30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði áðan orðrétt: „Við treystum okkur til að halda svo á málum að hagsmunum Íslands sé borgið.“ Þar mun hann hafa mælt fyrir hönd ríkisstj. Ég hygg þá að mér sé óhætt að segja sem svo, og mæli þar fyrir munn flestra stjórnarandstæðinga hér á þinginu: Við treystum ykkur ekki til þess að halda svo á hagsmunum Íslands, og það stafar ekki af minnimáttarkennd, heldur af beiskri reynslu. Í því sambandi vil ég minnast þess hér, að fyrir um það bíl ári tróðum við alþm. upp í þennan ræðustól dögum saman hver um annan þveran til þess að ræða um samninga sem ríkisstj. hafði þá gert uppkast að við vestur-þjóðverja með heimild þeim til handa til þess að veiða 65 þús. tonn á fiskimiðum okkar. Eins og fyrri daginn og eins og við óttumst að nú kunni að verða, voru þær umr. að því leyti sýndarmennska, að ríkisstj Framsóknar og Sjálfstfl. með sinn sterka bingmeirihluta hafði raunar þegar gengið frá þessum samningum endanlega, ákvörðunin tekin af ráðh.. þingflokkarnir látnir samþykkja hana og málið síðan lagt fyrir Alþ. sem orðinn hlutur — enn eitt dæmi um það hvað sterkur þingmeirihl. getur myndast af slöppum karakterum.

Ekkert það, sem fram kom í umr. hér í Sþ. fyrir um það bil ári, megnaði að hagga þeirri ákvörðun ríkisstj. að semja við vestur-þjóðverja um heimild til að veiða 65 þús. tonn af fiski í tvö ár í fiskveiðilögsögu okkar. En það var býsna margt, sem fram kom í þeim umr., sem gerði hv. þm. stjórnarflokkanna erfitt um vik að rétta upp höndina með samningum, því að heita má að hver einasti þm. Framsfl. hafi gerst persónulegur eiðrofi með þeirri handauppréttingu heima í héruðum sínum og vel margir þm. Sjálfstfl. að auki, sem allir höfðu unnið þess dýra eiða að útlendingunum yrði ekki hleypt inn í landhelgina okkar aftur. Hlutverk hæstv. ráðh. við þær umr. var fyrst og fremst að létta þm. sínum verknaðinn, að drepa gómi undir olnbogann á þeim til þess að hjálpa þeim við handauppréttinguna, og það var gert náttúrlega með nýjum svardrögum hér á þinginu.

Og svo að við rifjum aðeins upp helstu rökin sem fram voru færð af hálfu ráðh. og annars forustuliðs stjórnarinnar við þessar umr., þú voru þau einna helst þessi: Samið skyldi við vestur-þjóðverja gagngert til þess að við gætum einbeitt okkur að því að verjast yfirgangi breta, en við þá yrði ekki samið. Með því að semja við vestur-þjóðverja um 65 þús. tonna afla, þar af 5 þús. tonn af þorski, yrði unnt að skerða svo veiðar bretanna með einbeitingu landhelgisgæslunnar að útlendingar næðu hér minna fiskmagni en ella. Ef samningurinn við vestur-þjóðverja leiddi ekki til þess að bókun nr. 6 varðandi tolla af íslenskum sjávarafurðum á Efnahagsbandalagssvæðin yrði felld úr gildi fyrir apríllok, yrði vestur-þýski samningurinn tafarlaust felldur úr gildi. — Ég tel alveg bráðnauðsynlegt að rifja upp þessar umr., ummæli ráðh. þá og efndir.

