30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Herra forseti. Í deilunum við okkur íslendinga um áframhaldandi fiskveiðiréttindi hér á miðum okkar hafa talsmenn bresku útgerðarinnar, bresku togaraeigendanna og breskra stjórnvalda jafnan hrópað hvað hæst um það, að við værum að níðast á breskum sjómönnum, breskum verkalýð, aðgerðir okkar bitnuðu harðast á þessu fólki, við værum að leiða atvinnuleysi og hörmungar yfir þúsundir þessa fólks. Og íslensk stjórnvöld hafa hvað eftir annað samið um áframhaldandi fiskveiðiréttindi til handa bretum; m.a. og ekki hvað síst með tilliti til þessa vanda, það skyldi ekki á okkur sannast að við værum að níðast á breskum verkalýð.

En sannleikurinn er sá, að í hvert sinn sem við höfum samið við breta, hvert sinn sem íslensk stjórnvöld hafa samið við breta um áframhaldandi veiðar, hafa þau verið að gera breskum verkalýð, breskri sjómannastétt og öðru því fólki, sem í fiski vinnur þar ytra, bjarnargreiða. Aftur á móti hefur sérhvert samkomulag um áframhaldandi veiðar hjálpað breska togaraauðvaldinu og breskum stjórnvöldum til þess að víkja sér undan vanda, mjög aðkallandi vanda, sem þessum aðilum hefur borið skylda til að leysa.

Á sjónvarpsfundi, sem ég tók þátt í núna fyrir nokkrum dögum úti í London, gerðu fulltrúar þessa verkalýðs, 60 manns frá Grimsby og Hull, hríð að Austen Laing framkvæmdastjóra Breska togaraeigendasambandsins og þm. James Johnson frá Hull. Þessir fulltrúar bresks verkalýðs héldu því fram að umræddir aðilar, breska togaraútgerðin og bresk stjórnvöld, hefðu notað okkur íslendinga sem blóraböggul. Með því moldviðri, sem þeir hefðu þyrlað upp út af landhelgisstefnu okkar íslendinga, hefði þeim tekist að dylja þá staðreynd að þeir hefðu sjálfir brugðist þessu fólki. „Þið hafið sjálfir brugðist okkur,“ sögðu þessir fulltrúar verkalýðsins í Grimsby og Hull. „Og það er kominn tími til,“ sögðu þeir, „það er kominn tími til að horfast í augu við staðreyndir og gera eitthvað raunhæft til þess að leysa þann vanda, sem að okkur steðjar.“

Auðvitað voru þarna líka nokkrir, því er ekki að neita, þarna voru líka nokkrir sem gerðu harða hríð að eina íslendingnum sem staddur var á þessum fundi. En það var aðeins framan af fundinum. Síðan var íslendingurinn ekki krafinn sagna um eitt né neitt. Íslendingurinn kom ekki lengur málinu við. Og þegar leið á fundinn, þá fannst honum eins og hann væri allt í einu kominn inn á heimill þar sem uppi voru grimmar fjölskylduerjur. Það var ekki sjónvarpað nema í hálftíma, en fundurinn stóð miklu lengur. Það var kominn svo mikill hiti í menn.

Hver er niðurstaðan af þessu?

Í fyrsta lagi: Ef íslensk stjórnvöld hefðu ekki æ ofan í æ látið undan kröfum breska togaraauðvaldsins, líka eftir að allar aðstæður mæltu með því að við stöðvuðum fullkomlega veiðar breta hér uppi á Íslandsmiðum, — ef íslensk stjórnvöld hefðu ekki gert þetta æ ofan í æ, boðið breskum togaraeigendum og stjórnvöldum þetta skálkaskjól gagnvart þeim verkalýð sem þarna á hagsmuna að gæta, þá hefðu þessir aðilar ekki aftur og aftur komist upp með það, að slá á frest raunhæfum aðgerðum til að bæta úr vanda þessa fólks. M.ö.o.: vandi þessa verkalýðs væri ekki sá sem hann er í dag ef íslensk stjórnvöld hefðu ekki gert breska togaraauðvaldinu og breskum stjórnvöldum æ ofan í æ þann greiða að sjá þeim fyrir blekkingum til þess að veifa framan í þennan verkalýð. Með harðari og ákveðnari stefnu gagnvart breska togaraauðvaldinu og breskum stjórnvöldum, þ.e. með því að stöðva, þegar öll tækifæri leyfðu það, að fullu veiðar breskra togara hér á Íslandsmiðum, þá hefðu íslensk stjórnvöld getað verið búin að veita þeim breskum verkalýð, sem þarna á hlut að máli, ómetanlegan stuðning í baráttu hans fyrir þeirri skipan fiskveiðimála sem gæti tryggt honum til frambúðar það öryggi, efnahagslegt og atvinnulegt, sem hann gerir kröfur til.

