03.12.1976
Sameinað þing: 28. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Út af þeim umr., sem hér hafa verið og eru á vissan hátt krítík á stjórn mína á hv. Alþ. í umr. utan dagskrár og að þar sé gert upp á milli mála, þá vil ég rifja það upp hversu oft Kröfluvirkjun hefur komið til umr. nú á rúmu ári: 11. nóv. 1975, 2. des. 1975, 1. apríl 1976, 6. apríl 1976, 7. apríl 1976, 9. apríl 1976 og 30 nóv. 1976 og svo aftur 3. des. framhaldsumr. Ég ætla að ekkert mál að undanteknu landhelgismálinu hafi verið jafnoft rætt bæði með fsp. samkvæmt þingsköpum og einnig utan dagskrár og skýrslu hæstv. iðnrh. um Kröfluvirkjun og þau mál sem þar að lúta.

Þannig finnst mér að það hafi ekki verið beitt þarna neinni hlutdrægni í málinu. Ég endurtek það, að ég met utanríkismál og landhelgismál nokkuð á annan veg en innanlandsmál önnur, nema einhverjar sérstakar aðstæður kunni þar að liggja að baki. Og það er alveg rétt, ég óskaði eftir því við hv. 2. þm. Austurl. að hann stytti mál sitt, en hins vegar fór ég aldrei fram á það að hann væri vissan tíma, og ég ætla að hv. þm. hafi gert það. Það var líka vitað mál að hæstv. forsrh. var að fara utan og hafði einungis þennan tíma til að svara þeirri fsp. sem til hans var beint. Og ég vonast eftir því, að þessi dagur bæti nokkuð þann takmarkaða tíma sem var á þriðjudaginn við umr. þessar utan dagskrár.