06.12.1976
Efri deild: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

85. mál, eignarráð yfir landinu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það kom fram í umr. um þetta mál að Eimskipafélag íslands hefði keypt jörð uppi í Borgarfirði og að þar væri hugmyndin að byggja sumarbústaði. Nú er að mér vitanlega ekkert alvarlegt mál þó sumarbústaðir séu byggðir, en hins vegar er að sjálfsögðu rétt, að hugleiða hver sé staða sveitarstjórnar viðkomandi svæðis.

Ég vil byrja á því að geta þess, að í gildi eru nú í dag tvenn lög sem hægt er að hagnýta sér vilji sveitarstjórn hafa áhrif á það, hvort bújarðir eru setnar eða hvort þær eru teknar undir annan rekstur. Þar eru í fyrsta lagi til lög um skipulag. Sveitarfélag getur samkv. lögum um skipulag beitt sér fyrir því að óheimilt sé að reisa á jörð öll önnur hús en þau sem koma að notum fyrir búskap. Sé þessum lögum beitt liggur alveg beint fyrir að ekki verður hægt að reisa sumarbústaði á viðkomandi landi. Jafnframt eru í gildi ábúðarlög. Þar segir svo — með leyfi hæstv. forseta — í 2. gr.:

„Hver sá, sem á jörð og rekur ekki búskap á henni sjálfur, er skyldur að byggja hana hæfum umsækjanda að dómi jarðanefndar. Nú rækir jarðeigandi eigi þessa skyldu og ber þá sveitarstjórn að áminna hann um það og setja honum frest til næstu fardaga. Nú byggir hann eigi jörðina að þessum fresti liðnum fyrir 15. febr. næst eftir að fresturinn rann út, og skal þá sveitarstjórn í samráði við jarðanefnd ráðstafa jörðinni í 5 ár í senn á þann hátt sem hagkvæmastur er fyrir sveitarfélagið.“

Þarna kemur það alveg berlega fram, að í íslenskum lögum eru til þær heimildir að hægt er að taka ákvörðun um það, þó að Eimskipafélag Íslands sé eigandi jarðarinnar, að hún verði notuð til búskapar ef einhver hefur áhuga til að búa á henni og er að bestu manna yfirsýn talinn hæfur til þess. Þetta taldi ég að þyrfti að koma hér fram alveg sérstaklega vegna þess að í ræðu hv. frummælanda kom það fram, að hann taldi að ekki væru nú í íslenskum lögum til þau ákvæði sem kæmu í veg fyrir að góðar jarðir færu úr byggð ef þær yrðu seldar t.d. til þéttbýlisins.

Ég get svo ekki látið hjá líða að benda á það, sem ég gat um í ræðu minni um þetta mál, að þeir, sem yfirgáfu byggðarlög sín á Hornströndum og við norðanvert Ísafjarðardjúp, fá engar bætur samkv. þeim lögum sem hér er lagt til að verði samþ. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sömuleiðis skal ríkinu skylt að kaupa af bændum hús og ræktun á jörðum, sem fara úr byggð vegna óbyggis eða afbýlis.“ Að sjálfsögðu eru þarna ekki þau mannvirki í ræktun eða húsum til eftir þennan tíma að þar sé um að ræða eignarbætur, þó að þær séu greiddar. Þess vegna er þetta frv. ákvörðun um að taka þetta land af þessum mönnum án bóta, ekki að taka það af bændum, því að þessir menn eru náttúrlega ekki lengur bændur.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. flutti hér langa og skemmtilega ræðu, að mér skildist mér einum til fróðleiks, og ég ætla ekki að eyða löngu máli í þá ræðu. Ég geri ráð fyrir að hann líti svo á, að ég meti hana jafngrunnhyggnum augum og hann taldi að ég liti þetta mál sem heild, og þess vegna ástæðulaust að gera sér neinar vonir um að orð af minni hálfu hafi áhríf á viðhorf hans í þeim efnum. Hitt vildi ég þó segja honum, að ég er ekki trúaður á þá kenningu, að seinni heimsstyrjöldin hafi raskað mjög tillöguflutningi framsóknarmanna um skipan eignarréttar yfir landi.

Hvort heimilt sé að nota líkingamál þegar rætt er um viðhorf eins og það sem Steinn Steinarr notaði: „Að sigra heiminn er eins og að spila á spil,“ læt ég ógert að svara, fagna því þó að það málfrelsi skuli vera til á Íslandi að mér vitanlega er ekkert sem bannar notkun slíks líkingamáls. Og hvað almennan veiðiskap snertir, þá var það einn hugsuður mikill við Genesaretvatn sem hélt því fram við fiskimann að hann ætti að veiða menn, en ekki fiska, og sá hinn sami hefur að mínu viti ekki verið sakfelldur fyrir það orðalag. Ég mælist til þess að hljóta ekki verri meðferð en þeir.