03.12.1976
Sameinað þing: 28. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

Umræður utan dagskrár

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Hér á hinu háa Alþ. gerðist s.l. þriðjudag einstæður atburður. Alþfl. hafði óskað umr. utan dagskrár um Kröflumálið svonefnda og fengið leyfi forseta fyrir slíkri umr. og samþykki viðkomandi ráðh. Formælandi bjó sig undir málflutning af nákvæmni með greinagóðri upplýsingasöfnun og hugðist rekja stærstu staðreyndir í stuttu máli í 10–15 mínútna ræðu sem ekki þykir löng ræða fyrir stóru máli. En þegar hann hóf mál sitt var honum tilkynnt að hann fengi aðeins 5 mínútna ræðustund, og man ég varla eða ekki til slíkrar takmörkunar við aðra þm. undir líkum kringumstæðum. Slegið var í bjöllu forseta strax og 5 mínútur voru liðnar. Fékk ræðumaður ekki frið til að ljúka ræðu sinni. Síðan svaraði ráðh. hringingarlaust, sem rétt var. Svo var umr. frestað þótt tveir þm. væru á mælendaskrá og fundi frestað, en tilkynnt að innan 20 mínútna yrði fundi fram haldið og nýtt mál tekið fyrir utan dagskrár, hvað og var gert. Sá formælandi fékk að tala í 45 mínútur án þess að bjöllu forseta væri hringt og síðan hver ræðumaður af öðrum uns kvöldmatartími kom og þingfundi var slitið.

Ég fullyrði að svona vinnubrögð um meðferð mála utan dagskrár séu einsdæmi um mismunun og hlýt að víta þetta harðlega. Nú dettur mér ekki í hug að hinum drenglynda og ágæta alþingisforseta vorum hafi verið sjálfrátt. Hér hafa aðrir leitt hann á villigötur, og ástæðan blasir við. Ríkisstjórnarflokkarnir og Alþb. vilja alls ekki að svonefnd Kröflumál séu rædd á Alþingi, og ef þau eru rædd, þá reyna þeir að drepa þeim á dreif, og því tóku þeir sig saman um gagnráðin, taka fyrir annað deilumál svo hið fyrra sofnaði út af eða úr því yrði a.m.k. kominn gusturinn í frystiklefa biðarinnar. Þessi málameðferð leit í fljótu bragði ákaflega sakleysislega út. Hið nýja utandagskrármál, hugsanlegir samningar við EBE um veiðar innan íslenskrar lögsögu, brennur í huga þjóðarinnar og forsrh. ekki taltækur næstu daga vegna utanferðar. En þegar haft er í huga, að bæði utanrrh. og sjútvrh. sátu um kyrrt og engir samningafundir í þessari viku né komandi viku fyrirhugaðir, var augljóst að flýtishátturinn stjórnaðist ekki af nauðsyninni einni saman. Orsökin var önnur, eins og ég hef sýnt, þótt ég viti að því verði kröftuglega mótmælt. Það sannar mál mitt að sjútvrh. var ekki gert aðvart um þetta utandagskrármál, svo skylt sem honum var málið, og var því ekki við umr.

En hvaða nauður rak þá og rekur til að taka Kröflumálið fyrir nú? Það er orðið upplýst leyndarmál, að innan Orkustofnunar ríkisins, jarðboranadeildar, sem falið var það verkefni að afla gufu til virkjunarinnar, eru mjög deildar skoðanir um hvort slíkt takist og a.m.k. alvarlegar horfur á að það takist ekki nema með óheyrilegum kostnaði. Þar er nánast hver höndin upp á móti annarri og menn vita ekki sitt rjúkandi ráð. Boraðar hafa verið 11 holur fyrir 1.3 milljarða kr., hver hola kostar rúmlega 100 millj. kr., en gufan, sem fengin er, mun í besta falli geta framleitt 8–10 mw. af raforku í hinni 70 mw. fyrirhuguðu stöð. Þetta táknar að gangi gufuöflun ekki betur hér eftir en hingað til þarf að bora 56-60 holur í viðbót eða fyrir um 6 milljarða kr. En þegar haft er í huga, að öll Kröfluvirkjun með byggingum og vélum, gufuöflun og linu til Akureyrar var áætlað að mundi kosta um 7 milljarða kr., sést, hver feikna viðbótarfjárhæð er hér í sjónmáli, og full ástæða til að Alþ. fylgist með hvaða leikur fer fram í sandkassanum í Hlíðardal.

Raforkan frá Kröfluvirkjun má ekki kosta hvað sem vera skal. Eftir gosið í Leirhnjúk í fyrravetur lögðu ýmsir varfærnir menn til, studdir áliti kunnra jarðfræðinga og jarðeðlisfræðinga, að beðið væri átekta um Kröfluvirkjun uns kyrrð kæmist þar á jörð. Hér á Alþ.lögðum við alþfl.- menn til að lögð yrði megináhersla á lúkningu byggðalínunnar norðlendingum til orkuaukningar, — en byggðalínan er ekki búin enn, — meðan beðið væri átekta við Kröflu og efnið í Kröflulínu tekið til að byggja línu frá Geithálsi í Hvalfjörð svo hægt yrði að veita 30–50 mw. orku norður. Ekki vildu ráðamenn hlusta á þessi rök, heldur var framkvæmdum við Kröflu haldið óhikað áfram þrátt fyrir aðvaranir náttúruaflanna.

