18.10.1976
Neðri deild: 4. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég er einn þeirra manna sem eiga sæti í stjskrn., hef átt sæti þar að vísu mjög stuttan tíma. En þann tíma, sem ég hef setið í n., hefur hún haldið nokkra fundi, þ. á m, tvo fundi í síðustu viku. Eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl., þá hefur borist til n. mikið af gögnum, m.a. um stjórnskipun ýmissa ríkja, og einnig mjög margbreytilegar till. innanlands frá ýmsum aðilum um það, hvernig þeir vilja haga setningu nýrrar stjórnarskrár. Þar er bæði um að ræða till. frá stjórnmálasamtökum og ýmsum öðrum samtökum og jafnvel einstaklingum. Þessar till. allar og þessi gögn er ritari stjskrn., dr. Gunnar Schram, að flokka og setja fram í aðgengilegu formi fyrir nm.

Það var rætt verulega um það á fundi í seinustu viku, hvort það væri rétt afstaða af hálfu stjskrn. að víkja til hliðar eða vísa frá sér til stjórnmálaflokkanna kjördæmamálinu. Niðurstaðan í n. varð sú, að það væri eðlilegt að n. reyndi að ná samkomulagi að meira eða minna leyti um þetta mál og skila frá sér till. Það er ekki farið að reyna á það í n. hvort samkomulag geti tekist um málið eða að hve miklu leyti samkomulag gæti tekist og þess vegna ekki tímabært að ræða það atriði nánar. Þó er alveg ljóst að það kemur sjálfsagt enginn skriður í alvöru á kjördæmamálið fyrr en stjórnmálaflokkarnir í landinu eru reiðubúnir til þess að taka málið upp og flytja það hér á hv. Alþ., því að til þess þarf auðvitað þeirra atbeina ef skriður á að komast á málið.

En ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, var að ég vildi gjarnan segja skoðun mína um það atriði sem hér er einkum verið að ræða nú, þ.e.a.s. hvort eðlilegt sé að skipta Alþ. í tvær málstofur eða eina.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að Alþ. starfi í einni málstofu, og ástæðan fyrir því er hreinlega sú, að mér finnst skorta raunverulega röksemdir fyrir því að skipta Alþ. í tvær málstofur, vegna þess að það er ekki kosið sérstaklega til tveggja deilda hér á Íslandi eins og viða annars staðar. Eins og öllum er kunnugt, þá háttar viða svo til að það er kosið með sérstökum hætti til hinna tveggja deilda viðkomandi þjóðþinga. Í því stóra og volduga landi, Bandaríkjunum, eru t.d. kosnir til öldungadeildarinnar, eins og kunnugt er, hreinlega tveir öldungadeildarþm. frá hverjum af hinum 50 fylkjum, algerlega án tillits til þess hversu mikill fólksfjöldi er í einstökum ríkjum. En hann er ákaflega mismunandi mikill. Hins vegar er kosið til fulltrúadeildarinnar með hlutfallskosningafyrirkomulagi og þá miðað við fólksfjölda. Svipaða sögu má segja um þjóðþing margra ríkja, og þar eru alveg sérstakar ástæður, að því er mér finnst, sem liggja til þess að þjóðþingunum er skipt í tvær deildir. Hér er slíku ekki til að dreifa, heldur eru kosnir til Alþ., eins og kunnugt er, 60 þm. sem síðar skipta sér sjálfir milli hinna tveggja þd. Þannig finnst mér skorta nægilegar röksemdir fyrir nauðsyn þess að skipta Alþ. í tvær þd. Hitt er annað mál, eins og komið hefur raunar fram hér í máli manna, að það eru vissar röksemdir sem mæla með því að skipta þinginu í tvær þingdeildir. Sú röksemd, sem venjulega hefur verið tíunduð í þessu efni, er sú, að á þann hátt fáist vandlegri athugun og meðferð á málum, slík meðferð tryggi það að mál fái rækilegri skoðun og það séu meiri líkur á því að hægt sé að koma í veg fyrir mistök í lagasetningu. En það eru fyrst og fremst þær röksemdir sem færðar hafa verið fram sem kostir í þessu efni. En mér finnst hann ekki nægur, og þess vegna er ég hiklaust þeirrar skoðunar og get lýst minni skoðun á því, að rétt sé, þegar stjórnarskráin verður endurskoðuð, að Alþ. sitji í einni þd.

Það mætti að sjálfsögðu margt segja um kjördæmaskipunina ef farið væri út í að ræða það mál nánar. En ég er þeirrar skoðunar, að þegar stjórnarskrá er sett eða er endurskoðuð, þá þurfi að líta á málið í heild. Kjördæmaskipunin er einn þátturinn í stjórnarskránni. Eins og nú er háttað eru ákvæðin um Alþ. einn af sjö meginþáttum stjórnarskrárinnar, eins og hún er í dag, að því er mig minnir. Kjördæmaskipunin er einn þátturinn í stjórnskipulaginu og ekki að minni hyggju hægt að aðgreina það mál algerlega frá öðrum málum, vegna þess að það hefur lengi verið lítið svo á að kjördæmaskipunin eigi að setjast á þann veg í meginatriðum að kjördæmin eigi að hafa sem jafnasta tölu fulltrúa á bak við þm., þó að allir hafi viðurkennt á öllum tímum að eðlilegt sé að taka nokkurt tillit til sérstöðu dreifbýlisins í þessum efnum. Þá er þó þess að geta, að það eru ýmis fleiri réttindi til handa þegnunum í stjórnarskránni heldur en þau sem snerta kjördæmaskipunina. Það er t.d. ákveðið í núv. stjórnarskrá að í einu kjördæmi, Reykjavík, skuli vera aðsetur þings, þar skuli vera aðsetur ríkisstj. og alls þess sem þessum stofnunum fylgir. Hér er um að ræða augljós stjórnskipuleg réttindi þeirra, sem byggja þetta svæði, af ástæðum sem eru augljósar. Menn hafa aðgang að ýmsum stofnunum, þeir sem hér búa, umfram það sem aðrir geta notið, sem búa í fjarlægð frá þessu kjördæmi. Þess vegna álít ég að þegar borin eru saman réttindi manna í þessum efnum öllum, þá verði að líta á málið í heild sinni og taka ekki einstaka þætti út úr málinu og líta á þá alveg án tillits til annarra ákvæða stjórnarskrárinnar. En ég skal ekki tefja almennar umr. um þetta nú, til þess verður áreiðanlega tilefni síðar meir, en aðeins lýsa þeirri skoðun minni, að ég álít rétt að gera þá breytingu á stjórnarskránni, þegar þar að kemur, ásamt ýmsum fleirum, að Alþ. sitji í einni málstofu.