06.12.1976
Neðri deild: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Svo sem fram kom í máli hv. frsm., þá stendur allshn. öll sameiginlega að nál., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að fylgja eða flytja brtt.

Í nál. allshn. um frv. til l. um rannsóknarlögreglu ríkisins er tekin fram sérstaða mín varðandi umdæmi rannsóknarlögreglu ríkisins, og ef ég má hafa sama hátt á og hv. frsm., að ræða þessi frv. í einu, þá hef ég einnig flutt brtt. við frv. til l um meðferð opinberra mála.

Allshn. leggur til að starfsumdæmi rannsóknarlögreglu ríkisins sé stækkað frá því sem ráð var fyrir gert í frv. eins og það lá fyrir, þar sem rannsóknarlögreglu ríkisins var ætlað að hafa með böndum lögreglurannsóknir brotamála í Reykjavík, en lagt er til að þetta umdæmi stækki og nái til þéttbýlissvæðisins, til þeirra staða sem hv. frsm. las upp áðan.

Ágreiningur varð í n. milli mín og annarra nm. um það, hvort Keflavík og Keflavikurflugvöllur skyldu skilyrðislaust fylgja þessu umdæmi. Meiri hl. leggur til að dómsmrh. ákveði hvenær Keflavík og Keflavíkurflugvöllur verði felld undir starfssvið rannsóknarlögreglu ríkisins. Ég tel rétt að Alþ. ákveði með samþykkt þessa frv. að Keflavík og Keflavíkurflugvöllur skuli skilyrðislaust vera umdæmi rannsóknarlögreglu ríkisins.

Í sjálfu sér er ánægjulegt að hæstv. dómsmrh. skuli fá þetta traust meiri hl. allshn. En ég held að málið snúist ekki um það. Ég held að við verðum að reyna að tryggja sanngjarna og réttláta meðferð mála, og með hliðsjón af því sem að undanförnu hefur gerst, þá hef ég ekki heyrt nein rök sem mæla með því að Keflavik og Keflavíkurflugvöllur séu undanskilin. Það vill svo til að stærstu málin, sem eru núna til meðferðar í dómsmálakerfinu, eiga rót sína að rekja til Keflavíkur og Keflavíkurflugvallar, þar sem eru stórfelld smyglmál og stórfellt fíkniefnasmygl sem rekja má til Keflavíkurflugvallar. Ég held að enginn mæli því í mót að þetta séu meiri háttar afbrot sem mundu samkvæmt þessum frv. falla undir rannsóknarlögreglu ríkisins.

Einu rökin, sem ég hef heyrt gegn því að Keflavík og Keflavikurflugvöllur séu tekin þarna með eru þau, að það sé svo langt á milli Reykjavíkur og Keflavíkur og Keflavíkurflugvallar. Við þessu get ég ekki annað sagt en að ég býst ekki við að reykvíkingar eða Keflvíkingar mundu telja þetta langa vegalengd, og í öðru lagi: það, sem er ekki of langt fyrir smyglara, er varla of langt fyrir lögreglu. Ég legg því eindregið til að Alþ. taki af skarið og að Keflavík og Keflavikurflugvöllur falli þarna inn í.

Önnur brtt. mín varðar frv. til l. um meðferð opinberra mála.

Í frv., eins og það liggur fyrir nú, er í 14. gr. gert ráð fyrir því að dómara sé heimilt að skipa sökunaut réttargæslumann við rannsókn máls hjá rannsóknarlögreglu ríkisins samkvæmt ákvæðum eða skilyrðum sem fyrir eru í 80. gr. laganna um meðferð opinberra mála.

Það er rétt að taka fram, að þessi ákvæði í frv. eru komin inn að tillögu lagadeildar Háskóla Íslands, en um þau segir svo í álitsgerð:

„Þegar frumrannsókn færist úr hendi dómara yfir til rannsóknarlögreglu getur hlutlaus dómari ekki haft sama eftirlit með henni og áður. Hætta er á því að staða sakbornings kunni við breytinguna að versna frá því sem nú er. Brtt. þeim, sem hér eru settar fram, er ætlað að rétta hlut sakbornings nokkuð að þessu leyti. Áþekk réttarvernd til handa sakborningi er fyrir hendi í nágrannalöndunum.“

Fulltrúar frá lagadeild Háskóla Íslands komu á fund allshn., og ég lét þá uppi þá skoðun mína, að ég teldi rétt að tryggja öryggi sakbornings enn betur en gert er í frv., að í stað þess að gefa dómara heimild til þess að skipa réttargæslumann skyldi honum gert það að skyldu ef sakborningur óskaði þess. Er það í samræmi við 80. gr. laganna eins og hún nú er.