Síðan, að þessum rökum fram færðum og loforðum gefnum, gengu þeir ráðh. maður undir manns hönd að því að andmæla því með stórum orðum að eftirfarandi samningur við breta væri forsenda fyrir því að þetta samkomulag væri gert við vestur-þjóðverjana, eins og haldið var fram af hálfu okkar stjórnarandstæðinga, að samningur við breta væri beinlínis forsenda fyrir því að þessi samningur yrði gerður við vesturþjóðverjana, því að ella yrði bókun 6 ekki felld úr gildi. Hæstv. utanrrh. sem þetta mál mæddi öðrum fremur á, eins og að sjálfsögðu flest þau mál sem varða samskipti okkar við erlendar þjóðir, slík sem líka meðferð þeirra er af hálfu þessarar ríkisstj., hann staðhæfði þá í svari við beinni spurningu frá hv. 2. þm. Vestf., að víst yrði vestur-þýski samningurinn felldur úr gildi við apríllok ef bókun 6 yrði ekki felld niður, eins og ákveðið var í samningnum. Sami ráðh., hæstv. utanrrh., lýsti einnig yfir því ljósum orðum þegar gengið var hart eftir svörum, að ekki kæmi til mála að gerður yrði neins konar samningur við breta án þess að fyrst yrði fjallað um hann hér á Alþingi.

Þessi upprifjun er nauðsynleg nú til þess að skýra þann mun sem er á viðhorfum hæstv. ráðh., sem segjast treysta sér vel til þess að halda svo á málefnum að hagsmunum Íslands sé borgið, og sjónarmiðum okkar, sem treystum þeim ekki til þess. Upprifjunin er nauðsynleg nú, þegar fjallað er um viðræður þessara ráðh., hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh., sem því miður af einhverjum óútskýranlegum ástæðum sér ekki ástæðu til þess að vera viðstaddur þessar umr. í dag, þegar rætt er sem sagt um upphafið á viðræðunum við sendimanninn Finn Olav Gundelach hinn danska frá Efnahagsbandalaginu.

Sennilega þarf ekki langar orðræður til þess að útskýra fyrir ráðh. sjálfum hvernig á því stendur að fólk á dálítið erfitt með að trúa þeim til hlítar í öllu því, er lýtur að meðferð landhelgismálsins. En ef vera mætti að geðró hv. þm. stjórnarflokkanna þyldi slíkt, þá tel ég æskilegt að rifja upp fyrir þeim þær staðreyndir, að þýski samningurinn var ekki ógiltur 30. apríl þótt ákvæðið um niðurfellingu á bókun 6 væri svikið. Þýski samningurinn var látinn gilda áfram þangað til þing hafði verið sent heim. Þá var hlaupið til og samið við breta og Alþ. vitaskuld ekki kvatt saman til þess að fjalla um þann samning, eins og heitið hafði verið. Þeim samningi var fyrir um það bil mánuði hampað hér á hv. Alþ. sem lokasigri í landhelgisbaráttunni með ströngum svardögum um það, að alls ekki hefði verið neitt um það rætt á bak við tjöldin að víst skyldu bretar fá að halda áfram að veiða hér við land. Og einmitt á þessum dögum núna virðist manni vera að koma í ljós sveipaður feldi loðinna orða sannleikurinn í þessu máli. Réttara væri e.t.v. að orða það svo, að einmitt nú sé gerð tilraun til þess hér á hv. Alþ. að þvinga ráðh. til að segja frá viðræðum sem farið hafa fram hér í Reykjavík við þennan danska erindreka Efnahagsbandalagsins, Finn Olav Gundelach, sem sækir nú á um afsal fiskveiðiréttinda á Íslandsmiðum til bandalagsins í umboði breta og vestur-þjóðverja. Því trúir ekki einn einasti maður í þessum hóp, að Gundelach eða stjórn Efnahagsbandalagsins hafi áhuga á fiskfriðunarmálum. Því trúir enginn maður. Það sem stjórn Efnahagsbandalagsins hefur áhuga á og Finn Gundelach fyrir þess hönd er að ná fiski af Íslandsmiðum.

