06.12.1976
Neðri deild: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla mér nú ekki að gerast hér langorður um dómsmál almennt. Ég held ég hafi talað þegar nokkuð langt mál um þau og auk þess eru ýmsir fjarstaddir sem mér mundi þykja hlýða að væru nærstaddir ef ætti að taka þau mál sérstaklega fyrir. Ég get þó ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um þau mál í tilefni af þeirri ræðu sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir flutti hér áðan. Staðreyndin er nefnilega sú, að þeir, sem gagnrýnt hafa ásigkomulag dómsmála og lögreglumála hér í þessu landi, hafa ekki verið að krefjast þess að refsingar væru hertar eða völd lögreglunnar aukin, heldur hins, að lögum, sem sett hafa verið hér á Alþ., m.a. með atkv. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, yrði framfylgt. Ef hv. þm. er þeirrar skoðunar, að ef lögum landsins sé framfylgt, þá sé á Íslandi lögregluríki, þá á hún auðvitað að berjast fyrir því að breyta þessum lögum. Ég er hræddur um að þarna sé um talsverðan misskilning hjá hv. þm. að ræða, sem hún auðvitað getur fengið leiðréttan, einfaldlega annaðhvort með viðræðum við þá menn, sem hafa gagnrýnt ástand dómsmála hér, eða með því að lesa ræður þeirra eða skrif.

Það, sem verið er að berjast fyrir, er að lögin í landinu taki jafnt til allra, hvort heldur maður er ríkur eða fátækur, flokksleysingi eða flokksbundinn í hinum eða þessum flokknum. Ég vil benda hv. þm. á það, sem ég trúi að beri hagsmuni láglaunafólks fyrir brjósti og vilji jafnrétti í þjóðfélaginu, að það getur líka verið þörf á berjast fyrir því að menn séu jafnir fyrir lögunum. Og ég vil benda hv. þm. á það, að þegar dómstólakerfið er kannske 10 eða 15 ár að reka mál sem enginn botn fæst í, þá er sá málarekstur ekki gegn láglaunafólkinu. Það er ekki láglaunafólkið sem nýtur þeirra — eigum við að segja: vafasömu hlunninda að mál manna skuli geta verið meira en áratug í meðferð hjá dómsmálakerfinu án þess að þeir þurfi að sæta réttmætum dómi fyrir unnin afbrot. Það er ekki láglaunafólkið sem við erum að snúa geiri okkar að í þessu sambandi. Ég vil einnig benda hv. þm. á að það hefur komið fram, m.a. hjá ríkissaksóknara, að ef afbrotamál, einkum og sér í lagi fjársvikamál, séu af ákveðinni stærð, þá hreinlega ráði dómskerfið ekki við að afgreiða þau mál út úr rannsókn, — verði að láta sér nægja, svo ég noti hans orðalag, að opna nokkra glugga, stinga höfðinn inn, líta á það svartnættismyrkur, sem þar er, og skella svo öllu í lás. (Gripið fram í.) Þetta er ekki til hagsbóta fyrir láglaunafólk, að ef fjárplógsmaður brýtur nægilega mikið af sér, þá sé ástandið þannig að hann þurfi ekki að sæta refsingu fyrir nema hluta af broti sínu. Og ég trúi því seint, ekki fyrr en ég tek á, að það sé meining Alþb., flokks þessa hv. þm., að slíkt ástand sé eðlilegt og þeir, sem leyfi sér að gagnrýna slíkt ástand, séu aðeins pólitískir upphlaupa- og ævintýramenn. Ég hefði frekar átt von á því, að hv. alþb.- menn — og trúi því að þeir geri það margir — stæðu við hliðina á okkur og berðust fyrir því að lögin verði jöfn fyrir alla og allir standi jafnir fyrir lögunum. Ég trúi því einnig, enda hefur þessi hv. þm. sýnt það þegar til hennar kasta hefur komið hér á Alþ. í slíkum málum, að hún sé reiðubúin til liðs við okkur í því, og ég held að þessi ræða hennar hér áðan hafi verið byggð á misskilningi.

