfsagt að endurskoða stjórnarskrána og færa hana til samræmis við þá tíma sem við lifum á. En hvort það er gert árinu fyrr eða seinna er ekkert aðalatriði. Það er aðalatriðið að endurskoðunin takist vel þegar hún fer fram.

Kjördæmamálið hefur alltaf verið tilfinningamál, og hvernig menn ætla að leysa það án þess að það verði samningamál á milli stjórnmálaflokka fæ ég ekki skilið. Ég held að það hljóti alltaf að verða samkomulagsmál. Síðast var kjördæmaskipuninni breytt 1959, eins og allir vita. Það var átakamál þá eins og alltaf áður þegar kjördæmaskipun hefur verið breytt. Auðvitað geta menn fundið að þeirri kjördæmaskipun sem við nú búum við. En það verður þó að viðurkenna að sú kjördæmaskipun hefur tryggt að mestu að Alþ. sýni rétta mynd af þjóðarviljanum. Fjöldi þm. í stjórnmálaflokkunum hefur verið nokkurn veginn í samræmi við fylgi flokkanna í landinu. Hitt er svo rétt, að það er ekki alveg samræmi á milli hinna einstöku kjördæma. Það er eðlilegt að það verði og breytt eftir því sem samkomulag næst um á Alþ. Ég held að rétt sé að gera sér grein fyrir því, að eftirleiðis eins og áður verður að hafa um það samkomulag og fá meiri hl. fyrir því á Alþ. sem gera skal í kjördæmamálinu. Hér er til umr. frv. um deildaskiptingu Alþingis og að gera Alþ. að einni málstofu. En umr. hafa snúist að verulegu leyti um kjördæmaskipunina, sem ætti fremur við í sambandi við næsta mál sem er á dagskrá.

Hv. frsm. tók það fram, að frv. væri ekki flutt vegna þess að hann vildi vantreysta stjskrn. í störfum. Enn er ekki ástæða til að vera viðkvæmur fyrir því, þótt einhverjar aðfinnslur væru gerðar við störf stjskrn. sem eru mjög umfangsmikil.

Það hefur verið rætt um það í stjskrn., hvort til bóta væri að hafa þingið í einni málstofu. Það er rétt, sem hv. þm. Reykn., Jón Skaftason, sagði hér áðan, að Svíar hafa breytt sínu þingi í eina málstofu„ og stjskrn. hefur fengið umsögn sænskra stjórnmálamanna um þá reynslu sem Svíar hafa fengið. Og reynsla þeirra virðist vera góð og fleiri þjóðþinga, svo sem Dana, sem hafa þingið í einni málstofu. En það hefur samt sem áður, að ég hef talið, sina kosti að hafa málstofurnar tvær. En það mun þó ráða afstöðu manna þegar til atkvgr. kemur, hver reynslan er hjá þeim þjóðum sem hafa eina málstofu í stað tveggja.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég kom ekki upp hér til þess að afsaka gerðir stjskrn. Ég held að ekki sé þörf á því, m.a. vegna þess að það er mjög vafasamt að það sé rétt að ásaka hana fyrir seinlæti enn sem komið er. Rétt er að taka það fram, að n. hefur ráðið sér starfsmann til þess að afla gagna og upplýsinga um þessi mál öll. N. hefur þegar fengið upplýsingar frá mörgum lýðræðislöndum um stjórnskipan þeirra og kjördæmaskipun. N. er að kynna sér öll þessi mál og tekur starfið alvarlega og er ákveðin í því að skila áliti. En hvenær það verður, það er ekki hægt að fullyrða um. Nm. eru sammála um að vanda verkið, og það skiptir miklu meira máli að afgreiða málið í góðu formi heldur en að flýta því um of.