Ég veit ekki hvort átt getur sér stað að sá meiri hluti kjósenda, Sjálfstfl. og Framsfl., sem þessir flokkar munu þurfa á að halda í næstu kosningum til þess að halda meiri hluta í þessu landi, hvort þeir séu þannig búnir að gáfum að ráðh. geti búist við því að þeir trúi öðru eins og því, að Finn Gundelach komi hingað ferð eftir ferð til Íslands — þó ekki vilji ég fallast á að hann sé annar eins pótentáti og hv. síðasti ræðumaður hélt fram - til þess að ræða um fiskfriðun. Maðurinn veit ekki hvað fiskfriðun er.

Hver sem vill má geta sér til um það, hvers vegna hæstv. forsrh. átti ekki frumkvæði að þessum umr. sem hér fara fram í kvöld, hvers vegna hæstv. sjútvrh. heiðrar Alþ. á þessum degi með fjarveru sinni á meðan þetta mál er rætt. Ég geri ráð fyrir, að ekki verði komist hjá því að beina til hans orðum, og ætla þá, að hæstv. forsrh. muni geta svarað fyrir hann, a.m.k. grundvallarspurningum sem lúta að afskiptum hans og skoðunum á þessu máli.

En við skulum aðeins víkja að því, um hvað þessi fundur íslensku ráðh., sem síðastur var haldinn hér í Reykjavík með Gundelach þessum hinum danska, fjallaði.

Það var að sögn hæstv. forsrh. rætt um grundvöll fyrir því að fjallað yrði um gagnkvæm veiðiréttindi. Það var ekki fjallað á fundinum beinlínis um fiskveiðiréttindi Efnahagsbandalagsins á Íslandsmiðum, segir ráðh., en það var fjallað um fiskvernd og skipulagsmál fiskveiða, það var fjallað um fiskvernd, þ.e.a.s. fiskifræðileg málefni. Hverjir ræddu um þau mál á þessum fundi við Gundelach? Það var hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson. Ég hygg að hann sé ekkert verr að sér í fiskifræði en gengur og gerist með alþm. Ég er næstum því viss um það. Sama hygg ég að gildi um hæstv. utanrrh., hann sé alveg eins vel að sér í fiskifræði og hver annar alþm. A.m.k. minnist ég þess ekki að hafa heyrt til hans eða lesið eftir hann neins konar yfirlýsingar opinberlega sem bendi til þess að hann sé neinn sérstakur bjáni á þessu sviði. Þriðji ráðh., hæstv. sjútvrh. Matthías Bjarnason, sem því miður er fjarverandi hér á þessu kvöldi, hefur lýst yfir því opinberlega, að hann taki ekki mark á „svörtu skýrslunni“ svonefndu og enn síður á „biksvörtu skýrslunni“, hann telji vinnubrögð íslenskra fiskifræðinga, sem liggja til grundvallar þeirri skýrslu, óvísindaleg og muni því hafa ráðleggingar þeirra að litlu. Þar með lýsir hann náttúrlega yfir þeirri skoðun sinni prívat og persónulega fyrir sig, að hann hafi með einhverjum hætti öðlast meiri þekkingu á fiskifræði en íslenskir fiskifræðingar samanlagt. Sennilega er þetta skýringin á því, að enginn fiskifræðingur var viðstaddur þessar viðræður íslensku ráðh. við Finn Olav Gundelach, sérlegan erindreka Efnahagsbandalagsins um fiskfræðileg málefni og samstöðu Íslands og Efnahagsbandalagsins. Það finnst tæpast önnur skýring á þessu, en að þeirra hafi ekki verið þörf.