Þá vil ég aðeins fara nokkrum orðum um það frv. sem hér er lagt fyrir. Ég var einn af þeim, sem hvöttu mjög til þess að frv. yrði afgr. á síðasta þingi, og ég ætla ekki að tefja framgang þess nú með því að halda langar ræður um þetta frv. Ég vil aðeins benda mönnum á það, að okkur hefur verið tjáð það í allshn. og ég sé enga ástæðu til þess að draga í efa að það sé rétt, að eitthvert erfiðasta verkefni löggjafarsamkomu eða í lagasetningu og lagasmíð sé að setja nýjar réttarfarsreglur, það sé raunar ógerningur að dæma um það fyrir fram hvernig til tekst, aðeins reynslan ein geti skorið endanlega úr um hver árangurinn verður. Það er gert ráð fyrir því, bæði af allshn. og af réttarfarsnefnd og af hæstv. dómsmrh. sjálfum, að þessi frv., frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins og meðferð opinberra mála og önnur fylgifrv. rannsóknarlögreglufrv., verði tekin til endurskoðunar að reynslutíma loknum. Hæstv. ráðh. og réttarfarsnefnd og þau embætti, sem um þessi mál eiga að fjalla, munu fylgjast með því, hver reynslan verður af þessum frv., og taka þau síðan til endurskoðunar að fenginni þeirri reynslu og til lagfæringar. Og ég a.m.k. vil trúa því, að allshn.-menn, sem sýnt hafa þessu máli mikinn áhuga, vilji fyrir sitt leyti standa vel í ístaðinu að þessu leytinu til. þeir muni sjálfir reyna að fylgjast eitthvað með því hvernig framgangur þessara mála verður.

Út af þessu, sem ég hef sagt, og einmitt vegna þess vil ég leggja áherslu á það, að þó að menn sjái e.t.v. smávægilega meinbugi á lögunum eins og frv. er nú, þá láti menn það ekki verða til þess að tefja endanlega afgreiðslu málsins, ekki síst þar sem liggur fyrir yfirlýsing þeirra, sem frv. hafa samið og það eiga að framkvæma, að hér sé um tilraunaverk að ræða sem reynslan verði látin dæma.

Þegar ég sagði það, bæði nú í vetur og í fyrravetur, að ég mundi stuðla að því að þessi frv. yrðu samþ. fljótt og vel, þá um leið undirgekkst ég að gera að mínu leyti ekki till. um verulegar breytingar á frv., nema ég væri sannfærðar um það, og sannfærður um það m.a. með ráðleggingum og áliti þeirra manna, sem gerst eiga að vita, að þær breyt. mundu verða til bóta.

Af þeim erindum og umsögnum, sem allshn. hefur fengið um þetta frv., hefur verið ein umsögn sem ég get upplýst að ég var talsvert veikur fyrir að taka upp og beitti mér raunar fyrir í n. að yrði athugað sérstaklega, þó að niðurstaðan hafi orðið sú, að n. taldi ekki rétt að gera þá breyt., en það er ábending lagadeildar Háskóla Íslands um hvernig yfirstjórn þessarar stofnunar skuli vera hagað. Á fund n. komu prófessorar við lagadeild Háskólans með ákveðin tilmæli um breyt. á þessu frv., en þau tilmæli höfðu áður verið rædd í Lögfræðingafélagi Íslands og þeim verið þar a.m.k. ekki á móti mælt. Þeir bentu á, lagadeildarmenn, að eins og yfirstjórn lögreglumála væri nú háttað mætti raunar skipta lögreglunni í tvo hópa: annars vegar hina almennu lögreglu sem lýtur algjörri yfirstjórn dómsmrh. að því leyti til, að ráðh. hefur íhlutunarrétt um öll störf þeirrar lögreglu, hins vegar rannsóknarlögregluna sem lýtur yfirstjórn sakadómara í Reykjavík. En eins og menn vita er embætti sakadómara dómstóll. og pólitískur ráðh. hefur því ekki beina yfirstjórn yfir sakadómara að öðru leyti heldur en hreina „administratíva“ yfirstjórn. Pólitískur ráðh. getur ekki fett fingur út í eitt eða neitt sem dómstóll gerir. Þar sem rannsóknarlögreglan var undir stjórn sakadómara gat dómsmrh. hver svo sem það er, — ég er ekki að telja það líklegra að einn ráðh. mundi gera þetta frekar en annar, — en dómsmrh. gat ekki haft nein afskipti af daglegum störfum rannsóknarlögreglunnar. Með þeirri breyt., sem þetta frv. gerir ráð fyrir, liggur beinast við að álykta að þarna sé raunar verið að gera yfirstjórn rannsóknarlögreglunnar hliðstæða yfirstjórn almennu lögreglunnar þar eð rannsóknarlögreglustjóri ríkisins á að vera undir yfirstjórn dómsmrh. Þeir lagadeildarmenn óttuðust þetta ákvæði, bentu á að þarna væri verið að breyta til frá gildandi skipan og gæti verið hætta á að einhver dómsmrh., — alls ekki sá dómsmrh., sem nú situr, frekar en hver annar, — að einhver dómsmrh. kynni að líta svo á að með þessu hefði hann heimild til þess að skipta sér af daglegum störfum rannsóknarlögreglunnar, — heimild sem ráðh. hefur ekki nú. Lagadeildarmenn töldu eðlilegt að afstöðu rannsóknarlögreglustjóra ríkisins til dómsmrh. væri á svipaðan veg farið og afstöðu ríkissaksóknara til ráðh., þ.e.a.s. rannsóknarlögreglustjóri og rannsóknarlögreglan væru sjálfstæð embætti, sem aðeins lytu, ef má nota það orð, „administratívri“ yfirstjórn dómsmrh. Og þeir lagadeildarmenn lögðu til við n. að þessi breyt. yrði gerð á 1. gr. frv.

