06.12.1976
Neðri deild: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

104. mál, sauðfjárbaðanir

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Á þskj, 116 er frv. til l. um sauðfjárbaðanir. Frv. um þetta efni var lagt fram á Alþ. á s.l. vetri, en málið varð þá ekki útrætt. Frv. er því endurflutt með nokkrum breytingum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að meginefni til samið af mþn. Búnaðarþings vegna margra og ítrekaðra áskorana um breytingar á löggjöf um baðanir á sauðfé í þá átt að létta af böðunarskyldunni. Frv. gerir ráð fyrir því, að þetta verði gert á þann hátt, að ráðh, verði heimilt að veita undanþágu í tilteknum hólfum þar sem óprif hafa ekki sést á fé um árabil.

Til þess að auka öryggi um að böðunarundanþágur verði ekki til þess að stuðla að óþrifum á sauðfé, er sett í frv. ákvæði um vottorðagjafir frá tilteknum opinberum og hálfopinberum starfsmönnum og meðmæli með undanþáguheimild. Þeir aðilar, sem hér um ræðir, eru í fyrsta lagi sýslunefndir á viðkomandi svæði, yfirdýralæknir og héraðsdýralæknir. Meðmæli aðila allra þurfa að liggja fyrir til þess að hægt sé að veita þessa undanþágu. Þetta tel ég að eigi að vera nægileg trygging til þess að ekki verði farið með gáleysi að í þeim efnum.a.m.k. verður þá að verða allmikil breyting á ef svo ætti að vera.

Það ákvæði í frv., að ekki skuli að öllu jöfnu baða fyrr en fé er komið í hús, á að sporna við að óbaðað og baðað fé renni saman og um leið að minnka líkur á dreifingu óþrifa í sauðfé frá einum bæ til annars. Ákvæði í núgildandi lögum um sérsmölun vegna baðana er því fellt niður.

Meginbreytingin, sem í frv. felst, er undanþáguheimildin í 3. gr. sem ég vitnaði til áður. Verður hún að teljast réttmæt, því að hún á að geta sparað fjáreigendum fé og fyrirhöfn og þess má vænta að hún verði rík hvatning fjáreigendum á landssvæðum, sem ekki fá undanþágu frá böðunarskyldu, til less að herða sóknina og útrýma óþrifum á fé sínu með öllu. Væri vel ef svo tækist til.

Við nánari yfirferð á frv. því, sem lagt var fyrir á s.l. þingi, og að fenginni reynslu er hér um nokkurn viðauka að ræða sem er að finna í frv. því sem er lagt fyrir Alþ. nú. Þær breyt., sem gerðar eru frá frv. á s.l. Alþ., eru í fyrsta lagi viðbót við 5. gr. frv. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar tvíböðun hefur verið ákveðin í tilteknum landshluta, skal strax tilkynna það eftirlitsmönnum og þeir öllum hlutaðeigandi baðstjórum. Auk þess skal ákvörðunin um tvíböðun lesin minnst tvisvar í Ríkisútvarpinu. Þótt nokkur hefð hafi skapast í sambandi við undirbúning að tvíböðun, þá hefur nokkuð á skort að bein fyrirmæli væru í lögum um tilkynningarskyldu varðandi hana. Þess vegna eru þessi ákvæði sett inn í frv. nú.

Annað atriði er í 6. gr., 3. mgr., svofellt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem um er að ræða tvo eða fleiri eftirlitsmenn í sama fjárskiptahólfi og hætta er á samgangi fjár í milli eftirlitssvæða skulu eftirlitsmenn hafa samstarf um skipulag baðana.“

Þetta ákvæði á að fyrirbyggja að kláði geti borist frá einu svæði til annars innan sama varnarhólfs vegna takmarkaðs samstarfs eftirlitsmanna sem einhver brögð munu vera að.

Þriðja breytingin frá frv. á s.l. vetri er í 7. gr. frv., kemur fram í 1. mgr. og er þessi: „Skal sú útnefning fullbúin“ — þ.e. útnefning baðstjóra — „og tilkynnt baðstjórum eigi síðar en 20. okt. það ár sem baða skal.“ Einhver dæmi hafa verið um það, að baðstjórar hafi ekki verið skipaðir þegar þeirra var þörf. Með þessu ákvæði á að vera komið í veg fyrir það og þeir hafi tíma til að skipuleggja baðanir og þá í samræmi við nágrannabaðstjóra til þess að fyrirbyggja svo sem kostur er að samgangur baðaðs og óbaðaðs fjár geti átt sér stað.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta frv., enda skýrir það sig sjálft. Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.