07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

249. mál, rannsókn á reki gúmbjörgunarbáta

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 74 er fyrirspurn frá hv. 8. þm. Reykv. sem var stíluð til dómsmrh., en hins vegar ber mér að svara sem samgrh. og skal ég gera það hér með.

Með bréfi, dags. 13. ágúst 1974, fól samgrn. rannsóknarnefnd sjóslysa forgöngu um rannsókn á reki gúmbáta o.fl., sbr. þál. frá 29. apríl 1974. Rannsóknarnefndin hóf þegar undirbúning þessa máls í samstarfi við fulltrúa sem Landhelgisgæslan, Siglingamálastofnunin, Hafrannsóknastofnunin og Landssíminn tilnefndu í þessu skyni. Í desembermánuði 1974 lagði n. fyrir rn. áætlun um framkvæmd rannsóknarinnar ásamt kostnaðartölum, ca. 8 millj. kr. Áætlun þessari var komið á framfæri við fjvn., en jafnframt bent á að 6 millj. væru vegna leigu á varðskipi og spurning væri hvort eða hvernig ætti að greiða slíka þjónustu. Í fjárlögum fyrir árið 1975 voru veittar 2 millj. kr. til nefndarinnar til þessara rannsókna, og hófst þegar útvegun þeirra tækja, sem til slíkrar rannsóknar þarf, gúmbáta, neyðarsenda o.fl., jafnframt því sem leitað var eftir skipi til aðstoðar. Rn. hefur þrisvar sinnum á grundvelli afgreiðslu fjvn, óskað eftir skipi til rannsóknanna, en án árangurs. Ekkert fé var veitt í fjárlögum fyrir árið 1976 til þessa máls, en eftir munu standa 1163 þús. kr. af fjárveitingu 1975.

Í frv. til fjárlaga var gerð till. af hálfu samgrn. um fé til þessara rannsókna, en þrátt fyrir tilmæli rn. um fjárveitingu upp á 1.2 millj, kr, er hana ekki að finna í fjárlagafrv. Rn. hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá þessa fjárveitingu svo hægt sé að sinna málinu, og það hefur í samráði við Siglingamálastofnunina og sjóslysanefnd mótað hugmyndir til framkvæmda ef fjárveiting þessi fæst.