Nú kann svo að vera, þótt ógjarnan vilji ég trúa því, að þm. stjórnarflokkanna fáist til þess að trúa í blindni á yfirskilvitlega kunnáttu hæstv. sjútvrh. í fiskifræði. En af hálfu stjórnarandstæðinga hlýtur sú krafa að vera eðlileg, að hann eða í þessu tilfeili hæstv. forsrh. fyrir hans hönd geri hér og nú grein fyrir þeim heimildum sem sjútvrh. styðst við þegar hann misvirðir starf íslenskra fiskifræðinga á þennan hátt. Hefur hann fyrir sér álit annarra fiskifræðinga eða annarrar vísindastofnunar en Hafrannsóknastofnunarinnar, á þá lund að ástand fiskstofnanna við Ísland sé annars konar en íslensku fiskifræðingarnir telja? Fyrir liggur úrskurðar Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem setti til þess 12 fiskifræðinga, sem taldir eru vera hinir fremstu vísindamenn í heimi hver á sínu sviði, að kanna frumgögn, úrvinnslu og niðurstöður íslensku fiskifræðinganna, sem þessa skýrslu gerðu. Þeir, þessir 12 erlendu háttvirtu sérfræðingar, komust að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að setja út á eitt einasta atriði í vinnubrögðum íslensku fiskifræðinganna og niðurstaða þeirra varðandi ástand íslensku fiskstofnanna væri rétt. Ef nokkru skeikaði, þá mætti e.t.v. segja, að þar gætti fullmikillar bjartsýni. Varlegra hefði e.t.v. verið að reikna með því að ástandið á íslensku fiskstofunum væri enn hættulegra en fram kemur í skýrslu íslensku fiskifræðinganna.

Nú vill svo vel til að forstjóri Alþjóðahafrannsóknaráðsins Hans van Lücke er einmitt staddur í Reykjavík í dag. Hann er hingað kominn til þess að undirbúa ráðstefnu á vegum Alþjóðahafrannsóknaráðsins á næsta hausti þar sem saman munu vera komnir helstu þorskfiskafræðingar heimsins. Það væri ákaflega æskilegt ef hæstv. forsrh. vildi nú gauka því að hæstv. sjútvrh., að sjálfsagt væri að Lücke fengi til afnota þau vísindalegu gögn sem sjútvrh. hefur upp á það að skýrsla íslensku fiskifræðinganna, sem fremstu sérfræðingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins hafa farið yfir og staðfest, upp á það að þessi skýrsla sé röng. Við eigum rétt á því að hæstv. forsrh. svari því afdráttarlaust hér, hvort hann og Matthías Bjarnason hafi fengið umsögn einhverra enn þá æðri og trúverðugri sérfræðinga og einhverrar enn þá betri sérfræðistofnunar en Alþjóðahafrannsóknaráðsins um þetta mál, — eða er hér aðeins um einhvers konar grun að ræða eða draumráðningu sem e.t.v. mætti þá færa undir dóm af öðrum heimi?

Ráðh., sem hér voru nafngreindir að framan, hafa sagt frá því í blöðum að þeir hafi m.a. rætt við Finn þennan Gundelach um ástand íslensku fiskstofnanna. Og nú spyr ég ráðh.: Hvort var þá heldur lögð til grundvallar í þeim umr. skýrsla íslensku fiskifræðinganna um ástand íslensku fiskstofnanna eða persónulegt álit hæstv. sjútvrh., sem er þeirrar skoðunar að ekki sé að marka skýrslu íslensku fiskifræðinganna? Hvaða upplýsingar voru lagðar til grundvallar í viðræðunum við Gundelach: skýrsla íslensku fiskifræðinganna, sem hæstv. sjútvrh. hefur lýst yfir að hann trúi ekki, hann treysti ekki og vilji ekki taka mark á, eða prívat og persónulegar upplýsingar sjútvrh. og þá væntanlega forsrh.? Enn fremur er nauðsynlegt fyrir þm. stjórnarandstöðunnar að fá að vita hvaða upplýsingar Gundelach hafði fram að færa um ástand fiskstofnanna, frá hvaða aðilum þær voru komnar og þá e.t.v. hvort hann, Gundelach, grundi afstöðu sína á líkan hátt og sjútvrh. Íslands.