Í öðru lagi er þetta ljóst núna: Bretum er það orðið fyllilega ljóst að þeir geta ekki haldið áfram veiðum sínum á Íslandsmiðum. Ef íslensk stjórnvöld gera samkomulag um eitthvert áframhald þessara veiða, þá verður það gert þrátt fyrir það að bretar hafa endanlega og fullkomlega viðurkennt ósigur sinn. En — ég segi: en — svo lengi gæti forsrh. okkar íslendinga velt frá sér óljósu orðalagi, svo lengi gæti hann veigrað sér við, komist hjá því að gefa skýrar yfirlýsingar eins og hann var krafinn um hér áðan, að vonir breta færu að glæðast á ný.

Á umræddum sjónvarpsfundi kom ótvírætt í ljós þessi afstaða fólksins. Stjórnandi fundarins spurði um álit þess á því, hvaða horfur væru á því að bretar fengju að veiða hér áfram eftir að núverandi samkomulag rennur út á morgun, annað kvöld, og allir sögðu: Það er vonlaust. — Þetta sögðu allir þessir óbreyttu fundarmenn sem þarna voru, fulltrúar alþýðu í Grimsby og Hull. Hins vegar virtist James Johnson gera sér einhverjar vonir enn þá og hann Austen Laing, framkvæmdastjóri Breska togaraeigendafélagsins. En báðir sögðu þeir þó, og þar voru þeir að verða við kröfu fundarmanna, að mestu skipti að koma nú nýrri skipan á bresku útgerðina, ná auðvitað fyrst og fremst fram kröfunni um einkarétt innan 50 mílnanna og snúa sér að því að veiða þá fiskstofna sem enn hafa ekki verið nýttir nema að litlu leyti. Og í þessu sambandi kom það fram hjá fulltrúa fisksöluhringsins Findus, sem þarna var staddur, að kolmuninn gæti að líkindum komið að miklu leyti í staðinn fyrir þorsk á breskum markaði. Ástandið gæti lagast stórlega og fljótlega ef menn tækju rækilega til hendinni. Og hann kvaðst geta huggað áheyrendur sína með því að sennilega mætti nota kolmunnann engu síður en þorskinn í þann þjóðarrétt breta sem sumir þar ytra virðast telja nauðsynlegan til þess að jafnvægi haldist í breskri þjóðarsál, þ.e.a.s. „fish and chips“.

Og núna áðan frétti ég það í símtali frá Bretlandi, að á morgun kl. 3 hefst á Park Lane Hotel í London ráðstefna um fiskveiðimál. Aðstandendur þessarar ráðstefnu eru samtök útgerðarmanna og sjómanna og allra þeirra annarra aðila sem hér eiga hagsmuna að gæta. Og helsti hvatamaðurinn mun vera sá margfrægi Austen Laing og einhverjir hans nánir félagar. Þeir hafa sem sé loksins komist að þeirri niðurstöðu að nú verði því ekki lengur á frest skotið að gera eitthvað raunhæft í þessum málum. Að sjálfsögðu verður meginefni þessarar ráðstefnu sú krafa breta að fá einkarétt til fiskveiða innan 50 mílnanna og svo önnur átök þeirra við Efnahagsbandalagið út af fiskveiðimálum. Þó er ég ekki í neinum vafa um það, að Austen Laing og hans kumpánar munu reyna að fá samþykktar harðorðar ályktanir varðandi kröfur um áframhaldandi fiskveiðar hér uppi við Ísland. Sumir eru býsna seigir við að berja hausnum við steininn. Og þeim mun frekar mundu þeir hafa uppi slíka tilburði ef þeir teldu sig geta lagt þann skilning í fréttir um viðbrögð íslenskra stjórnvalda að hér væri einhver vilji til þess að láta nú enn þá einu sinni undan og leyfa einhverjum breskum kláfum að skarka hér áfram. Og því miður, eftir þær yfirlýsingar sem hér voru gefnar áðan — eða skort á yfirlýsingum skulum við segja, þá sýnist mér að Austen Laing geti farið að hugsa að það væri ómaksins vert að koma enn einu sinni með gömlu kröfuna.

En það mundi verða happadrýgst, það skal ég segja ykkur, það mundi verða happadrýgst fyrir breska sjómenn og þann breska verkalýð, sem hér á hlut að máli, að héðan frá Íslandi bærust þær fregnir að þessu væri lokið, að héðan bærust engar þær fréttir sem gætu ýtt undir breska togaraauðvaldið að hefja nú enn einu sinni gamla sönginn um það, að öll vandamál á þessu sviði væru okkur íslendingum að kenna. Þetta mundi verða öllum fyrir bestu. Og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum gefa ekki íslensk stjórnvöld þá skýlausu yfirlýsingu sem leysir þennan vanda í eitt skipti fyrir öll? Hvers vegna taka ekki íslensk stjórnvöld af skarið, svo að framkvæmdastjóri breska togaraauðvaldsins og hans kumpánar sjái að allar ályktanir af því tagi, sem ég var að nefna, mundu vera vitagagnslausar, allir tilburðir í þá áttina vonlausir? Af hverju er ekki gefin skýlaus yfirlýsing um það, að hvimleið samskipti okkar við breska togaraauðvaldið séu á enda, að aldalangri rányrkju breskra fiskveiðiskipa á Íslandsmiðum verði að fullu og öllu lokið frá morgundeginum, 1. des., fullveldisdegi íslendinga, að telja.