Nýlega birtust í dagblöðum hér upplýsingar um stöðu borana við Kröflu eitthvað á þessa leið: Fyrsta hola, rannsóknarhola, sem lokið var 30. okt. 1974, einn km á dýpt, engin gufa náttúrlega. Önnur hola, lokið nokkru seinna sama ár, einn km á dýpt, engin gufa. En um þessar borunarholur gerði Orkustofnun þá skýrslu, að það væri líklegt að þarna mundi fást næg gufuorka. Ég tek þetta hér fram vegna þess að ráðh. talaði um að það hefðu farið þarna fram rannsóknir árum saman. Það getur vel verið að menn hafi eitthvað gengið um þetta svæði, en rannsóknir, sem því nafni geta nefnst, fóru ekki fram fyrr en með þessum tveimur borholum sem voru boraðar 1974. — Þriðja hola gaf góðar vonir, en dvínaði að gufuorku eftir Leirhnjúksgosið og er nú talin sundur að hluta, og menn hafa, eftir því sem ég veit best, algjörlega afskrifað hana. Fjórða hola fékk hið fræga nafn „Sjálfskaparvíti“. Fimmta hola reyndist hafa skekkst, sumir segja fyrir skrið í jarðveginum, aðrir halda fyrir þrýsting frá jarðskjálftunum sem þarna hafa verið alltíðir. Sjötta hola er talin sæmileg, en ekki eins góð og vonast var. Sama er með sjöundu holu, og í henni hefur orðið vart við það sem kallað er skrið. Áttunda hola, hún mun vera algjörlega ónýt. Níunda hola, það var hætt við hana vegna leirslettunnar svokölluðu, og nú hefur orðið vart við skrið í henni og flestir kalla hana vonlausa. Tíunda holan mun í mælingu og algjörlega óviss. Í elleftu holu hefur líka orðið vart við þetta svokallaða skrið. En um þessi mál hefur m.a. Ísleifur Jónsson gert þessa athugasemd í Fréttabréfi Verkfræðingafélagsins, ég tek bara örfá orð hér upp: „Sé svæðið orðið litið vatnsleiðandi af ummyndun og samþjöppun er til lítils að vinna að bora fleiri holur á þessu ummyndaða svæði. Það liggur nærri að álíta að þetta sé svona eftir að hola sjö brást eins og raun ber vitni.“ Hann er þarna að tala um skriðið, sem kallað er. Samkv. þessu má reikna með að þarna sé lítið vonarsvæði sem verið er að bora á, og enn er eldgosahættan og jarðskjálftahættan yfirvofandi.

Það er athyglisvert að nú vill enginn Kröflulilju kveðið hafa. Ráðh. segir: Alþ. tók ákvörðun um Kröfluvirkjun. — En ég minni á að það voru heimildarlög sem Alþ. samþ. um Kröfluvirkjun og einhver hlýtur að hafa tekið ákvörðun um að nota heimildina. Ráðh. segir Líka að í Kröfluvirkjun hafi verið ráðist á grundvelli tillagna Orkustofnunar byggðra á árarannsóknum. Þetta hefur mér sýnst Orkustofnun ekki vilja kannast víð, ekki það að hún hafi lagt til að virkjað væri, aðeins gefið hlutlausa skýrslu um ástand svæðisins. Kröflunefnd þvær hendur sínar: Ég átti bara að sjá um byggingu stöðvarhúss, vélakaup og uppsetningu, gufuöflunin er mér alveg óviðkomandi og náttúrlega lagning Kröflulinu. — Þetta minnir á þuluna í Litlu gulu hænunni. Ekki ég, sagði hundurinn á hlaðinu. Ekki ég, sagði kötturinn á stéttinni. Ekki ég, sagði öndin á tjörninni. Eins segir Kröflunefnd: Ekki ber ég ábyrgðina, — ráðh.: Ekki ber ég ábyrgðina, — Orkustofnun: Ekki ber ég ábyrgðina. — Er þá þessi ágæta virkjun utan allrar ábyrgðar eða hvað? hlýtur margur að spyrja. Jarðvísindamönnum ber saman um að skjálftavirkni og jafnvel gosvirkni sé mjög vakandi á Kröflusvæðinu. Gufuleitarmenn viðurkenna að þeir viti raunar ekkert hvaða árangurs sé að vænta um gufuorku þar, hvort t.d. tæring verði ekki illviðráðanleg, hvort holur ónýtist ekki vegna skriðs eða hvort gufa úr þeim geti ekki ýmist komið eða farið vegna goss og skjálftavirkni eða verið ónothæf vegna efnisinnihalds.

Er nú ekki nauðsynlegt að Alþ. taki þessi mál til alvarlegrar umfjöllunar, leggi t.d. til að skipuð verði sérfræðinganefnd valinkunnra jarðvísindamanna og annarra, sem verulega reynslu hafa í þessum málum, til að gera ítarlega úttekt á málinu, eins og það stendur í dag, hvort nokkurt vit er í framhaldi þessara framkvæmda, slíkt ofboð í fjármagns sem þær virðast ætla að kosta. Á grundvelli þeirrar skýrslu verður Alþ. síðan að endurmeta málið og taka ákvörðun hvað gera skuli.