Um þessi atriði höfum við fengið það eitt að vita sem Finn Olav Gundelaeh, erindreki Efnahagsbandalagsins, segir ytra, að hann telji að lokum viðræðunum við ísl. ráðh. að mjög góðar horfur séu á því og það sé nánast vist að bretar fái leyfi til að halda áfram fiskveiðum á Ís. landsmiðum. Af þessum ummælum hans hljótum við að draga þær ályktanir, að hæstv. sjútvrh. eða forsrh. hafi veitt honum allt annars konar upplýsingar um ástand fiskstofnanna okkar en þær sem fiskifræðingarnir láta uppi. Það er greinilegt að Gundelach hefur fengið þær upplýsingar, að við séum aflögufærir um fisk af miðunum okkar, ellegar þá að öðrum kosti að honum hafi tekist að sannfæra ráðh. okkar um að við séum aflögufærir. Af þessum sökum hljótum við að óska afdráttarlausra upplýsinga af hálfu hæstv. forsrh. fyrir hönd sjútvrh. um það, hvaða vísindalegar upplýsingar sjútvrh. styðst við þegar hann ályktar að upplýsingar fiskifræðinganna okkar séu rangar. Enn fremur hljótum við að krefjast heimilda fyrir því eða upplýsinga um það, á hvaða ummælum íslensku ráðh. þessi sami Gundelach byggir þá skoðun sína að við munum veita bretum fiskveiðiheimildir innan 200 mílnanna. Komi það hins vegar í ljós að herra Gundelaeh hafi bara farið með fleipur í þessu máli, þá ætla ég að það væri rétt við hæfi að þess væri beiðst af honum að hann kæmi ekki aftur til Íslands fyrst um sinn. En nú hefur verið

boðað sem sagt til annars fundar í Reykjavík með Finn Olav Gundelach og kumpánum hans. Sá fundur á að verða eftir hálfan mánuð og samkv. upplýsingum ráðh. verður fjallað þar um gagnkvæm fiskveiðiréttindi Íslands og Efnahagsbandalagsins með meiru.

Hér hefur að öðru leyti af hálfu hæstv. forsrh. verið það haft uppi að samningaviðræðurnar, sem þegar hafa farið fram, séu lítils háttar og þær samningaviðræður, sem fram undan eru, séu raunar einnig aðeins til þess líklegar að styrkja stöðu okkar, raunar, að mér skildist, kannske umfram allt til þess að fræða Efnahagsbandalag Evrópu um nauðsyn fiskverndar og hafa göfgandi áhrif á það ágæta bandalag í þeim málum. Við skulum þá hugleiða lítils háttar þá samninga sem þessi ríkisstj. hefur áður gert um fiskafla okkar, á því ári sem líðið er síðan við stóðum í þessum sporum hér á hv. Alþ. og ræddum þýska samninginn, á 12 mánaða tímabili, — alla þessa samninga sem gerðir voru til þess að styrkja stöðu okkar í landhelgismálinu og styrkja aðstöðu þessarar þjóðar í lífsbaráttunni yfirleitt.