Þetta var sérstaklega rætt við réttarfarsnefnd og fulltrúa dómsmrn. Þessir aðilar töldu að þetta sjónarmið lagadeildar Háskólans væri út af fyrir sig alveg rétt. Hins vegar lýstu þeir því yfir, að þegar þeir sömdu þetta frv, hefðu þeir gengið út frá því sem gefnu að sú yfirstjórn, sem til er tekið í 1. frvgr. hver eigi að vera, ætti aðeins að vera, svo maður noti þetta erlenda orð aftur, „administratív“ yfirstjórn, þ.e.a.s. dómsmrh. væri að vísu yfirmaður rannsóknarlögreglunnar, en það vald hans ætti ekki að ná til dæmis í þá veru að hann gæti haft einhver afskipti af störfum rannsóknarlögreglunnar eða beitt einhverjum áhrifum við rannsóknarlögreglustjóra til þess að hann annaðhvort gerði eitthvað eða léti eitthvað ógert. Það er einnig einróma skoðun allshn. að þannig beri að skilja þetta ákvæði frv. Ég vil aðeins árétta þetta til þess að láta það koma skýrt fram í þingtíðindum að þetta er álit allshn., eins og hv. form. allshn. og frsm. tók fram í sinni ræðu, að þannig beri að skilja þetta ákvæði, þó að allshn. hafi ekki talið rétt að breyta frv. að till. lagadeildarmanna. Eftir að n. hafði rætt við þá aðila, sem sömdu frv., er það álit hennar allrar og álit þeirrar n., sem frv. samdi, að ákvæðin um yfirstjórn dómsmrh. yfir rannsóknarlögreglunni þýði aðeins almenna og takmarkaða yfirstjórn, en alls ekki það, að dómsmrh., hver sem hann verður, eigi nokkurn tíma að hafa heimild til þess að skipta sér beint af störfum rannsóknarlögreglu eða rannsóknarlögreglustjóra ríkisins, hvorki til þess að segja honum fyrir verkum um hvaða mál hann eigi að rannsaka, hvernig hann eigi að rannsaka þau, hvenær hann eigi að rannsaka þau né hvað hann á að láta ógert. Ég vil sérstaklega taka þetta fram, m.a. til þess að skýra það að ég ber ekki fram brtt. í þá átt sem álit lagadeildar Háskólans gekk út á, en ætla að láta nægja að taka þetta sérstaklega fram, þar sem ég veit það og hef orð þeirra, sem fundi allshn. hafa setið, fyrir því, að þetta er þeirra skilningur á frv. Þetta er þeirra vilji þegar þeir leggja frv. fram að lokinni athugun og mæla með samþykkt með ákveðnum breytingum.

