30.11.1976
Sameinað þing: 26. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég mun ekki halda hér langa ræðu. Það er kominn sá tími dagsins sem venjulegum þingstörfum er lokið, og auk þess er ég í raun og sannleika á móti löngum ræðum utan dagskrár og mun reyna að halda mig við það, a.m.k. fyrir mitt leyti, að segja hér það, sem ég tel mig þurfa að segja, í sem allra stystu máli.

Ég vil byrja á því að staðfesta það, sem hér hefur verið rætt um og allir vita og ég hef oft áður sagt, að auðvitað hefur enginn gengið að því gruflandi að bretar vildu halda áfram veiðum á Íslandsmiðum eftir að samningurinn, sem gerður var í Osló 1. júní s.l., rennur út. Þetta mun ég hafa sagt þegar ég lagði þennan samning fyrir Alþ., og ég hef aldrei gengið að því gruflandi og enginn okkar, hygg ég. En sá stóri munur, sem nú er, síðan samningurinn í Osló var gerður, virðist mér vera sá, að nú er það algerlega á okkar valdi hvort við tökum þátt í samningaviðræðum í fyrsta lagi og í öðru lagi hvort við gerum nokkurn samning eða ekki, því að við höfum skýlausa viðurkenningu allra þjóða, sem hlut eiga að máli, fyrir því að 200 mílna fiskveiðilögsaga Íslands sé orðin staðreynd. Þetta tel ég það sem mest er virði í þessu máli og skipti raunar alveg sköpum.

Ég vonast til þess, að bæði hv. stjórnarandstæðingar og eins við, sem styðjum þessa ríkisstj., eigum kost á því að taka þetta mál fyrir með öðrum hætti en þeim að hafa hér sífelldar umr. utan dagskrár, oft á óeðlilegum tímum, þar sem þessu máli er troðið eins og hornreku inn á milli alls konar annarra og kannske að sumu leyti minni háttar mála. Og ég skal með mikilli ánægju taka þátt í þeim útvarpsumr. sem hv. 2. þm. Austurl. hefur boðað að hann muni gangast fyrir, ef mér verður treyst til þess af flokksbræðrum mínum. Það mun ekki standa á því.

Hv. 2. þm. Austurl. taldi að af Íslands hálfu hefðu verið allt of margir þátttakendur í þeim viðræðum sem fóru fram 12. og síðan 25. og 26. nóv. Um þetta er ég að mörgu leyti alveg sammála. En það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem við heyrum það, bæði hann og ég, að við höfum fjölmennt um of til funda við útlendinga. Ég minnist þess að hér voru í tíð okkar í fyrri stjórn allmikil blaðaskrif um það, hversu óviðeigandi og jafnvel niðurlægjandi það væri að við færum þrír ráðh. til viðræðna við þjóðverja á sínum tíma. Þetta er því ekkert nýtt. Við höfum fengið þessa gagnrýni fyrr, og ég tek hana ekkert nærri mér, sérstaklega þegar það er haft í huga að viðræðurnar fóru fram hér í Reykjavík og það kostaði ákaflega lítið fyrir ríkissjóð að taka þátt í þessum viðræðum.

Ég vil segja það út af yfirlýsingu Gundelachs, að hann hefur ekki ástæðu til þess frá okkur að gefa slíka yfirlýsingu. Það er haft eftir einhverjum erlendum mönnum, — ég hef ekki lesið þetta sjálfur, en ég heyrði þetta hér í umr., — að það væri rætt um 12 togara sem ættu að fá fiskveiðiheimildir hér í janúarbyrjun, skildist mér, að því er virtist í ótiltekinn tíma. Þetta kannast ég ekki við að hafi borið á góma. Það, sem farið hefur fram, eru, eins og segir í þeim skýrslum sem afhentar hafa verið utanrmn., könnunarviðræður um hvort það væri rétt að taka þátt í samningaviðræðum. Niðurstaðan varð sú, sem hér hefur verið vitnað til og hv. 2. þm. Austurl. las, við skyldum ræða við Efnahagsbandalag Evrópu um tvö atriði, um fiskvernd annars vegar og um hugsanlegar gagnkvæmar fiskveiðar innan lögsögu hvorir annarra í samræmi við þau fiskverndunarsjónarmið sem báðir aðilar vilja í heiðri halda. Ég held að þetta geti ekki komið neinum í opna skjöldu, því að ég minnist þess að 26. okt., þegar rætt var um samkomulag um veiðar breskra togara, öðru nafni samninginn sem gerður var í Osló, þá sagði t.d. hv. 2. þm. Austurl.: Hvað gerist í þessum málum eftir 1. des. n.k. eða rétt eftir einn mánuð, það er kjarni málsins. — Og síðar, þegar hann er að mótmæla því að hann hafi ekki viljað ganga til neinna viðræðna, þá segir hann, með leyfi forseta: „Það var auðvitað rangt og er rangt það sem við áttum að hafa haldið fram. Ég hef ekkert á móti því að við tölum við fulltrúa breta eða tölum við fulltrúa Efnahagsbandalagsins.“ Ég hygg að það hafi fleiri hv. stjórnarandstæðingar látið svipaða skoðun koma fram, og ég tel hana alveg rétta og eðlilega. Það má hins vegar auðvitað alltaf draga það í efa af þeim og hverjum sem það vill, hvort við höldum þannig á málstað Íslands að hann sé ekki í bráðri hættu. Við vonumst til þess að við gerum það, og við trúum því að við höfum gert það. Þess vegna höfum við eða ég a.m.k. hreina samvisku í því efni. En ég get svo sem vel ímyndað mér að það séu aðrir hér inni sem treysta t.d. sjálfum sér miklu betur til þess að halda á okkar málum, og þeir verða náttúrlega að fá að hafa þá skoðun í friði fyrir mér.