Á þessu ári hafa útlendingar tekið samkv. samningi samtals 160–170 þús. lestir af fiski af miðunum okkar. Þetta svarar til 2000 tonna afla á hvern einasta skuttogara í landinu eða afla sem við getum metið á 100–110 millj. kr. á hvert skip. Afleiðingin er að öðru leyti líka sú, að við hljótum, þ.e.a.s. þeir okkar sem trúa meira á visku fiskifræðinganna okkar en vísindamennsku sjútvrh., við hljótum að miða við það að ekki megi veiða, eins og fiskifræðingarnir segja, meira en 275 þús. lestir af þorski hér við land næstu tvö árin vegna þessarar úrtöku umfram allra brýnustu nauðsynjar okkar. Ef við leyfum okkur að reikna með því að þessum 160–170 þús. lestum af fiski, sem ríkisstj. afhenti útlendingum, hefði verið ráðstafað með öðrum hnetti en þeim sem fellur að persónulegri skoðun, hugboði eða draumum sjútvrh., þá má telja sennilegt að við hefðum skilið helminginn af þessum fiski eftir í sjónum til viðhalds stofninum, en hinn helmingurinn hefði orðið okkur mikil stoð. Við hefðum samt fengið þarna afla sem samsvarað hefði 1000 tonnum á skip eða 55 millj. kr. á hvern skuttogara hjá okkur. Og einmitt þar, í þessum 80–85 þús. tonnum sem við hefðum tekið af þessum 160–170 þús. tonnum, þar liggur mismunurinn á milli taps og gróða á togaraflotanum okkar, góðrar og slæmrar afkomu áhafna, ágóða fyrir fiskiðjuverin okkar, mannsæmandi kaups handa starfsfólkinu í frystihúsunum og hagstæðrar gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar. Andvirði þessara 80–85 þús. tonna í erlendum gjaldeyri hefði orðið um 7 miljarðar kr., þannig að við hefðum haft 2 milljarða í hagstæðum greiðslujöfnuði í stað 5 milljarða í óhagstæðum greiðslujöfnuði ef þessi samningur hefði ekki verið gerður. Og nú ætla sem sagt þessir sömu vísu menn að setjast niður með Finn Gundelach eftir hálfan mánuð og semja við hann um gagnkvæm fiskveiðiréttindi Íslands og Efnahagsbandalagsins eftir að hafa frætt hann þannig um ástand íslensku fiskstofnanna að hann telur mjög sennilegt að við munum heimila bretum að halda áfram fiskveiðum við Ísland. Og það er að því komið að hugleiða lítils háttar hvað það er sem Efnahagsbandalagið getur boðið í skiptum fyrir þann fisk sem hæstv. sjútvrh. virðist telja að við séum aflögufærir af Íslandsmiðum og hæstv. forsrh. vill berlega alls ekki fortaka að við séum færir um.

Það hefur verið vikið áður hér að voninni í síldveiðum í Norðursjó. Ég man ekki betur en skrifstofustjóri sjútvrn., Þórður Ásgeirsson, sé nýlega kominn heim til Reykjavíkur af fundi Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar, sem áður var getið, þar sem hann lagði fram tillögu Íslands um algera friðun Norðursjávarsíldarinnar til þess að forða henni frá útrýmingu að áliti fiskifræðinga á næstu tveimur árum. Það varð ekki af umfjöllun um þá till., því að Norðaustur-Atlantshafsnefndin leystist upp vegna þess að Efnahagsbandalagið hefur lýst yfir því að það muni sjálft annast alla meðferð fiskverndunarmála á yfirráðasvæði þess á Norðursjónum. Þar var því engin friðun ákveðin, og má því segja að e.t.v. sé full þörf á því að íslenska ríkisstj. reyni að hafa dálítil áhrif á Efnahagsbandalagið á þessu sviði. Það getur vel verið að ekki hafi verið ákvörðuð friðun á Norðursjávarsíldinni beinlínis vegna þess að stjórn Efnahagsbandalagsins kunni þarna ekki til verka. En ætlar íslenska ríkisstj. — það er spurningin — ætlar íslenska ríkisstj. nú að bjóða fisk af okkar miðum í skiptum fyrir síld sem hún hefur sjálf lagt til að bannað verði að veiða til þess að koma í veg fyrir að stofninum verði útrýmt`? Er það hugsanlegt að íslenska ríkisstj. ætli sér að skipta á tugum togarafarma af þorski af Íslandsmiðum fyrir síld sem henni er sjálfri kunnugt um að er ekki lengur eða er að hverfa á næstu missirum úr Norðursjónum? Ég tel það nokkurn galla á ræðu hæstv. forsrh. úr þessum ræðustól áðan, að hann skyldi ekki segja okkur frá einhverju því sem ríkisstj. hlýtur að vita um að eftir sé að slægjast innan 200 mílna lögsögu Efnahagsbandalagsins fyrirhugaðrar fyrir austan landið, sem hugsanlega gæti komið í staðinn fyrir þau réttindi sem Finn Gundelach og kumpánar sækjast eftir við Ísland.

