07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

72. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli hér á þessu máli og þakka hæstv. ráðh. fyrir það, hvernig hann hefur nú tekið á þessari ályktun sem samþ, var hér í fyrra. Ég tek það aðeins fram í þessu sambandi, að við hv. þm. Páll Pétursson og Karvel Pálmason, sem stóðum að tillöguflutningnum sem hér hefur verið getið um, höfðum ekki síður aðra í huga en vörubifreiðastjórana. Það var minnst hér einnig á stórvirkar vinnuvélar sem þykja sjálfsagðar við öll meiri háttar verk og eru orðnar feikidýrar, við vorum einnig með eigendur þeirra í okkar till. um Stofnlánasjóð. En við vorum ekki siður og kannske ekki síst með þá aðila í huga sem eiga hinar stóru farþegabifreiðar á hinum ýmsu sérleyfisleiðum, þá aðila sem nú eru beinlínis víða að gefast upp vegna lánsskorts til endurnýjunar tækja sinna. Og ég vona sannarlega að sú n., sem fær þetta mál til umfjöllunar, taki ekki síður á vanda þessara manna því hann er ekki minni heldur en vörubifreiðastjóranna og þeirra sem eru með stórvirku vinnuvélarnar.

Þegar frv. kom í Ed. í fyrra um vörubifreiðarnar eingöngu, hinar stóru vörubifreiðar, þá hafði ég ekkert þar á móti, en taldi það kannske eðlilegt sem fyrsta áfanga í átt við þá till. sem við höfðum þá þegar fengið samþ. Ég taldi reyndar að það frv. hefði verið óþarft á þessu stigi, að vera að slíta þá þar út úr, en hindraði það á engan hátt, enda væri ágætt ef eitthvað væri hægt að gera í þessa átt. En ég vil ítreka það, að það þarf að leysa vanda allra þessara aðila. Hér er um það dýr tæki að ræða að við getum ekki tekið einn flokk út úr af þessum aðilum.

Við þurfum að leysa vanda allra þeirra sem þarna eiga við mikil vandamál að stríða.