Ég ætla svo að leyfa mér að segja það í sambandi við ástand fiskstofnanna, sem rætt var nokkuð í þeim umr., sem fram fóru þessa daga sem ég áður nefndi, og frá er greint í skýrslu þeirri sem ég áður nefndi að afhent var utanrmn.- mönnum í gær og verður afhent landhelgisnefndarmönnum eftir nokkra daga að þar er stuðst við skýrslur fiskifræðinga. Það er stuðst við skýrslur fiskifræðinga í lýsingu á ástandi fiskstofnanna. Og ég vil segja það, að í þeim viðræðum, sem fram undan eru og fram undan kunna að vera, verða fiskifræðingar hafðir með í ráðum. Það verður gert eins og verið hefur í öll þau skipti sem ég hef tekið þátt í viðræðum við útlendinga um fiskveiðar innan fiskaveiðilögsögu Íslands. (Gripið fram í.) Það var ekki rætt um það. Það voru ekki samningaviðræður. En á öllum þeim fundum, þar sem samningar hafa verið á dagskrá, hefur verið einn eða fleiri fiskifræðingar með í ráðum, og svo mun enn verða ef ég fæ einhverju ráðið.

Hv. 5. þm. Vesturl. er nýkominn úr reisu og ég efast ekki um að hann hafi gert okkar málstað þar mikið gagn. Ég hef ekki ástæðu til þess að ætla annað en svo sé. Hann sagði að það hefði verið efst á baugi á þessum tiltekna stað, Grimsby, held ég að það hafi verið, að það væri vonlaust að fá samninga við íslendinga eftir 1. jan. og það yrði að einbeita sér að því að koma skipulagi á breskar veiðar. Ber þetta vitni um, að bretar hafi loforð upp á vasann frá íslenskum ráðh. um að fiskveiðar skuli halda áfram? Ég heild ekki. Ég held að það sé alveg augljós staðfesting á því að þeir hafa ekki slíkt loforð. Þess vegna segja þeir þetta. Þess vegna grípur um sig vonleysi. Og það er vitnað hér í Anthony Crosland, og það er eitt af því fáa, sem ég hef lesið í dag um þessi mál. En ég sé ekki betur en í þeim ummælum, sem eftir honum eru höfð í einu dagblaðanna hér, sé hann mjög svartsýnn á að það fáist framlenging á veiðum breta innan fiskveiðilögsögu okkar. Ég kann þá ekki að lesa mælt mál ef það stendur ekki í þessu viðtali.

Það eru nú flestir farnir sem hafa haldið hér ræður af stjórnarandstæðingum, þó ekki allir. Einn af þeim, sem er horfinn af fundi, er hv. 2. landsk. þm. Ég ætla þess vegna að spara mér að mestu að gera ræðu hans að umtalsefni. En eitt af því, sem ég hef hripað á blaðið hjá mér eftir honum, var það, hvort við mundum ætla okkur að borga fyrir fisksvernd með fiskveiðiréttindum. Ég held að hann hafi sagt þetta. Þetta er alger fjarstæða. Fiskvernd er beggja hagur að mínu mati. Það er verndin á þeim stofnum, sem ferðast á milli miðanna, sem við erum að hugsa um. Hitt er annað mál, hvort gagnkvæmar fiskveiðar eru hugsanlegar, og ég ætla að leyfa mér að vitna enn í það sem ég hef áður sagt hér á Alþ. Það var í umr. í hv. Nd. 20. okt. s.l. Þar sagði ég, með leyfi hæstv. forseta, efnislega á þá lund, að ég teldi að við yrðum að fara mjög varlega í þeim samningaviðræðum sem hugsanlega kynnu að vera fram undan, og það vil ég endurtaka hér.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., sem sýnir mér þann sóma að sitja hér enn þó áliðið sé orðið kvölds, rifjaði það upp sem ég hafði sagt hér í sambandi við fyrri samninga, og ætla ég vissulega ekki að deila við hann um það. Það er allt rétt sem hann vitnaði til minna orða, enda þau öll skjalfest og þýðir ekkert fyrir mig að mótmæla, jafnvel þótt ég vildi. En ég segi það sem mína bjargföstu trú, að þegar upp er staðið nú, þá höfum við leitt þetta landhelgismál allvel til lykta og ekki bara náttúrlega fyrir okkar stjórnkænsku, heldur einnig og ekkert síður fyrir þá þróun sem orðið hefur í fiskveiðimálum umhverfis okkur. Mér dettur ekki í hug að fara í neinn meting um það við nokkurn mann hverjum það sé að þakka að íslendingar eru þó komnir þangað sem þeir eru. Ég vil segja að þing og þjóð eigi þar mestan heiður af og ætla ekki að reyna að seilast til þess, að ég hafi átt þar einhvern sérstakan hlut að máli. Mér dettur ekki í hug að halda því fram. En það er nú einu sinni þannig, og það skal vera mín afsökun í þessu máli sem hv. þm. vitnaði til, að þegar þarf að meta stöðuna hverju sinni, þá geta aðstæður verið nokkuð breyttar frá því sem maður reiknaði með að þær mundu verða þegar einhver tiltekin ummæli hafa verið látin falla, og það verður að vera mín afsökun og hún dugar mér, hvað sem öðrum líður.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr., vegna þess að ég veit að hér þurfa nokkrir enn að komast að áður en fundi er slitið. Ég vil að lokum taka undir það með hv. 3. þm. Suðurl., að þm. taki sjálfstæða afstöðu til landhelgismálsins eins og ég held að þeir hljóti að gera í öllum öðrum málum líka.