Ég bendi á að til meðferðar hjá rannsóknarlögreglu ríkisins munu koma meiri háttar afbrotamál, mál sem ætla má að varði þungri refsingu og hygg ég að það sé í samræmi við skoðanir okkar um réttarríki að sá, sem sakaður er um mjög alvarlegt misferli eða alvarleg brot, fái þá mestu réttarvernd sem hugsanlegt er að veita honum. Ég vil enn fremur láta þess getið, að fulltrúar lagadeildar voru að því er best varð skilið hlynntir þessari breytingu minni og töldu ekkert henni til fyrirstöðu.

Það hefur heyrst að ef þetta verði lögleitt, þá geti hvaða kverúlantar sem er heimtað réttargæslumenn og þar með tafið dómsmál. Það kann vel að vera. En ég bendi á að kverúlantar eiga líka sinn rétt, og í öðru lagi er þetta sjónarmið ekki nægilega sterkt til að koma í veg fyrir að veita einstaklingi þá bestu réttarvernd sem við getum.

Að öðru leyti er ég fylgjandi þeim brtt. sem n. leggur fram, og um þær hefur ekki orðið ágreiningur í nefndinni.

Nú mætti ætla eftir allar þær umr., sem orðið hafa um frv. til l. um rannsóknarlögreglu ríkisins, að um leið og Alþ. væri búið að samþ. það væri þar með fundin töfralausnin á öllu því sem aflaga fer í þessu þjóðfélagi.

Umræður þær, sem orðið hafa um afbrotamál og um dómsmál, hafa að mínu viti verið allt of einhliða. Sá einhliða skilningur hefur verið lagður í málið, að um leið og þetta frv. verði samþ., þá verði öllum glæpamönnum smalað saman, þeim komið bak við lás og slá og þar með geti hinir, þessir heiðarlegu borgarar, farið að lifa áhættulausu og friðsömu lífi. Og helst mætti líka skilja af máli sumra manna, að með samþykkt þessa frv. yrðu glæpir úr sögunni.

Nú er mér mætavel ljóst að hver og einn, sem til máls hefur tekið um þessi mál utan þings eða innan, mundi mótmæla því að hann hefði svo einfaldan skilning á málinu, og ég efast ekki um að hann mundi segja það satt. En ég bendi á að þær umr., sem orðið hafa, þær áherslur, sem verið hafa á málflutningi manna, hafa snúist upp í áróður fyrir meiri lögreglu og sterkari lögreglu. Það hefur verið nánast einhliða krafa um það að hinir seku skuli nú hljóta réttláta refsingu. En með slíkum einhliða áróðri gleymist að þess þarf ekki síður að gæta að saklaus maður verði ekki sakfelldur. Það hefur verið gerð krafa á kröfu ofan, bæði hér á Alþ. og utan þess, að rannsóknarlögreglumenn hraði afgreiðslu mála. Látin hafa verið falla vanhugsuð ummæli um seinagang og vanmátt þeirra manna sem að þessum störfum vinna. Það hefur dunið í eyrum þeirra: Flýtið ykkur, flýtið ykkur. Og ég legg áherslu á að alþm. eiga hér sök ekki siður en fjölmiðlar og alþm. hafa ekki nægilega beitt áhrifum sínum til þess að umr. yrðu málefnalegri.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig það væri að vera í starfi rannsóknarlögreglumanns og reyna að gæta alls réttlætis í því andrúmslofti sem slíkar umr. skapa, — þegar sá einn mælikvarði virðist lagður á störf þeirra, hversu fljótir þeir eru að finna sakborninginn og koma honum bak við lás og slá. Þessir menn eru ekki nema mannlegir, og ef þeir fá ekki annan stuðning frá ábyrgum aðilum, þá er hætt við slysum.

Einhliða kröfur af þessu tagi eru ekki kröfur um réttlæti. Þær eru kröfur um lögregluríki. Þær byggjast á ofurtrú á lögreglu og fangelsum. Þær byggjast á þeirri trú. Því sterkari lögregla, því færri glæpir. Mælikvarðinn á réttlætið í þjóðfélaginu verður þá sá einn, hversu marga glæpamenn okkur tekst að handsama og því fleiri því betra. Þá fyndist kannske sumum að við byggjum við réttarríki. En hrædd er ég um að við séum þá komin fullnærri því að búa í lögregluríki, og lögregluríki hefur tilhneigingu til að skilgreina sjálft glæpi sína og styðst þá ekki endilega við landslög.

