06.12.1976
Neðri deild: 17. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það hefur heldur betur komið við kaunin í hv. samnefndarmönnum, stjórnarsinnum og þm. Alþfl., að ég skyldi rifja upp málflutninginn sem þeir hafa tíðkað í þessum málum. Mér þykir vænt um að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur allt í einu orðað hér að áhugi hans með öllum þessum umr. væri það, að allir væru jafnir fyrir lögunum. Ég minnist þess ekki að ég hafi heyrt hann bera það fyrr. Mér hefur fundist Alþfl. hafa ummyndast í fimmhöfðaðan lögfræðing með ofurtrú á dómsvaldi til þess að bæta það þjóðfélag sem við lifum í, og þeir virðast nokkuð viðkvæmir fyrir því, þegar þeir eru minntir á að það kunni að vera aðrar úrbætur sem úrslítum ráða í þessu efni. En batnandi manni er best að lifa.

Ég kvaddi mér nú aðallega hljóðs vegna þeirra ummæla sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafði um brtt. mína við frv. til l. um breyt. á lögum um meðferð opinberra mála, þar sem ég legg til að heimild dómara til að skipa sakborningi réttargæslumann verði breytt í skyldu. Ég veit að það þjónar afskaplega litlum tilgangi að deila hér um fullyrðingar sem komið hafa fram munnlega á fundum. Þar stendur fullyrðing gegn fullyrðingu. Þó vil ég enn standa fast við það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Ég innti fulltrúa lagadeildar eftir því, hvort það væri ekki hugsanlega rétt að gera þetta að skyldu, og sá fulltrúi, sem svaraði mér, var Stefán Már Stefánsson. Hann sagði, eins og ég tók fram áðan, að það kæmi vel til greina að gera það, og ég vænti þess að þeir nm., sem hlýddu á svar hans, muni bera það að ég fer hér með rétt mál. Ég held að þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson athugar þetta frv. betur, sem við erum nú að afgr. frá okkur, þá hefur dómari þrátt fyrir brtt. mína full tök á málinu, á yfirheyrslum og öðru, því að í 13. gr. stendur að réttargæslumaður skuli vera viðstaddur yfirheyrslu þyki það hættulaust vegna rannsóknar málsins. Þar með hefur dómarinn auðvitað fullt vald á því, hvernig framgangi málsins er háttað. Það er hans mat sem ræður því hvort réttargæslumaður er viðstaddur eða ekki. Og mér þykir leitt að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson skuli ekki geta fylgt þessari brtt. minni, þar eð ég tel að hún muni koma helst til góða þeim sakborningum sem eru umkomulausir og þekkja ekki þær flækjur réttarkerfis sem þjálfaðir glæpamenn kunna á.