Hvað Grænlandsmiðin áhrærir, þá get ég ekki stillt mig um að spyrja hæstv. forsrh. að því, af því að hann er allt öðru kunnur en að vera fantur, — að allt annars konar hugarfari og framkomu kunnur, — hvort honum finnist ekkert athugavert siðferðilega við þá hugsun að við mundum ekki taka frá grænlendingum þann fisk sem Efnahagsbandalagið mundi leyfa okkur að veiða undan Grænlandsströnd, vegna þess að ef við hirtum hann ekki, þá mundu einhverjir aðrir gera það, þá yrði einhverjum öðrum leyft að gera það. Er þetta ekki eitthvað í áttina við það að hirða lauslega geymdan hlut frá öðrum, vegna þess að sennilega mundi einhver annar gera það, sem kæmi á eftir ef maður gerði það ekki? Mér er fullljóst að þess háttar maður er hæstv. forsrh. ekki. En hann má ekki heldur ætla þjóð sinni, að hún gíni við slíkri afsökun.

Það eitt væri vissulega efni í sérstakar umr. ef við íslendingar, minnugir, eins og hv. þm. Benedikt Gröndal vakti athygli á, dönsku samninganna við breta 1901 og afleiðinga þeirra fyrir okkur, — ef við ætlum nú að gerast samsekir um álíka framkomu af hálfu Efnahagsbandalagsins með dani í handarkrikanum við grænlendinga. Hitt er svo annað mál, eftir hverju væri að slægjast í skiptum á Grænlandsmiðum og Íslandsmiðum. Ég man ekki betur en ég læsi í málgagni sjálfs forsrh. í sept. nú í haust viðtal við Sigfús Schopka fiskifræðing sem þá var nýkominn heim úr rannsóknarleiðangri til Vestur-Grænlands. Fiskifræðingurinn sagði í þessu viðtali frá þeirri niðurstöðu leiðangursins, að enginn þorskur fyndist við Austur-Grænland í uppvexti. Ég læt það ekki einu sinni að mér hvarfla að ríkisstj. ætli að bjóða bretum og vesturþjóðverjum að veiða engan þorsk við Ísland í skiptum fyrir rétt okkar til þess að veiða engan þorsk við Austur-Grænland. Kannske á að ræða um fiskverndun við Austur-Grænland. En jafnvel þó svo til tækist að það yrði sæmilegt rek af íslenskum þorskseiðum yfir þennan kalda sjó undir Austur-Grænlandi, eins og mér er sagt að fiskuppvöxtur þar fari fram, þá tæki það samt ein 7 ár að koma þarna upp veiðanlegu magni af fiski. Og gjarnan vildi ég að ekki yrði notuð þessi gamla biblíuaðferð Jakobs og Rutar í samningunum við Efnahagsbandalagið núna, við létum það bíða, þangað til þessi 7 ár væru liðin og eftir einhverju að slægjast, að fara að ágirnast þann þorsk undir Grænlandsströndum sem kannske verður þar eftir 7 ár. Og svo enn eitt: Hæstv. forsrh. vitnar í alþjóðarétt um það eða gefur það í skyn, að alþjóðalög heimili Efnahagsbandalaginu að fjalla um Grænlandsmið, enda mun Finn Olav Gundelach hafa tjáð íslensku ríkisstj. að hann hefði umboð til þess að semja við hana um Grænlandsmið. Ég trúði þessu ekki þegar ég heyrði það. Ég mundi ekki betur en gerð hefði verið sérstök bókun við inngöngu Danmerkur í Efnahagsbandalagið varðandi Grænland og hringdi þess vegna í danska utanrrn. núna eftir hádegið í dag og spurði hvernig staða Grænlands innan Efnahagsbandalagsins væri og fiskimiðanna við Grænland. Og ég fékk þau svör, að Grænland væri að vísu innan Efnahagsbandalagsins að forminu til, en með sérstakri yfirlýsingu um að efnahagslögsagan út frá ströndinni væri sérstakt fiskveiðisvæði utan samþykkta Efnahagsbandalagsins og væri ekki með í sameiginlegri fiskveiðilögsögu Efnahagsbandalagsins sem stjórn Efnahagsbandalagsins er nú að bjóða og fjalla um. Ég spurði þá hvort Finn Olav Gundelach erindreki Efnahagsbandalagsins hefði umboð til þess að semja um afnot annarra þjóða af þessum fiskimiðum við Grænland, og svarið var á þá lund, að það hefði hann eiginlega ekki því að hann yrði að bera hvað eina undir dönsku stjórnina sérstaklega, ekki undir stjórn Efnahagsbandalagsins, hvað eina það sem varðaði grænlensku fiskimiðin. En hann hefur aftur á móti umboð til þess að ræða málið við íslendinga, en ekki til þess að gera neins konar samninga.