Aðeins örfá orð um þær brtt. sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir lagði fram og lýsti áðan. Í fyrsta lagi er ákvæðið um að taka Keflavík og Keflavíkurflugvöll inn í umdæmi rannsóknarlögreglustjóra ríkisins. Mér finnst þetta mjög rétt ábending og get út af fyrir sig fallist á hana. Hins vegar vil ég taka það fram, að þetta er einnig álit hæstv. dómsmrh. Allshn. hefur borist vitneskja um að hæstv. ráðh. vill hafa þetta svona og hyggst hafa þetta svona. Hann óskaði hins vegar sérstaklega eftir því við allshn. að hann fengi ásamt væntanlegum yfirmanni rannsóknarlögreglu ríkisins að hafa nokkur áhrif á það hvenær þetta yrði gert, ekki vegna þess að hann ætlaði sér að draga þetta eða hefði ekki áhuga á því að gera þetta, heldur einfaldlega vegna þess að það er ætlast til að þessi ákvæði um rannsóknarlögregluna, þ.e.a.s. stofnsetning rannsóknarlögreglustjóraembættisins, komi til framkvæmda um mitt ár 1977, og þá getur vel farið svo, á þeim skamma tíma sem eftir er, svo maður tali nú ekki um það ef hv. Ed. gefur sér álíka góðan tíma til athugunar á málinu og þessi hv. d. hefur gert, — þá getur mjög vel farið svo að hið nýja embætti, rannsóknarlögregla ríkisins, sé þess ekki búin að taka einnig þetta svæði að sér á þeim tíma sem lögin gera ráð fyrir. Ég tel enga ástæðu til þess að trúa því ekki, að hæstv. dómsmrh. hafi fullan og einlægan áhuga á því að taka einnig Keflavík og Keflavikurflugvöll undir rannsóknarlögreglu ríkisins eða inn í umdæmi hennar, og sé enga ástæðu til þess að neita eindreginni beiðni hans til allshn. um það, að hann og rannsóknarlögreglustjóri ríkisins fái í sameiningu að ákveða hvenær þetta verður gert, ekki síst þegar hæstv. ráðh. er búinn að lýsa því til viðbótar yfir við n. að hann muni láta gera þessa breytingu eins fljótt og hann telji nokkurn möguleika á. Það er því ekki ágreiningur í allshn. um hvort þetta eigi að gera, hvort umdæmi rannsóknarlögreglustjóra eigi að ná til Keflavíkur og Keflavíkurflugvallar, heldur er aðeins meiningarmunur um það, að allshn.-menn, að undanteknum hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, hafa viljað verða við þeirri ósk hæstv. dómsmrh. að hann og væntanlegur rannsóknarlögreglustjóri fengju að meta hvenær þetta væri unnt, hvenær tæknilega væri unnt að gera þetta. Þegar liggur fyrir loforð hæstv. ráðh. um að þetta verði gert hið fyrsta sem hann telur möguleika á.

Síðari till. hv. þm. lýtur að því að skylda dómstóla eða auka skyldur þeirra til að skipa sakborningi, réttargæslumann. Ég er sammála hv. þm. Páli Péturssyni um að þetta er ljótt orð: sökunautur, og við gerðum tilraun til þess að fá því breytt, en okkur var skýrt frá því að þá þyrfti ekki aðeins að breyta orðalagi í þessum lögum, heldur í öllum lögum þar sem þessi hugmynd kemur fyrir, svo sem í almennum hegningarlögum, og út í það lögðum við hreinlega ekki, m.a. til þess að tefja ekki málið frekar en orðið er. En sem sé, till. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur lýtur að því að aukin verði skylda dómstóla til þess að skipa sakborningi réttargæslumann við yfirheyrslur hjá lögreglu, annaðhvort rannsóknarlögreglu eða almennri lögreglu. Það er rétt hjá hv. þm., að lagadeildin lagði mikið upp úr því að þessi heimild yrði veitt. Lagadeildin lagði mikið upp úr því að dómara yrði heimilað að skipa sökunaut, eins og þeir segja, sakborningi, eins og ég vil kalla, réttargæslumann við yfirheyrslu hjá lögreglu, rannsóknarlögreglu eða almennri lögreglu. Hins vegar er það ekki rétt, að lagadeild Háskólans hafi viljað ganga mjög langt í þessu efni, einfaldlega vegna þess að þarna er átt við að sakborningur geti, ef hann óskar þess, fengið skipaðan réttargæslumann til þess að vera við yfirheyrslur, ekki bara yfir sakborningi sjálfum, heldur öllum hugsanlegum vitnum sem viðkomandi lögregla teldi sér nauðsynlegt að yfirheyra í sambandi við viðkomandi mál. Og mér er fullkunnugt um það, að þeir lagadeildarmenn voru talsvert á báðum áttum um hversu rík skylda dómara ætti að vera í þessu efni.