Annar þáttur umr., sem orðið hafa um þessa afbrotaöldu, er líka mjög athyglisverður. Alvarlegustu afbrot og óhamingja fjölda manns hefur orðið stjórnarflokkunum tilefni til að reyna að rífa hvor annan á hol. Afbrotaaldan hefur verið dregin niður í svað heimiliserja stjórnarflokka og stjórnmálaflokka. Það hefur verið reynt að gera þessi mál að þætti í kosningaslag. Ég ætla ekki að rekja þessi mál lið fyrir lið, enda kann ég það ekki utanbókar. En síðasta dæmið um þetta er það, að þrjú Morgunblöð í röð voru lögð undir að rifja upp mál sem búið var að bera dómsmrh. þeim sökum að hann bæri ábyrgð á sakir misferlis í starfi eða a.m.k. hlutdrægni í starfi. Í þessum greinum kom ekkert nýtt fram. Þetta var einungis upprifjun til að halda mönnum við efnið. Og svo hátt hafa þessar deilur risið, að ritari Framsfl. sá sig knúinn til þess að gefa yfirlýsingu um að ekki væru allir glæpamenn í Framsfl. Ég er með þessu ekki að verja Framsfl. í einu eða neinu. En ég tel að hann hafi tekið hér vitlaust á málum, en það er annað mál. Ég er að benda á að málflutningi af þessu tagi fylgir hættulegt ábyrgðarleysi. Og ég tek það fram að ég á hér við Alþfl. líka. Það virðist visvítandi stefnt að því að gera eflingu lögreglu og eflingu dómsmálakerfisins að kosningamáli. Sá flokkur, sem getur af mestri leikni spilað á frumstæðustu réttlætiskennd almennings, hann ætlar sér flest atkvæðin við næstu kosningar.

Eina af afleiðingum þessarar ábyrgðarlausu herferðar, þessa ábyrgðarlausa málflutnings, þessarar kröfu um að finna sakamanninn hvað sem það kostar, mátti sjá í einu íhaldsblaðinu um daginn. Ungur maður hefur verið hnepptur í gæsluvarðhald, það er ekki enn búið að leggja fram ákæru á hendur honum, en fyrirsögnin á baksiðu þessa blaðs var innan gæsalappa: „Enn einn banamaður Geirfinns fundinn.“ Og blaðsölubörn kölluðu á torgum úti: „Morðinginn fundinn.“ Hér er verið að ýta undir brenglað siðgæðismat. Það er verið að dæma mann sekan áður en sekt er sönnuð. Það er verið að spila á tilfinningar hefnigirni, ekki réttlætis.

Hér á Alþ. er nú krafist meiri fjárveitingar til lögreglumála, og vist er ég þeirrar skoðunar að það sé rétt og sjálfsagt að bæta aðstöðu lögreglunnar. Ég er þeirrar skoðunar líka, að það sé rétt að athuga hvort ekki megi hagræða málum hennar betur, þannig að henni sé gert kleift að starfa án þess að ausa í hana miklu fé. Ég er fylgjandi því að þetta frv. verði samþ. En ég er einungis að biðja menn um að líta á þessi mál í stærra félagslegu samhengi.

Löggjafarvaldið ætti að líta í eigin barm. Erum við að stuðla að betra samfélagi, eða erum við að mata lögregluna á æ fleiri afbrotamönnum? Hvers konar leiðsögn fæst héðan, hvers konar siðgæðismat má greina innan þessara veggja?

Það hefur verið mikið rætt um uppeldismál. Ég las á s.l. sumri viðtal við móður eins ungs manns sem nú situr í gæsluvarðhaldi viðriðinn eitt mesta afbrotamál sem komið hefur upp á Íslandi á síðustu árum. Þetta var afskaplega einfalt, fábrotið viðtal. Það var ekki mikið um stór orð, en hún lýsti aðstæðum. Hún sá heimilinu farborða ein og börnin urðu að vera á götunni. Það, sem var átakanlegast í þessu viðtali, var afsökunartónninn hjá konunni. Hún ásakaði sjálfa sig fyrir að hafa þurft að vera úti á vinnustað til þess að sjá fyrir sér og sínum. Ég er ekkert hissa á þessu. Þetta er sá áróður sem gengið hefur áratugum saman, íhaldsáróðurinn. Það á hver að sjá um sig sjálfur. Uppeldi barna er ekki talið vandi samfélagsins. Mæður hafa ekki fengið neina uppörvun fyrir það að sjá börnum sínum farborða. Þær hafa verið ásakaðar fyrir að vera ekki heima á sínum heimilum. En síðan hefur enginn hirt um það á hverju þetta fólk ætti að lifa.

