02.12.1976
Efri deild: 16. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Mér þykir hlýða, þegar dregur að lokum þessarar 1. umr. frv. okkar alþfl: manna um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum, að fara ofurlítið á ný yfir gagnrök og aðfinnslur andmælenda frv.

Vík ég fyrst að þeim andmælum hv. þm. Steinþórs Gestssonar, að hann sjái ekki, þótt annað sé staðhæft í grg. frv., að frv. byggist á líkri hugsun og samþykkt 120 þjóða á Habitatfundinum í Vancouver í Kanada s.l. sumar varðandi landnot og yfirráð yfir þeim. Ég held að hver sem skoðar málið vel sjái betur. Rauði þráðurinn í tilvitnuðum greinum Habitatfundarins í grg. frv. er einmitt að eignarráð og yfirstjórn einstaklingsins skuli vera víkjandi fyrir eignarráðum og yfirstjórn samfélagsins þegar hagsmunir einstaklings og hagsmunir þjóðfélagsheildarinnar eða stórra hluta þjóðfélagsins rekast á. Þetta er og rauði þráðurinn í frv. okkar alþfl.- manna nú og var í þáltiIl. okkar um þessi efni undanfarin þing. Þar undirstrikum við sérstaklega vatnsaflið, jarðhitann, lóðir og lendur undir þéttbýli og veiðirétt í ám og vötnum. Þetta eru ekki verðmæti sem framtak einstaklingsins hefur skapað. Þetta eru ýmis gögn og gæði landsins sjálfs eða hafa orðið verðmæt af samfélagslegum sökum, þarf samfjármagn þjóðarinnar til að beisla og njóta eða þarf að setja undir stjórn samfélagsins í einni eða annarri mynd til að forðast óheppilegar afleiðingar mannlegs eðlis, svo sem eignar- og auragirndar.

Næst vil ég víkja að ræðu hv. þm. Jóns G. Sólness sem ræddi m.a. um það, að hann væri á móti þessu frv. okkar alþfl.-manna m.a. af tveim ástæðum: hann teldi að það bryti í bága við 67. gr. stjórnarskrárinnar um eignarrétt og hann væri á móti því m.a. af því að það væri hindrun í vegi einstaklinga til að skapa verðmæti. Hvaða verðmæti? spyr ég. Er það sköpun verðmæta af hálfu jarðeiganda að jarðhiti finnst í landi hans og hann selur virkjunarréttinn fyrir of fjár til einhvers þéttbýlisstaðar í nágrenni sínu? Er það sköpun verðmæta að selja ofurverði vatnsafl sem talinn eigandi getur í engu nýtt sér nema fjármagn alþjóðar virki það og vinni? Er það sköpun verðmæta jarðeiganda að kauptún eða kaupstaður vaxi upp á landareign hans og hann stórhagnist síðan á sölu lóða og lendna? Er það sköpun verðmæta af hálfu eiganda þegar veiðijarðir fara í geipiverð vegna þess að það verður eftirsótt tómstundagaman að veiða lax eða silung? Ég segi nei. Um hitt getum við hv. þm. Jón G. Sólnes verið sammála, að það sé æskilegt að menn fái notið arðsemi vinnu sinnar, atorku, framtakssemi og hagkvæmni, og ég tel ekki að þetta frv., ef að lögum verður, hindri menn í slíku.

En víkjum þá að hinum andmælum hv. þm., að frv. gangi þvert á 67. gr. stjórnarkrárinnar hvað eignarrétt áhrærir. Ég bendi fyrst á að hér er yfirleitt gert ráð fyrir bótum í einhverri mynd fyrir öllum eignarhvörfum úr hendi einstaklingsins til alþjóðar. Svo er um land, veiði, jarðhita ofan viss dýpis, hins vegar ekki afréttarlönd nema sönnuð eign einstaklings sé á, ekki vatnsafl. ekki jarðhita neðan viss dýpis né námur. Ég bendi á að þetta er yfirleitt eign sem ýmist hefur í hugum þjóðarinnar verið skoðuð sem almenningseign, svo sem afréttir, eða eign sem var nánast ekki til í hugum fólks þegar 67. gr. stjórnarskrárinnar var samin. Þetta finnst mér veigamikið atriði. Getur gamalsett lagagr. um eign endalaust náð yfir nýjar og nýjar eignir, ný og ný eignarverðmæti? Mér finnst slíkt a.m.k. afar hæpið.