Ég vildi náttúrlega óska þess, því takmörk vil ég setja fyrir því hvað íslenska ríkisstj. geri sæmd sína litla, — ég vildi óska þess að Gundelach hefði ekki ýkt umboð sitt í fleiri málum heldur en þessu og ekki platað ráðh. okkar nú þegar úr hófi fram. En það er ýmislegt óneitanlega í sambandi við Finn Olav Gundelaeh og hans Íslandsreisur sem á sér óþægileg fordæmi í sögum liðinna alda um samskipti okkar við þjóðir meginlandsins og lágþýskumælandi embættismenn sem urðu nafntogaðir í sögunni og það svo, að sum nöfn þeirra fengu íslenskar endingar og íslenskan hljóm. Og mér virðist einhvern veginn að upphafið á sendiferðum Gundeláka þessa til Íslands til viðræðu við íslensk yfirvöld bendi til þess, að afleiðingarnar geti orðið býsna afdrifaríkar og kunni að draga slæman dilk á eftir sér. Hvort hann getur heitið settur utanrrh. Efnahagsbandalagsins eða ekki, þá hefði ég nú talið hyggilegt af ráðh. okkar, ráðh, íslenska lýðveldisins, að gera svolítinn stigsmun á stöðu sinni og hans og passa sig a.m.k. á því, þegar þeir samþykktu sameiginlega yfirlýsingu með honum, að ganga úr skugga um það að hann mundi ekki strax á eftir birta aðra yfirlýsingu sina, prívat og persónulega yfirlýsingu, sem gengur mun lengra og í aðra átt og segir í raun og veru nokkuð annað en það sem þeir geta sannað fyrir okkur að er satt og rétt, og fylgir henni svo eftir úti í löndum þar sem hann segir að niðurstaða viðræðnanna við íslensku ráðh. sé sú, að hann hafi ríka ástæðu til þess að ætla og allt að því vissu fyrir því, að þeir muni leyfa bretum veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu framvegis.

Við þessar umr. hljótum við að óska mjög eindregið eftir því, að það komi fram ljósum orðum af munni hæstv. ráðh. hvers konar þær upplýsingar séu sem Finn Olav Gundelach byggir á þá skoðun sina að álit fiskifræðinganna varðandi ástand fiskstofna okkar sé rangt, ella hljótum við að túlka þessa persónulegu skoðun hæstv. sjútvrh., að skýrsla fiskifræðinganna okkar sé röng þar sem kveðið er á um það í beinum tengslum við hana að við megum ekki veiða nema 275 þús. tonn af þorski á næstu árum, — ella hljótum við að líta svo til að þessa yfirlýsingu hans, þessa persónulegu skoðun hans beri að túlka raunverulega á þá lund að það sé sama hvert ástand fiskstofnanna sé, þeir muni samt halda áfram að þola sókn af hálfu breta og vestur-þjóðverja á miðin okkar, að hæstv. ráðh. viti raunverulega ekki neitt sem heimili þeim að draga í efa réttmæti skýrslu fiskifræðinganna, heldur hafi bara ákveðið þetta eitt, að taka ekki mark á henni til þess að geta heimilað bretum og þjóðverjum að spretta út úr nafla Efnahagsbandalagsins eina bununa enn og taka frá okkur fisk.