Það hefur verið rætt um áfengis- og fíkniefnanotkun, og sannarlega ætla ég mér ekki þá dul að skilgreina til neinnar hlítar af hverju það stafar. En ég bendi á að fíkniefnasmyglið að undanförnu er rakið til Keflavíkurflugvallar. Halda menn virkilega að það sé áratugum saman hægt að hafa hermannasamfélag í okkar litla þjóðfélagi án þess að þess sjái einhvers staðar stað?

Það hefur verið rætt um hlut fjölmiðla, en við veitum ekki fé til menningarlegrar dagskrár. Við byrjum sjónvarpsferil hér í samkeppni við amerískt hermannasjónvarp, og til þess að samkeppnin fái staðist þarf að hafa afskaplega svipaða dagskrá. Það eru keyptar amerískar ofbeldismyndir. Það eru sýndir þættir þar sem glæpir eru afþreying og hetjan er rannsóknarlöggan. Sér nokkur samband milli þessa og þeirra umr. sem hafa átt sér stað að undanförnu á Íslandi? í stað þess að taka þessi mál föstum tökum stendur deilan nú um það, hvort við eigum að fá að sjá glæpinn í svart-hvítu eða í lit.

Það kom fram hjá hæstv. dómsmrh. í ræðu, að ein orsök þessarar glæpaöldu væri sú, að menn lifðu um efni fram. Þetta er náttúrlega engan veginn fullnægjandi skýring. Ég ætla ekki heldur að leggja út í það í þessari ræðu að reyna að finna orsakir þess eða kveða upp úr með hvort þetta er satt, né heldur ætla ég að ræða hér hverjir lifa um efni fram, þó ég hafi tilhneigingu til þess að benda á að svo sannarlega er það ekki láglaunafólkið á Íslandi sem lifir um efni fram. En hitt er annað, að peningabyggja gagnsýrir þetta þjóðfélag, og þessi peningahyggja nær að minni hyggju allt aftur til stríðsáranna. Þá misstu íslendingar þann siðferðilega grundvöll 410 sem þeir stóðu á til þess að standa vörð um sjálfstæði og framtíð þessarar þjóðar. Svo til um leið og Ísland varð sjálfstætt lýðveldi var tilvera þessarar þjóðar sett undir forsjá hernaðarveldis, og þar með var þessi þjóð, sem alltaf hafði státað af því að vera ekki hernaðarþjóð, tekin við hugmyndafræði hernaðarins. Skyldi þetta ekki hafa nein áhrif? Þeir, sem réðu landsmálum á þessum tíma, töldu sig ekki færa um að ráða fram úr þeim vanda sem því fylgir að vera forustumaður sjálfstæðrar þjóðar, og þess vegna þurfti að ala þjóðina upp í sama hugsunarhættinum. Þjóðin var svipt þeirri ábyrgð að standa vörð um og gæta ítrustu skilyrða tilveru sinnar. Og þegar það gerist, þegar ítrustu skilyrði tilverunnar eru ekki lengur lífsspursmál, ekki einu sinni umhugsunarefni, þá er þjóðin þar með svipt hinum siðferðilega grunni fyrir sjálfri tilveru sinni og þá skapast tómarúm sem verður að fylla, og það tómarúm hefur verið fyllt af peningahyggju. í stað siðferðilegra markmiða fyrir þjóðarheill og þjóðarframtíð hefur veríð haldið að þjóðinni lágkúrulegum hugmyndum nm einkaneyslu og einstaklingshyggju, sem þýðir yfirleitt á máli sjálfstæðismanna eigingirni og ágirnd. Ég bendi á að afleiðing þessarar leiðsagnar þeirra stjórnmálamanna, sem mesta ábyrgð bera á þessu tímabili, er nú komin í ljós, þar sem í ríkisstj. Íslands sitja a.m.k. fjórir ráðherrar sem hafa lýst sig fylgjandi því að bandaríkjamenn standi hér undir opinberum framkvæmdum eða greiði leigu fyrir landið. Slíkir menn ættu ekki að vera undrandi á því þótt siðferðilegrar hnignunar og peningagræðgi gæti hjá einhverjum þegnum þessa lands.