07.12.1976
Sameinað þing: 29. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

46. mál, Styrktarsjóður vangefinna

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 7. landsk. þm., hreyfir hér mjög merku máli og er ekki að ófyrirsynju að fsp. hans eru fram bornar.

Styrktarsjóður vangefinna var stofnaður með lögum 1958 um aðstoð við vangefið fólk og tekjur sjóðsins voru frá upphafi gjald sem lagt hefur verið á gosdrykki og öl. Í fyrstu var þetta gjald 10 aurar á hverja flösku. Árið 1962 var gjaldið hækkað í 30 aura. Árið 196& var það hækkað í 60 aura. Var þá jafnframt ákveðið að fjórðungur þess skyldi renna til Hjartaverndar.

Í stað laganna um aðstoð við vangefið fólk frá 1958 komu svo árið 1971 sérstök lög um vörugjald, en í 12. gr. þeirra laga voru Styrktarsjóði vangefinna tryggðar tekjur með gjaldi af gosdrykkjum og öll til loka júnímánaðar 1976, og var gjald þetta ákveðið í lögunum kr. 1.95 af hverjum lítra.

Á s.l. vetri, þegar að því leið að lög um þetta gjald rynnu út, óskuðu forráðamenn Styrktarfélags vangefinna eftir því að lögin yrðu framlengd og gjaldið hækkað verulega. Í bréfi til félmrh. segir m.a., að stjórn Styrktarfélags vangefinna fari þess á leit að lög um Styrktarsjóðinn verði framlengd um 5 ár með verulega hækkuðum tekjum á þeim tíma.

Félmrn. tók þetta mál til meðferðar og ræddi við forráðamenn Styrktarfélagsins, m.a. um það, hvað þeir hefðu í huga varðandi hækkun gjaldsins. Það kom í ljós að það, sem menn höfðu í huga, var að gjaldið, sem var fastbundið í lögunum frá 1971 kr. 1.95, yrði hækkað sem svaraði verðlagshækkunum á þessu tímabili. Könnun leiddi í ljós að gjaldið ætti að fjórfaldast til þess að hafa sama raungildi og árið 1971 þegar það var ákveðið. Í félmrn. var samið frv. um þetta efni í fyrravetur, að gjaldið yrði framlengt og að það yrði ákveðið 8 kr. á lítra í stað kr. 1.95. Með þessu hefðu sjóðnum veríð tryggðar tekjur til þess að halda áfram ýmsum þeim framkvæmdum sem eru í gangi og bráðnauðsynlegar eru.

Þegar þetta frv. hafði verið samið var um það rætt við fjmrn., sem taldi að málið heyrði undir það rn. þar sem þetta væri ákveðið í lögum um vörugjald. Félmrn. sendi því frv. til fjmrn. til fyrirgreiðslu. En þetta frv. var því miður ekki lagt fyrir Alþ. á s.l. vori og þess vegna féll gjaldstofn sjóðsins niður 1. júlí 1976.

Við undirbúning fjárlagafrv. fyrir næsta ár lagði fjmrn. til að þar sem lögin hefðu ekki verið framlengd, þá yrði veitt í fjárl, fyrir 1977 sú upphæð til styrktarfélags vangefinna sem hið umrædda gjald fjórfaldað mundi hafa gefið, en það voru 120 millj. kr. Í fjárlagafrv. var hins vegar ekki tekin inn sú upphæð, heldur 40 millj. Var það að vísu nokkur hækkun frá því sem er í ár, en aðeins þriðjungur þess sem gjaldið framlengt og hækkað mundi hafa gefið. Það er augljóst að þessi fjárveiting í frv. hrekkur skammt til að standa straum af þeim framkvæmdum sem nú eru á döfinni í þessum efnum.

Varðandi b-lið í fsp. hv. þm., um yfirstjórn sjóðsins og hugsanlega aðild landssamtakanna Þroskahjálpar, vil ég taka það fram, að styrkir úr Styrktarsjóði vangefinna hafa ávallt verið veittir í samráði við Styrktarfélag vangefinna. Nú hafa verið stofnuð landssamtökin Þroskahjálp, en að þeim standa 13 félög sem vinna að málefnum þroskaheftra í landinu. Hefur komið til tals að þessi nýju samtök verði umsagnaraðili um styrkveitingar og einnig að þau eigi aðild að yfirstjórn Styrktarsjóðsins. Hvort tveggja verður að sjálfsögðu tekið til vinsamlegrar athugunar, enda eðlilegt og sjálfsagt að þessi nýju samtök fái hér aðild að.

Varðandi 3. liðinn í fsp. hv. þm., um verkefni sem sjóðnum yrðu falin í tengslum við hugsanlega eflingu hans, þá er auðvitað ljóst að jafnvel þó lögin hefðu verið eða verði framlengd og gjaldið fjórfaldað, þá munu fjárráð Styrktarsjóðsins í rauninni ekki nægja til þess að standa straum af þeim framkvæmdum sem hafnar eru og nauðsynlegar eru.

Það er rétt til upplýsinga að skýra þingheimi frá því hvernig þessu fé, sem Styrktarsjóðurinn hefur fengið á undanförnum árum, hefur verið varið. Til ársloka 1975 hefur verið veitt úr sjóðnum sem hér segir.

Til Kópavogshælis 127 millj., til Sólheimahælis, Grímsnesi, 12 millj., til Styrktarfélags vangefinna 4.8 millj., til Skálatúnsheimilis 40 millj., Tjaldanesheimilis 10.5 millj. Sólborgar, Akureyri, 56 millj., Bjarkaráss, Reykjavík, 11 millj., til Egilsstaðaheimills 400 þús. Samtals eru þetta um 263 millj. kr.

Af þeim framkvæmdum, sem nú eru á döfinni og eru fjármagnaðar af Styrktarsjóði vangefinna, eru þessar helstar: Kópavogshælið, vistheimilið Sólborg á Akureyri, Egilsstaðaheimilið og Tjaldanesheimilið.

Það er því ljóst að Styrktarsjóður vangefinna hefur gegnt miklu hlutverki í uppbyggingu stofnana fyrir vangefið fólk hér á landi, en mörg verkefni biða úrlausnar. Er í þessu sambandi sjálfsagt að minnast þess fórnfúsa og ómetanlega starfs sem félög áhugamanna inna af hendi til að bæta hag vangefinna. Það var fyrir atbeina þeirra sem lög um aðstoð við vangefna voru sett árið 1958, en fyrir þann tíma höfðu ríki og sveitarfélög ekki sinnt málefnum þessa fólks að marki. Á síðustu árum hefur mikið áunnist í þessum efnum, en betur má ef duga skal. Það þarf að hraða svo sem kostur er byggingarframkvæmdum, sem hafnar eru, og gera áætlanir um aukna starfsemi sjóðsins.

Ég vil að lokum taka það fram, að mér virðist Alþ. eiga um tvo kosti að velja í sambandi við fjáröflun, annaðhvort að hækka stórlega, ég vil segja þrefalda þá fjárhæð, sem veitt er í fjárlagafrv. til þessara mála, eða að fara þá leið, sem ég teldi æskilegri, að flytja frv. um framlengingu þess gjalds, sem Styrktarsjóðurinn hefur áður notið, og þá miðað við að gjaldið verði 8 kr. á lítra í staðinn fyrir kr. 1.95 eins og verið hefur undanfarin ár.