Mér er það ljóst að hér eru á ýmsa lund sett fram ný sjónarmið um eignarráð. Ég er upp með mér af orðum hv. þm. Odds Ólafssonar, sem orðaði það svo að yrði þetta frv. að lögunum, þá yrði það mesti áfangasigur í átt til sósíalisma hér á landi. Það er áfangasigur í átt til jafnréttis. Slík orð úr munni eins virtasta manns þessarar hv. d. þykja mér athyglisverð, því að flokksofstækis hef ég aldrei kennt í munni hans, heldur sannsýni.

Mér fannst ræða hv. 2. þm. Vestf. ekki yfirveguð. Hann hóf mál sitt með því að staðhæfa að í frv. væri ráðist einvörðungu á landsyfirráð bænda. Samkv. 3. gr. frv. er einmitt tekið fram að bændum skuli frjálst að eiga jarðir til eigin búrekstrar meðan þeir kjósa það heldur en t d. erfðafestu. En í 11. gr. er hins vegar tekið fram að lóðir og lendur í þéttbýli skuli eign viðkomandi sveitarfélags. M.ö.o.: sé frv. lesið niður í kjölinn gerir það ráð fyrir bændum einum sem jarðeigendum fyrir utan ríki og sveitarfélög. Þá hafði hv. þm. áhyggjur af, að norðlendingum, vestlendingum, austlendingum og sunnlendingum yrði þungt í skauti að leita landyfirráðá og landnota alltaf til skrifstofu í Reykjavík. En ég bendi á að í 2. gr. frv. er tekið þannig til orða: „Umráðaréttur eigna þessara er í höndum Alþingis, en það getur með sérstökum lögum veitt sveitarfélögum, félagssamtökum og einstaklingum tiltekinn rétt til gagna og gæða lands og miða, enda fari það ekki í bága við hag almennings.“ Þarna er auðsjáanlega verið að benda á að yfirráð og við skulum segja úthlutun á jarðarafnotum geti verið í höndum t.d. sveitarfélaga hingað og þangað um land ef Alþ. sýnist að afhenda þeim það eða veita þeim þann umráðarétt með sérstökum lögum.

Þá fann hv. þm. frv. til foráttu að það mætti kaldhæðnislegt kalla að þar væri svo til ætlast að t.d. þeir vestfirðingar, sem á undanförnum árum hefðu orðið að ganga slyppir og snauðir af jörðum þar, skyldu nú bótalaust verða að láta þær í ríkiseign. Enn hefur hv. þm. lesið frv. illa. Í 4. gr. 2. málsgr., stendur einmitt: „Sömuleiðis skal ríkinu skylt að kaupa af bændum hús og ræktun á jörðum, sem fara úr byggð vegna óbyggis eða afbýlis.“ M.ö.o.: vestlendingarnir, sem hafa orðið að yfirgefa jarðir sínar vegna afbýlis eða óbyggis undanfarið og ekkert fengið fyrir þær, gætu, ef þetta frv. yrði að lögum. fengið þessar eignir sínar bættar.

Annars hefur mig furðað á hve andmælendur mikla fyrir sér óhagræði bænda af frv. þessu ef að lögum verður. Í mínum huga mun meginhluti hænda hafa hag af því, en að vísu þeir fáu, sem annars kynnu að eiga kost á braskverði fyrr jarðir sínar, hljóta óhag. Hitt er meginmálið, að vatnsaflið, jarðhitinn, almenningar, þéttbýlislönd og veiðiréttur skuli alþjóðareign, að það, sem annars kynni að fara í braskverð í höndum einstaklinga af því að alþjóð þarf að nota það og njóta þess, það sé í eitt skipti fyrir öll lýst alþjóðareign. Þetta er megininntak frv. Við skulum ekki láta neina reykjarmekki villa okkur sýn um þetta, að hér er hagur alþjóðar settur ofar hag einstaklings: Og það er trú mín að meginþorra þjóðarinnar, þegar hann gjörhugsar málið, finnst að þetta séu rétt stefnumörk.