06.12.1976
Neðri deild: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu við það að bæta sem hér hefur verið sagt um þetta mál. Ég hef ekki risið úr sæti mínu fyrr í umræðum í vetur til þess að fagna þessu frv. og þar af leiðandi ekki tafið það með ræðuhöldum hér.

Þetta mál er búið að hljóta sannarlega gagngera athugun í allshn. Nd., sjálfsagt milli 10 og 20 fundi bæði í fyrra og núna, ferðalög um bæinn og vettvangsrannsóknir ýmiss konar. Síðan hefur verið lagt fram langt og ítarlegt nál. og því fylgt úr hlaði með langri ræðu frsm. og á nú að vera gerð fullnægjandi grein fyrir málinu. En þrátt fyrir alla þessa vinnu sem í skoðun málsins hefur farið í n., þá verð ég að viðurkenna það, að mér finnst þetta frv. ekki hafa breyst verulega til bóta frá því að það kom hér á borðin okkar í fyrra. Ég held að þetta frv. hafi verið vel undirbúið frá hendi höfunda sinna, réttarfarsnefndar. Ég held að réttarfarsnefnd hafi fundið þarna nokkuð heppilegt form, — form sem væri nokkuð líklegt til þess að tryggja eðlilega starfshætti við rannsóknir mála og skapa nauðsynlegt aðhald án þess að „terrorísera“ þjóðfélagið með lögregluvaldi. Ég hef þó fallist á það að standa að brtt. við þetta annars ágæta frv. ásamt með öðrum nm. til þess m.a. að tefja ekki málið í n. Allir þeir, sem tóku til máls í fyrra og eins núna þegar þetta frv. var lagt fram, lýstu fögnuði yfir frv. og stuðningi við það. Hefði mátt ætla að það hefði siglt hraðari byr í gegnum hv. d., og þar sem nú er líðið mjög að jólum, þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að eggja hv. Ed. lögeggjan að láta nú hendur standa fram úr ermum við afgreiðslu málsins, þannig að þetta mál nái fram að ganga áður en jólaleyfi hefst. Vafalaust er þetta ekki alfullkomið og þessi lagasetning, og það er sjálfsagt margt sem reynslan verður að skera úr um. Þetta er ekki endanleg frambúðarlagasetning og þar af leiðandi kemur hún vafalaust einhvern tíma til endurskoðunar.

Ég vil að lokum gera aths. við eitt orðskrípi sem er í þessu frv. og mér er tjáð að sé mjög notað í lagamáli. Það er orðið sökunautur, meira að segja í eignarfalli sökunauts. Ég held að þetta orð sé rangt myndað. Ég skil orð eins og rekkjunautur, því það tel ég vera rétt myndað, en sökunauts-nafnið er ekki endilega notað um þann samseka og ekki endilega um þann sem sannur er að því að hafa hagnast á sök eða saknæmu atferli, heldur er það í þessari lagasetningu notað um þann sem er borinn sökum og það finnst mér vera nokkuð annað en orðið gæti bent til í fljótu bragði. Á þessu vil ég vekja athygli.

Það væri freistandi að bæta nokkrum orðum við um hugleiðingar hv. þm. Svövu Jakobsdóttur um þann ósóma stjórnmálamanna og blaðaskúma að ætla að nota sér afbrotamál einhverra ógæfumanna sem pólitíska lyftistöng, en þá vil ég minna hana á, að farísear vorn uppi fyrir 2000 árum og kann að vera að þeir séu það enn.