Það er auðvitað ljóst, — ég held að það þurfi ekki neinn lagaspeking til að sjá það, heldur bara sæmilega heilbrigða skynsemi, — að það er mjög líklegt að í flestum, ef ekki öllum tilvíkum, a.m.k. öllum tilvíkum þar sem er um alvarleg afbrotamál að ræða, þá muni sakborningur óska þess að fá skipaðan réttargæslumann til þess að hlýða á yfirheyrslur, ekki aðeins yfir sjálfum sér, heldur yfir öllum mögulegum vitnum, á fyrsta stigi málsins, þ.e.a.s. allt frá því að viðkomandi vitni er fyrst kallað fyrir. Það má líka ganga út frá því að t.d. ríkissaksóknari hafi oft á móti þessari ósk.

Þarna stangast sem sé á sjónarmið annars vegar — við getum sagt ákæruvaldsins, sem vill upplýsa mál án allt of mikilla vafninga og er kannske hætt við að gangi of langt í þeim sökum, og hins vegar sakbornings sem hugsanlega er sekur, en vill nota hvert tækifæri, sem honum býðst, til þess að drepa því máli á dreif. Og hver á að skera þarna úr? Það getur að sjálfsögðu enginn gert nema hinn hlutlausi dómari sem á að kveða upp dóminn og hefur ekki lengur rannsóknina í sínum höndum, er ekki lengur hluti af rannsóknar- eða ákæruvaldi. Það er hann sem verður að vega það og meta og kveða upp úrskurð um það, hvort krafa sakborningsins sé eðlileg og nauðsynleg, hvort eigi að verða við ósk hans um að veita honum þessa ákveðnu vernd eða hvort vera kunni að þessi ósk og þessi tilmæli spilli því að hið sanna og rétta komi fram.

Tillögur þeirra lagadeildarmanna voru á þá lund — ég hygg ég fari þar alveg rétt með — að þetta vald ætti að láta í hendur hins hlutlausa dómara, en mjög varasamt og vafasamt væri að kveða mjög strangt á í lögum um skyldu dómara í þessu tilviki, því að dómari mundi þá ganga frekar lengra en skemmra í því að veita sakborningi þennan rétt. Það má vel vera, — það er kannske rangt munað hjá mér, — það má vel vera að þeir lagadeildarmenn hafi getað fallist á að auka þessa skyldu nokkuð, en mig minnir þó að svo hafi ekki verið. Ég er út af fyrir sig ekkert á móti því að fá sakborningum þennan rétt. Mér finnst sjálfsagt að þeir geti leitað réttar sins í þessu sambandi. En ég vil mjög vara við því, að þarna sé verið að leggja þrýsting á annan hvorn veginn á hinn hlutlausa dómara sem á að vega og meta hvað er rétt og réttlátt í þessu sambandi, og kýs því heldur að halda mér við ákvæði frv. eftir þá breyt. sem á því var gerð að tilmælum lagadeildar Háskólans, ekki síst fyrir það að þeir lagadeildarmenn hafa fullyrt á fundi allshn. að þau ákvæði, sem sett hafa verið í frv. að þeirra beiðni, og eru í frv. nú, séu í samræmi við þau ákvæði sem gilda um þetta efni í helstu nágrannalöndum okkar, þar sem almennt er viðurkennt að réttaröryggi sé hvað mest og tryggast.